08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

8. mál, grasbýli

Guðmundur Hannesson:

Eg held, að háttv. 1. þm. Árn (S. S.) hafi annaðhvort ekki heyrt ræðu mína eða misskilið hana. Eg skil ekki, að nokkrum manni, sem heyrði mál mitt, hafi getað dulist, að eg álít þetta mjög mikilsvert mál. Eg álít heill landsins, hvað sveitabúskapinn snertir, einmitt undir því komna, að oss takist með aukinni jarðrækt að geta komist af með miklu minni jarðarbletti fyrir hvert heimili en nú gerist. En það er að byrja á öfuga endanum að búa til lagabálk um hlut, sem enginn veit með vissu, hvort er framkvæmanlegur eða ekki.

Eg get ekki annað séð, en að dæmið um Þykkvabæinn sé blátt áfram villandi. Eg veit ekki betur, en að bændur þar sæki hey sitt aðallega á flæðiengi, svo búskapur þeirra er bygður á alt öðru en túnrækt. (Sigurður Sigurðsson: Hann byggist á gras- og garðrækt.) Það eru engar upplýsingar, og eg skil ekki, að árangurinn yrði seinni að sjást, þótt Búnaðarfélagið hefði umsjón með þessum tilraunum. Það sem eg hafði á móti upplýsingum búfræðinganna var ekki það, að þeir hefði ekki oft og tíðum gefið bændum góð ráð og bendingar. En upplýsingar þeirra eru að mestu samtíningur úr dönskum og norskum búnaðarritum, og í þessu efni getum vér naumast miðað við það, sem tíðkast í þeim löndum. Eg hugsa mér, að aðferðin hjá Búnaðarfélaginu við slíkar tilraunir yrði með líku sniði og frv. þetta fer fram á, en eg álít það of snemt að demba svona lögum yfir landið áður en rannsakað er, hversu arðvænleg þessi fyrirtæki geta orðið eða hvernig þeim yrði hentast fyrirkomið.