13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

36. mál, friðun á laxi

Benedikt Sveinsson:

Eg get ekki neitað því, að mér þykir þetta frv. töluvert athugavert. Eg veit að vísu, að þingmenn Árnesinga hafa fengið áskorun um að flytja það frá mönnum, sem búa við ósa Ölfusár. En eg vil spyrja, hvort þeir hafi líka fengið áskorun frá þeim mönnum, sem búa við Stóru-Laxá og Litlu-Laxá og aðrar þær þverár, sem falla í Hvítá? Mér er nær að halda að svo sé ekki.

Eins og menn vita, má setja laxakistur niður í ár, og mega þær altaf vera niðri að undanskildum 36 stundum um helgar þann þriggja mánaða tíma, sem veiðitíminn stendur. Er það gert til að friða laginn, Svo að hann geti einhverntíma gengið óhindrað upp í árnar. Ekki má girða lengra en út í miðja á, en víða hagar svo til, að straumþungi í ánum er meiri annarsvegar, og eru þá girðingarnar settar þeim megin, sem laginn gengur. Við það heftist gangan, og ef kisturnar eru aldrei teknar upp, getur svo farið, að veiðin ofar í ánum eyðileggist með öllu. Þetta er því allmjög athugavert gagnvart þeim, sem ofar búa við árnar, og finst mér, að þingmenn Árnesinga ætti að athuga það vel, áður en þeir gera þetta að kappsmáli og leggjast á móti, að nefnd verði sett í málið.