13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

36. mál, friðun á laxi

Einar Arnórsson:

Háttv. samþingismaður minn (S. S.) hefir fært mönnum sanninn um, að þessi beiðni er ekki gerð í trássi við þá, sem ofar búa við árnar, þ. e. a. s. þverár þær, sem falla í Hvítá, svo að væntanlega fellur sú athugasemd háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) niður.

Viðvíkjandi hinu, að hætt sé við, að þetta yrði til að gjördrepa laxinn, eftir því sem mér skildist af ræðu hans, þá get eg ekki séð, að sú mótbára verði þung á metunum. Samkvæmt gömlum reglum eru þvergirðingar í veiðiám með öllu bannaðar. Ákvæði um það eru til frá elztu tímum, eru bæði í Grágás, Járnsíðu og Jónabók, og hafa líka verið tekin upp í gildandi lög. Er enn bannað að þvergirða, sjá 2. gr. laxveiðalaganna. Þar segir einnig svo, að ef laxveiðatæki eru sett sínum megin hvors lands, þá má bilið ekki minna vera en 30 faðmar. Þó að þetta frv. nái fram að ganga, hindrar það ekki laxgöngur fremur en verið hefir.

Það er fjarri mér að álíta Árnesinga ólöghlýðnari en aðra menn á landinu, en það er ekki gott að gæta þess, að svona lögum sé nákvæmlega fylgt. Eins og menn vita, er erfitt hér á landi, í fámenninu og strjálbygðinni, að koma lögum yfir alla þá, sem lögin brjóta, og nær það ekki síður til veiðilaga en annara laga. Það hagar svo til hér vegna staðháttanna, að það er ekki altaf hægt að ná í lögregluna þegar brot eru framin.

Eg álít, að ákvæði 1. gr. laxveiðilaganna, um 36 klukkutíma friðunina, sé að mestu leyti pappírsgagn, og eg sé ekki, hvaða ástæða getur verið til að halda fast í slík pappírslög, sem hafa aðeins siðspillandi áhrif á landsfólkið og ómögulegt er að halda uppi í framkvæmdinni.