04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Kristinn Daníelsson:

Mjer þykir það ekki nema eðlilegt, að fjárlaganefndin leitaðist við að spara, svo að tekjuhallinn yrði sem minstur í fjárlögunum, og jeg vona, þó að jeg sje ekki alstaðar samdóma hinni háttv. nefnd, að jeg spilli þar ekki mjög miklu. Þær eru ekki ýkjamargar eða miklar, breytingartillögur þær, er jeg flyt.

Þó hefi jeg nokkrar breytingartillögur, og vil jeg skýra stuttlega frá þeim. . Fyrsta tillagan, sem jeg hefi í eftirdragi, er á þingskj. 728, og er hún þó í rauninni frá sjávarútvegsnefndinni, svo jeg tala hjer fyrir hennar hönd. Tillaga þessi fer fram á það, að fjeð til eftirlitsins úr landi með fiskveiðum í landhelgi verði hækkað úr 8 þúsund kr. upp í 10 þúsund krónur. Það stendur svo á því, að eftir að fjárlaganefnd háttv. neðri deildar hafði áætlað þessar 8 þúsund krónur, þá kom fram beiðni frá Norðurlandi, sem nefndin taldi að vísu fulla þörf á að verða við, en sá sjer þó ekki fært eftir atvikum að taka upp tillögu um svo mikla fjárveiting, sem farið var fram á. Þá tók nefndin það ráð, að bera fram frumvarp um, að þeim hluta útflutningsgjaldsins af síld, sem útgjörðarmenn hafa notið, yrði varið til eftirlitsins, og mundi þá hrökkva langt til; en síðan hefir það undir meðferð frumvarpsins snúist svo, að útgjörðarmenn hljóti helming gjaldsins sem áður, svo að þegar að eins helmingur gengur til eftirlitsins, þá er það auðsætt, að þessar 8000 kr. fullnægja ekki rjettmætum kröfum í þessu efni. Vona jeg að jeg þurfi ekki að ræða þetta atriði frekar, en hygg að jeg megi bera það fram, að háttv. fjárlaganefnd sje tillögunni velviljuð, og muni ekki leggja á móti henni.

Önnur breytingartillaga mín er á þingskj. 707. Jeg legg þar til, að upp í tölu sjerfræðinganna, er styrks njóta gegn því að kenna við háskólann, verði tekinn Magnús læknir Júlíusson, með hóflegan styrk,1200 krónur, til vara 1000 krónur. Jeg óska að hærri upphæðin nái samþykki háttv. deildar. Jeg vil stuttlega skýra frá því, að Magnús læknir Júlíusson sókti til Alþingis 1913 um styrk, og bauðst þá til þess að gegna ókeypis Röntgens og Finsens áhöldunum, en því var þá ekki sint. Síðan hefir hann barist áfram upp á eigin býti, með að hafa ofan af fyrir sjer, og það gengur erfiðlega, einkum í þessari dýrtíð. En einmitt við starfsemi hans í þessari sjerfræðigrein hefir það komið í ljós, að brýn þörf er hjer á sjerfræðingi í þessari grein.

Meðal annars heyrir undir grein hans sjúkdómur, sem mjöðg er að ágerast hjer og hefir þegar komið til orða að lög þyrfti að setja til að hindra útbreiðslu hans, og er því mikil þörf á lækni með sérfræðiþekkingu, er geti veitt nauðsynlega hjálp og fátæklingum ókeypis lækningu. Jeg vona því að deildin sjái sjer nú fært að veita þessum manni þenna styrk, sem honum var synjað um fyrir 2 árum. Að því er sjálfan manninn snertir. þá get jeg mælt með honum hið besta; hann er reglusamur efnismaður og líklegur til nytsemdar í starfi sínu.

Þá vil jeg minnast á breytingartillöguna á þingskjali 726, sem fer fram á að veittar verði alt að 1000 kr. til að styrkja sjúklinga, sem hafa berkla í hörundi, sem er afarvondur sjúkdómur, til lækninga erlendis. ,Jeg hefi borið tillöguna fram með tilliti til eins sjerstaks sjúklings, Önnu Magnúsdóttur, sem nefnd er í brjefi því, er jeg hefi látið prenta í breytingartillögunni. Það hefir verið kostað miklu upp á hana í samfleytt 6 ár af fátækum fósturforeldrum og af sveit hennar, og ef hún fær ekki þenna styrk, verður henni fyrirmunað lækningar og hún alla æfi örkumla aumingi, þar sem þetta er eina von um bót. Jeg veit ekki hvort það, sem hjer er farið fram á að veitt verði, er nægilegt, því að fleiri munu þurfa þenna styrk en þessi eini sjúklingur. Jeg veit það, að 800 kr. nægja ekki, og 1000 kr. ef til vill ekki heldur, þótt jeg fari ekki fram á meira; þessi hækkun er svo lítil, að engu munar í fjárlögunum, og því vona jeg að deildin taki henni vel.

Þá á jeg breytingartillögu á þingskjali 727. Háttv. fjárlaganefnd hefir lagt til að tillagið til sýsluvega verði lækkað úr 20 þús. niður í 15 þús. Jeg hefði kosið að þessi upphæð mætti standa óhögguð, en jeg vildi þó ekki fara svo langt, og hefi því lagt til að hún verði ákveðin 18. þús. Jeg legg ekkert sjerstakt kapp á þetta, en get tekið undir með háttv. 2. kgk. (Stgr.J.) um að sanngjarnt er að þetta fje verði veitt. Til þessara vega hafa alt af komið tillög annarsstaðar frá, og sýnir það hvað mönnum þykir mikils um vert að fá þessa vegi. Jeg vil að eins taka það fram, að það er ekki vegna þess vegar, sem er í mínu sýslufjelagi, að jeg ber þetta fram, því að jeg vona að sá vegur fái alt af það, sem hann þarf með, en jeg þykist vita að það muni vera fleiri vegir, sem þarf að veita fje til. Við höfum samþykt í sumar að símalagningin skuli ganga meðfram þessum vegi, og hann þarf því að vera fullger áður en síminn verður lagður.

Jeg hefi nú minst stuttlega á þessar breytingartillögur mínar. Um aðrar brtt. við þenna kafla fjárlaganna hefi jeg fátt að segja. Jeg vil út af orðum háttv. 2. kgk. (Stgr. J.) um þær 5 þús. kr., sem nefndin hefir lagt til að veittar yrðu til verndar bannlaganna, geta; þess, að jeg er samdóma nefndinni um þetta, þó að það hafi í för með sjer nokkra hækkun á gjöldunum, en í nefndarálitinu er sýnt fram á að það er ekki víst, að þetta yrði í sjálfu sjer kostnaður, því að vel getur farið svo, að meira fje fengist fyrir það, sem aukið tolleftirlit gæfi drýgra í aðra hönd. Jeg vil geta þess, að reyndur lögreglustjóri hefur látið í ljós að þetta mundi geta komið að miklu gagni. Það mundi auðvitað verða notað mest hjer, enda mundi það koma hjer að mestu haldi. Jeg legg því til að þessi tillaga verði samþykt. Læt jeg svo útrætt að þessu sinni.