15.07.1914
Neðri deild: 12. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

49. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Flutningsm. (Skúli Thoroddsen):

Í frv. sem hér liggur fyrir, ræðir aðeins um það, að flytja símalínu, sem nú er í 3. flokki, upp í annan fl.

Á síðastl. þingi mintist eg, að mig minnir, á nauðsyn þessa, þegar rætt var um það að fá símaleiðina að Látrum í Aðalvík rannsakaða sem allra fyrst og gæti eg því látið mér nægja að vísa til röksemda minna þá. Meðal annars benti eg þá á það, að úti fyrir Aðalvík eru fiskimið mikil, svo að fiskiveiðafloti vor heldur sig þar löngum, er á líður vorið, og þá eigi síður um skammdegismánuðina, og væri það því mjög hentugt, ef sími lægi að Látrum, sem og að Höfn á Hornströndum, svo að sjómenn gæti brugðið sér þar inn, til að fá fregnir eða koma frá sér símskeytum, enda gæti skip þá og spurst fyrir um, hvort óhætt væri að fara fyrir Horn, vegna ísa, og sparað sér þannig margan óþarfakrókinn.

Loks má benda á, að þar sem héruðin, er hér eiga hlut að máli, eru bæði mjög strjálbygð, og auk þess afskekt, þá er það að sjálfsögðu enn ríkari hvöt, til þess að neita þeim því síður um þessi litlu þægindi, sem síminn getur veitt þeim, enda hjálparskyldan við þau þá og því brýnni.

Eg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en leyfa mér að stinga upp á, að máli þessu verði vísað til ritsímanefndarinnar, sem kosin var hér í deildinni um daginn.