08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

115. mál, kaup á Þorlákshöfn

Einar Jónsson:

Eg vil vita með vissu, hvort það er 7. málið á dagskránni, sem er til umræðu. Mér virðist menn blanda saman 6. og 7. málinu og eru þau þó ekki svo samstæð, að það þurfi að ræða þau saman. (Pétur Jónsson: 6. málið er tekið aftur). Þá vil eg leyfa mér að spyrja: Hversvegna er verið að setja þetta í tveimur liðum á dagskrána. Ef þinginu virðist rétt að gefa stjórninni heimild til að kaupa Þorlákshöfn, þá var nóg að hafa þetta í einum lið á dagskránni. Það var svo mikið talað við síðustu umræðu um nauðsynina á mótorbátakví í Þorlákshöfn, að það er í rauninni óþarfi að tala meira um þá nauðsyn. Þá var gerð svo glögg grein fyrir þörfinni, að deildarmenn ætti ekki að vera í neinum vandræðum að skera úr, hvorumegin þeir eigi að vera í þessu máli.

Mér er sama, hvort landið á Þorlákshöfn eða einstakir menn, og eg vil hvort sem er veita styrk til mótorbátahafnar þar .

Þar sem háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) sagði, að málið vantaði undirbúning, þá hygg eg, að hann hafi haldið sínum principum fram á sumum sviðum, án þess að þau »princip« hafi haft betri undirbúning. Það er ákveðið í frv. að stjórnin skuli því að eina festa kaup á jörðinni, að samkomulag náist um sanngjarnt verð. Það er því alveg hættulaust fyrir landið að gefa stjórninni heimild til að kaupa þessa jörð. Eg hygg, að eigendur jarðarinnar vilji fremur eiga jörðina heldur en selja hana, sérstaklega ef höfnin yrði bætt. (Sveinn Björnsson: Fyrir hvaða verð má kaupa jörðina? ). Háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) spyr, fyrir hvaða verð megi kaupa jörðina. Hann þarf ekki annað en að lesa. 2. gr. frv. til þess að komast að raun um það. (Sveinn Björnsson: Eg sé þar ekki nefnt neitt verð). Það er satt, að þar eru engar ákveðnar tölur tilfærðar, en eg hygg, að svo lögfróður, skynsamur og sanngjarn maður, sem háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.), ætti að geta skilið, að með 2. gr. er fyrirbygt, að jörðin verði seld okurverði. Annars finst mér það vera hálfgerð »partiska« af þm., að setja fram Svona spurningu. (Hannes Hafstein: Má stjórnin gefa 500 þús. kr. fyrir jörðina?) Nú kemur sú spurning fram, hvort stjórninni sé heimilt að gefa 500 þús. kr. fyrir Þorlákshöfn. Eg hygg, að hinn háttv. spyrjandi hafi ekki lesið 2. gr. fremur en háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.). Þar stendur svo:

»Nú semur eigi um verð eða aðra kaupskilmála á ofangreindri jörð, og er landsstjórninni þá heimilt að taka hana eða það af henni, sem nauðsynlegt er, eignarnámi til fiskibátahafnar«, o. s. frv. (Hannes Hafstein: En ekki ef samkomulag fæst um verðið). Það hefir ekki komið á daginn hingað til, að vér hefðum svo vitlausa stjórn, að henni væri trúandi til að gefa 500 þús. kr. fyrir Þorlákshöfn. Og þó að nú sé nýafstaðin stjórnarskifti, þá ber eg það traust til ráðherrans, að hann láti sér ekki til hugar koma að láta svo hátt verð fyrir jörðina. Eg tel engan efa á því, að Þorlákshöfn verði virt sanngjarnlega. Hún er góð eign, sem landinu er engin skömm að eignast. En það er altaf hægt að spyrja svo fávíslega, að erfitt verði að svara. (Bjarni Jónsson: Þeir koma þó ekki að tómum kofanum). Eg skal ekki vera að gefa tilefni til hláturs hér í deildinni. En þeir menn sem nú gera spaug að þessu máli ætti að vera sjómenn þarna austurfrá, eða þá, að standa í sporum kvenna og barna þeirra manna, sem verða að snúa frá lokuðum sundum. Þá mundu þeir ef til vil láta styrk til bátahafnar á þessum stað sitja í fyrirrúmi fyrir styrk til heimflutninga mynda Einars Jónssonar, til þess að geyma þær hér í óhæfu húsi og láta þær liggja undir skemdum.