11.09.1915
Efri deild: 58. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Framsögum. (Magn. Pjetursson):

Eins og háttv. deild hefir sjeð, hefir háttv. Nd. ekki viljað fallast á allar breytingar okkar hjer í deild. Tvo liði, sem feldir voru hjer í deild, hefir hv. Nd. sett inn aftur. Um annan þeirra, fjárveitinguna til Fossvallasmjörbúsins, er það að segja, að nefndin vill ekki gjöra hana að kappsmáli, því að þótt hún telji hana eigi rjettmæta, þá treystir hún sjer ekki til að halda sinni skoðun þar til streitu. Nefndin hefir komið fram með brtt. sínar á þgskj. 868. Þær eru þrjár að tölu, og er hin fyrsta um að veita Háskólanum 500 kr. til bókakaupa handa kennaranum í klassískum fræðum. Hann sendi nefndinni erindi, þar sem hann skýrði frá því, að hann gæti ekki kent fræði sín fyrir bókaleysi. Nefndin leitaði álits landsstjórnarinnar um málið, og áleit hún nauðsynlegt að útvega bækurnar, með því að Háskólinn ætti þær ekki til. Nú hefir Háskólinn ekki fje til bókakaupanna; en hvorki er hægt að ætlast til þess, að kennarinn kaupi bækurnar fyrir eigin fje, nje að hann kenni bókalaus. Því leggur nefndin til, að 500 kr. sjeu veittar til bókakaupa þessara.

Önnur tillagan er sú, að veittar sjeu 500 kr. til vjelstjóraskóla.

Ráðherra sendi nefndinni erindi um það, að mjög nauðsynlegt sje, að hinn fyrirhugaði vjelstjóraskóli geti tekið til starfa þegar í haust, með því að tilfinnanleg vöntun sje á vjelstjórum hjer á landi; og ýmsir hafa sótt um aðgöngu að fyrstu deild vjelstjóraskólans á næsta hausti. Ráðherra hefir skýrt frá því, að það muni kosta 1000 kr. að reka skólann til nýjárs, ef hann tekur til starfs 1. október í haust. En þá sparast um leið 500 kr., sem veittar eru til vjelstjórakenslu við stýrimannaskólann, sem verja má til þessarar kenslu; vanta þá ekki nema 500 kr., og leggur nefndin til að þær sjeu veittar í fjáraukalögunum 1914 og 1915.

Um þriðju brtt. þarf jeg ekki að fjölyrða. Það hefir áður verið gjörð grein fyrir henni hjer í deild. Nefndin hefir ekki en getað sannfærst um, að rjett sje að ganga inn á þá braut, að endurgreiða toll af endursendum íslenskum vörum. Slíkt gæti haft vafninga og meiri eða minni fjárútlát í för með sjer, því að gera má ráð fyrir, að ýmsir kæmu með sams konar kröfur sem Sláturfjelagið, ef því er veitt áheyrn, og mundi erfitt að greiða sumstaðar úr þeirri flækju, svona eftir dúk og disk.