08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

8. mál, grasbýli

Flutn.m. (Jóhann Eyjólfsson):

Ástæðan fyrir því, að eg hefi flutt þetta frumvarp inn í þingið, er, að seinni árum hefir það komið verulega í ljós, að þeir menn, sem hafa eindregið óskað eftir að lifa í sveit, það er að segja að lifa þar sjálfstæðu lífi — ekki vera annarra hjú — hafa hvergi getað komið sér fyrir á þann hátt, þeir hafa hvergi getað fengið sneið af jörð, hvað þá heldur heila jörð; og ef þeir hafa haft fé og fjölskyldu í eftirdragi, þá hafa þeir naumast getað komið sér fyrir í húsmensku nema með sérstökum neyðarkjörum, þessir menn hafa því orðið að flytjast í kaupstaðina, þó þeim væri það leitt, eða þá að fara til Ameríku. Það er bæði ilt og óholt þegar menn af þessum ástæðum eru neyddir til að breyta um aföðu sína, hverfa frá því lífsstarfi, sem þeir hafa alist upp við frá barnæsku, og þeim er ljúfast og kærast og ganga að öðru starfi í annarri stöðu, sem þeim er ókunn og óljúf.

Þetta er óholt fyrir landbúskapinn og þá fyrir landið í heild sinni. Einhver helzta aðalástæðan fyrir því, að fólkinu fækkar í sveitunum og hér um bil eina ástæðan fyrir því, að búendunum fækkar, er, að ýmsir efnamenn, eða þeir menn, sem hafa mikið undir höndum og vilja búa stórt, hafa lagt og eru að leggja undir sig kot og hjáleigur. Þeim þykir fyrirhafnarminna og ódýrara að auka við. sína jörð á þann hátt, og gjöra hana með því góða og stóra bújörð, en að umbæta og auka svo grasræktina á sinni eigin jörð, að hún fyrir það fleyti jafnmiklum búpeningi. Víða er það líka, að þar sem áður var tvíbýli, þar er nú einbýli, sem einnig hefir orsakast af framangreindum ástæðum.

Það er auðvitað ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að svona sé, því að á meðan löndin eru óræktuð og ódýr, þá er það meiri hagsvon fyrir þann, sem vill búa stórt, að búa á stóru landi en litlu, og flestum er svo farið, að þeir hugsa mest um sinn hag, meira en um aðra og meira en um þjóðfélagið í heild sinni.

En það mun sannast, að þegar jarðræktin hér á landi er komin í gott horf, þá verður það talin meiri hagsvon að búa aðeins á því landi, sem menn geta ræktað svo, að það gefi sem allra mætan arð. Nú er stefnan sú, að slengja jörðunum saman, því að þeir bændur, sem það geta, vilja hafa yfir sem mestu landi að ráða. Frumvarpið fer í þá átt að bæta úr þessum annmörkum. Ef það nær fram að ganga og verður að lögum, er það trú mín og föst sannfæring, að með því sé grundvöllur fenginn undir það, að bændum og búaliði geti fjölgað í landinu og drjúgt spor stigið í þá átt, að auka og flýta fyrir ræktun landsins. Eins og frumv. ber með sér, er ekki ætlast til þess, að stór stökk verði gerð þegar í byrjun. Það er einungis farið fram á, að stofnun 10 grasbýla verði styrkt á ári, en um leið er lögð áherzla á, að stofnun þeirra verði trygð sem allra bezt. Þess vegna er ætlast til að býlin verði sæmilega stór og landið vel fallið til ræktunar. Sömuleiðis er ætlast til að rífleg lán verði veitt til býlanna og að þau verði ekki bygð öreiga mönnum. Það er eins um þetta mál og önnur, að það hefir feikimikil áhrif, hvernig fyrsti grundvöllurinn er lagður. Eg ber það traust til háttv. deildarmanna, að þeir athugi málið með vinsemd og taki því eins og það á skilið. Efast eg ekki um, að úr þessu frumvarpi geta orðið góð lög oss og þjóðinni til heilla og blessunar.

Eg finn enga ástæðu til að tala frekara um málið að sinni, en leyfi mér að stinga upp á, að kosin verði 5 manna nefnd, að þessarri umræðu lokinni.