06.08.1914
Neðri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Eg skal geta þess, að það var ekki í móðgunarskyni við háttv. framaögum., að eg setti það í nefndarálit mitt, að mér fyndist hann höggva þar, er hann skyldi hlífa, heldur var það að eins til þess að minna hann á, að draga ekki ofmikið taum íslenzku botnvörpunganna gegn öðrum fiskimönnum.

Svo stendur á um þetta mál, að sjómenn hafa kvartað undan því, að þessum botnvörpungum sé hjálpað til þess að brjóta landslögin. Þessi umkvörtun hefir komið fram á þingmálafundum í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og efast eg ekki um, að hún sé á rökum bygð. Það er því ekkert ranglátt, að menn nemi þessa undanþágu úr gildi.

Í öðru lagi finst mér það sjálfsagt vegna alþjóðaréttar, að íslenzkum botnvörpungum sé í þessu efni ekki gert hærra undir höfði en öllum öðrum.

Það liggur í augum uppi, að því fyrr sem landhelgissjóður vor vex, því fyrr getum vér tekið landvarnirnar í vorar eigin hendur, og því fyrr verða þær að verulegu gagni.

Á því virðist mér engin hætta, að aðrar þjóðir styggist við, að botnvörpungasektirnar verði hækkaðar, því að þær hafa aldrei verið þyrnir í þeirra augum. Hitt vegur líka margfaldlega upp á móti því, að allir eru gerðir jafnir fyrir lögunum.

Þessi undanþága var í upphafi veitt, af því að menn héldu, að botnvörpungar vorir mundu eigi brjóta landslögin; en síðan hefir komið í ljós, að þeir eru ekki hóti betri en aðrir, og er óþarfi að ein lög geri þeim auðveldara að brjóta önnur lög. Það er og ekki einskisvert, að menn megi vera óhultir fyrir yfirgangi.

Þá skal eg taka það fram, að mér virðist þetta frumvarp vera til bóta að því leyti, að yrði það samþykt, yrði lögin á tveim stöðum orðin skýrari en áður var.

Að öllu þessu athuguðu finst mér einsætt, að láta frumvarpið halda áfram gegnum þingið.

Annað mál er hitt, að ef mönnum lízt ekki að taka þessa undanþágu af íslenzkum botnvörpuskipum, þá má koma að brtill. um það við 3. umr. Það er réttara, en að fella frv., því að það felur í sér öll ákvæði, sem til eru um botnvörpuveiðar, en þau eru nú í fernu lagi.