28.07.1914
Neðri deild: 23. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Umboðsm. ráðherra (Klemens Jónsson) :

Í rauninni er það ástæðulaust fyrir mig að taka frekari þátt í þessum umræðum. Það er forsetinn, sem á að fella úrskurð um það, hvort málið verður tekið til meðferðar eða ekki. En af því að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) lét í ljós undrun sína yfir því, að lögfróður maður skyldi halda fram annari eins vitleysu, verð eg að segja nokkur orð. Hann sagðist vera óviðbúinn að ræða málið. En mér er nær að halda, að hann hafi verið vel undirbúinn, því að hann kom þegar með bók og vitnaði þar í ákveðnar blaðsíður sínu máli til stuðnings. Þetta sýnir einmitt það, að hann hefir búist við því, að þessi »vitleysa« kæmi fram, að hann hefir vitað það, að hér var verið að drýgja stjórnarskrárbrot. Eg veit vel, hvað stendur í þessari stjórnlagafræði, sem vitnað er i, og það á alls ekki við það tilfelli, sem hér ræðir um, og eg veit það líka, að samskonar ákvæði í grundvallarlögunum dönsku eru skilin á sama hátt í Danmörku eina og eg hefi hér látið í ljós. En hitt er vitanlegt og kemur ekki þessu máli ögn við, að stjórnin verður iðulega að grípa til útborgana milli þinga upp á væntanlega aukafjárveitingu. Það er á ábyrgð stjórnarinnar, og vilji þingið ekki samþykkja aukafjárveitinguna þegar til þess kemur, verður ráðherra sjálfur að bera kostnaðinn. Þetta er eðlilegt, og ráðherrann verður að eiga undir því, hvort þingið verði á sínum tíma samdóma honum um nauðsyn greiðslunnar.

Eg skal svo ekki frekara orðlengja um þetta, en eg leyfi mér að ítreka það, að réttast er að fresta því þangað til ráðherrann er kominn heim. Þess verður varla lagt að bíða héðan af, verður líklega á morgun.