08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

115. mál, kaup á Þorlákshöfn

Ráðherra (B. E.):

Eg er máli þessu mjög hlyntur, enda mjög kunnugt um, hvað hafnleysi bagar sýslurnar austanfjalls, en þó lít eg svo á, að ekki sé gjörlegt að veita fé til þessa fyrirtækis, nema nákvæm teikning og áætlun sé áður framlögð.

Mér finst það ætti að vera föst regla hjá alþingi, ekki sízt þegar um stórfyrirtæki er að ræða, að leggja ekki fé í þau fyrr en fengin er nokkurnveginn vissa fyrir því, að þau sé þannig í garðinn búin, að fult gagn megi verða af þeim, og svo ljóst, að nokkurnveginn ábyggilegt yfirlit sé gert yfir kostnað við þau. Hér deila menn jafnvel um það, hvað verkfræðingar hafi sagt um málið, svo lítið af gögnum liggur hér frammi. Virðist mér því tiltækilegast, að stjórninni væri falið það, að undirbúa þetta mál rækilega til næsta þings.