08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

8. mál, grasbýli

Flutn.m. (Jóhann Eyjólfsson):

Eg verð að játa, að eg fylgdist ekki vel með þessari löngu efnafræðis og áburðarræðu hv. 1. þm. Húnv. (G. H.). En þó skildist mér hann komast að líkri niðurstöðu og eg, að gera þyrfti tilraunir til þess að vita, hvort sannanir fengist fyrir því, að slíkur búskapur sem þessi geti orðið arðberandi. Það er einmitt hugsun mín með frumv. að fá sönnur fyrir því, hvort ekki sé hægt að framfleyta fjölskyldu á litlum jarðarbletti vel ræktuðum. Það er satt, að eg veit ekki, hvað hægt er að komast af með minstan jarðarblett. Það var einmitt stærðin, sem eg var í mestum vafa um, og get eg vel fallist á, að hún sé tiltekin oflítil. En því er hægt að breyta, og ætti það að vera eitt af aðalverkefnum nefndarinnar að komast þar að fastri niðurstöðu. Mér er sárt um, að frumv. verði drepið, en óska, að háttv. deildarmenn rétti mér hendina til þess að breyta því þannig, að það geti orðið sem bezt úr garði gert. Eins og eg tók fram, er meiningin með frv. ekki önnur en sú, að gerð verði tilraun með grasbýlabúskap hér á landi. Ef sú tilraun gefst illa, er ekki hætt við, að margir hætti sér út á þá hálu braut, að ráðast í slíkan búskap, og er þess vegna ekki mikil hætta á, að lögin gerði mikinn skaða.