08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

8. mál, grasbýli

Guðm. Hannesson:

Mér þykir nokkur ástæða til að tala lítið eitt alment um málið þegar við 1. umr. Um einstök atriði þess mun eg aftur á móti ekki tala nú.

Frumv. sýnist vera sæmilega vel samið og allálitlegt að því leyti. En það, sem mér finst athugavert, er það, að aðalatriðið eða grundvöllurinn, sem öll hugsjónin byggist á, er því miður veikur. Og er leitt að þurfa að segja þetta.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því, að íslenzk mold sé svo arðberandi, að tiltölulega mjög lítill blettur gefi það af sér, með sæmilegri hirðingu, sem til þess þarf að framfleyta meðalfjölskyldu. Nú veit eg ekki gerla, hvort það hefir verið hugsun háttv. flutn.m. (J. E.), að þeir menn, er gáfu sig við þessum búskap, ætti að hafa góðan stuðning af því að vinna sem daglaunamenn hjá öðrum bændum. En ef hugsun hans hefir verið sú, þá vil eg benda á, að þó að smærri býli í öðrum löndum hafi byrjað á þann veg, þá hefir leitt að því, að menn vilja, að býlin sé svo stór, sem fjölskyldan annar að hirða um, og að hún geti haft uppeldi af þeirri vinnu einni. Slík býli bæta því ekki beinlínis úr vinnufólksskorti bænda. En auðvitað eykst vinnulýðurinn óbeinlínis, með því að giftu fólki fjölgar í sveitunum. — Í mótsetningu við það sem ytra er, þar sem menn vita nokkurnveginn nákvæmlega hvað mikið land þarf til þess að gefa þær tekjur með sæmilegri hirðingu, sem hæfilegar eru til þess að meðal fjölskylda geti lifað af þeim, þá er alt slíkt órannsakað hér. Ef miðað er við 10 hektara land, þá er stærðin ekki mikil. Í Bandaríkjunum, þar sem margir Íslendingar búa, er stærð jarðanna, sem fjölskyldan annar þó að vinna að, 40–70 hektara. Víða í Evrópu er stærðin einnig rífleg, í Ungverjalandi t. d. 25 hektarar og í Rússlandi 18 hektarar. Eru þetta þó frjósöm lönd í samanburði við Ísland. Það sem alt þetta veltur á er: Fær maðurinn nægilegan áburð undan þeim gripum, sem hann getur veitt sér, til þess að rækta það fóður, sem hann þarf handa þeim? Eða eins og eg hefi orðað það í stuttu máli: Rækta húsdýrin fóður sitt? Það hefir verið skrifað þó nokkuð um þetta, en það er alt á pappírnum og gefur ekki nándar nærri þær upplýsingar, sem nauðsynlegar eru.

Árið 1884 skrifaði Torfi í Ólafsdal ritgerð í Andvara, þar sem hann kvartar yfir því, að þessi gáta skuli ekki hafa verið leyst og skýrir frá reynslu sinni í þessu efni. En hún var sú, að velhirtur áburður undan einni kú nægði til þess að rækta með 24 hesta af töðu. Mér er kunnugt um annan bónda, sem hirti vel áburð sinn og reynsla hans var nákvæmlega hin sama og Torfa, að kýrin ræktaði 24 töðuhesta. Eg skrifaði um þetta efni fyrir nokkrum árum tvær greinar eða svo, og taldi víst, að í ýmsum héruðum væri talaverður halli á þessu. Annars get eg vísað til ritgerðar í Búnaðarritinu eftir Jónas bónda Illugason í Brattahlíð, sem gerði athuganir um þetta í heilum hreppi. Hyggur hann, að hallinn sé ekki meiri en svo, að góð nýting vegi þar upp á móti. Eftir hans upplýsingum horfir málið því vel við. Páll Jónsson og aðrir búfræðingar hafa skrifað um málið í Ársriti Ræktunarfélagsins, Frey og víðar. En þó að þessir menn hefði átt að geta gefið áreiðanlegar skýrslur um efnið, hafa þeir alls ekki gert það. Þetta eru langar ritgerðir um köfnunarefni í heyi, um efnafræðisrannsóknir á mykju o. s. frv., bókvit eitt og annað ekki. Alt er þetta miðað við erlenda reynslu og þá sérstaklega danska reynslu. Aftur á móti er alls ekkert tillit tekið til þess óyggjandi sannleika, að eftir því, sem norðar dregur, þarf jörðin meiri og meiri áburð til þess að gera sama gagn. Feilberg, danskur fræðimaður, sem ferðast hefir hér um, og margir muna eftir, undraðist stórlega, hvílík undur þyrfti hér af áburði, margfalt meira en þyrfti annarstaðar í þeim löndum, er sunnar lægi. Eg hefi spurt mig víða fyrir, og einnig séð það sjálfur, að í mörgum héruðum er hallinn gífurlegur, svo að sumstaðar nægir áburður undan einni kú ekki til þess að rækta ½ kýrfóður, jafnvel þó að áburðurinn sé sæmilega hirtur. Auðvitað er þetta mismunandi í hinum ýmsu héruðum, svo að sumstaðar mun hallinn vera nálega enginn.

Fer þetta mikið eftir því, hvað jarðvegurinn er góður. En málið horfir þannig við mér, að það sé bæði skömm og svívirða, að þetta skuli ekki hafa verið rannsakað rækilega fyrir löngu, bæði frá fræðimanna sjónarmiði, en þó einkum og sérstaklega út frá reynslunni. Þrátt fyrir það, þó að stórfé hafi verið varið til sveitabúskaparins, til rannsókna á því, sem fyrir honum mætti greiða, og þrátt fyrir alla búfræðingana, er þessu jafn ósvarað nú eina og 1884, þegar Torfi í Ólafsdal ritaði um málið.

Það, sem þörf er fyrir er ekki það, að samin verði lög um grasbýlabúskap á Íslandi — því miður. En aftur á móti er þörf á því, að Búnaðarfélagið eða Ræktunarfélagið, eða þau félög bæði, gangist fyrir, að framkvæmdar verði á einu, tveimur, þremur eða fleiri býlum tilraunir í þessa átt, og fái til þess góða og þar til hæfa menn. Bæði þessi félög eru svo vel stæð, að þeim er þetta ekki um megn, og svo mundi ekki standa á þinginu að veita fé til þessarra framkvæmda. En hvað lengi, sem skrifað verður um málið, er það einskis virði, meðan alla reynslu vantar. Ef reynslan skyldi nú leiða það í ljós, að með betri búskaparaðferðum væri auðið að búa á tiltölulega litlum jarðarbletti á arðvænlegan hátt, þá er eg sannfærður um, að það á ekki langt í land, að ný og betri öld renni upp yfir landið, og fólkinu fjölgi. Því að það er áreiðanlegt, að menn flýja sveitirnar og margir landið vegna þess, að þeir fá ekki jarðnæði. En meðan þessi sönnun er ekki fengin, er mönnum ekki allskostar láandi, þó að þeir vilji hafa jarðirnar stórar. Það er ómótmælanlegt, að kotabúskapurinn hefir verið illa séður hér á landi frá landnámstíð, og það ekki að öllu leyti að ástæðulausu.

Mér skilst, að fyrst af öllu verði menn að fá gerðar ljósar tilraunir, og ef þær gefast vel, þá er tími til kominn að semja lagafrv. um málið, en fyrr ekki.