13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

45. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Bjarni Jónsson:

Eg geri ráð fyrir, að þeir þreyti deiluna um tekjurnar háttv. flutn.m. (St. St.) og háttv. þm. S:-Þing. (P. J.). Eg þori ekki að segja neitt um það, hvor þar hefir réttara fyrir sér. Þá tillögu háttv. flutningsm. (St. St.) vil eg styðja, að frumv. verði vísað til sömu nefndar, sem áður hefir verið kosin til að íhuga samskonar mál. Sömuleiðis vil eg styrkja málstað hv. flutningsmanns um það, að varla sé hætt við að síld þrjóti á Siglufirði í bráð, sérstaklega fyrir þann dugnað sem hann sýndi í því í fyrra að búa henni hreiður í Eyjafirði. Tel eg ólíklegt, að síldin leiti ekki í hreiðrið á meðan það er friðað. — En það skal eg játa, að ef þessi sími og aðrir verða færðir í 1. flokk, þá vil eg gjarnan að fleiri hangi þar aftan í. Eg hefi sem sé aldrei getað skilið, hvers vegna landsjóður leggur síma á sinn kostnað og kostar hann síðan að öllu leyti í sumum héruðum en ekki öðrum. Þau héruð, sem fengu símann fyrst, komast að beztum kjörum. Hin fá að sitja á hakanum þangað til þinginu þóknast annað, og síðan þurfa þau að borga fyrir það að hafa verið látin sitja á hakanum. Það má vera að sannleikurinn í þessu máli liggi svo djúpt, að eg hafi þess vegna ekki getað grafið hann upp. Nefndin kemur honum þá væntanlega upp á yfirborðið. En eg vona að mér fyrirgefist þó að eg telji þetta þangað til handahófsverk, rangindi og heimsku.