08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

115. mál, kaup á Þorlákshöfn

Matthías Ólafsson:

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) telur þetta frv. sérstaklega varhugavert og sér ekki brýna nauðsyn til að koma fram með það nú. Eg veit ekki, hvað hann kallar brýna nauðsyn. En það kalla eg brýna nauðsyn, að stemma stigu fyrir því, að margir menn farist og mikið fé tapist. Ef slíkt blasir við, þá á ekki að fara eftir því, hvort það er aukaþing eða venjulegt þing. Þegar tjónið vofir yfir, þá verðum vér að leggja fram vorn allra síðasta eyri til hjálpar. (Pétur Jónsson: Er það svo?). Já, áreiðanlega er það mín skoðun. Sami háttv. þm. talaði um það, að honum fyndist málinu nægilegur sómi sýndur með því að vísa því til stjórnarinnar með rökstuddri dagskrá. Það álít eg ekki. Þá er miklu betra að fella málið þegar í stað.

Mér kom á óvart ræða háttv. 1. þm. Hún. (G. H.), sérílagi af því, að hann hafði fengið upplýsingar hjá sama manni og eg, og eg trúi ekki öðru, en að eg hafi tekið eins vel eftir eins og hann. Og það má undarlegt heita, ef landsverkfr. hefir sagt honum alt annað heldur en okkur. Hér á nú ekki að vera um höfn að ræða, heldur aðeins um garð á þurru landi. En ef landsverkfr. er haldinn, þá finst mér ekki minna heimtandi, en að hann skýri rétt frá.

Það er spurt, hvað þetta muni kosta. Eg veit það ekki með vissu, því að landsverkfr. er ekki búinn að gera nákvæma áætlun um það.

Mikið má það vera, ef garður þessi er á þurru landi, og undarlegt, að gagnstæðar skoðanir skuli koma fram um það, hvort verk þetta verði í raun og veru fullkomið eða ófullkomið. Eg þori að bera verkfr. fyrir því, að verk þetta muni kosta um 75 þús. kr., eða að minsta kosti ekki mikið yfir það. Væri það nú sannar upplýsingar, að garður þessi væri uppi á landi, þá væri eg fús á að hverfa frá þessu, en eg veit, að það er ekki rétt, og eg verð að halda því fram, að þeir sem séð hafa þennan stað og þekkja þar til, geti líka haft vit á þessu, þótt ekki sé verkfr. Eg fæ ekki skilið, að ef verkfræðingur er beðinn að gera. athuganir um höfn og teikningu af henni, að hann þá geri mælingu á þurrlendi, því það vita verkfræðingar eins vel og aðrir menn, að slíkt kemur engum að gagni.