19.08.1915
Efri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

102. mál, Flóaáveitan

Jósef Björnsson :

Þetta mál er eitt af þeim málum þessa lands, sem vafalaust er mjög mikils virði, og þess vert, að því sje vel tekið. Það, sem tillagan fer fram á, er að unnið sje að því að undirbúa, að hin svo nefnda Flóaáveita geti komist í framkvæmd. En áður til þeirra framkvæmda kemur, er hin brýnasta nauðsyn til að athuga málið sem vendilegast frá öllum hliðum. Það er hverjum manni auðsætt, að í þessu landi er mikill auður fólginn í árvatninu, og gæti hann komið að margföldum notum við það, sem nú er, ef vel undirbúnar og hyggilegar vatnsveitur á stærri svæðum kæmust í framkvæmd á hentugum stöðum. En til þess, að svo verði, þarf að sjálfsögðu vel að athuga öll slík mál, áður en lagt er út í framkvæmd þeirra. Hentugast hygg jeg að væri, að gjörðar væri rækilegar tilraunir með jökulvatnsáveitur á fáum stöðum, um hvernig að skuli fara til þess, að árangurinn verði sem bestur. Það má ef til vill segja, að þetta hafi verið gjört með Miklavatns-áveitunni, en sú tilraun misheppnaðist, eins og kunnugt er, af því að undirbúningurinn var, að sögn, ekki svo rækilegur sem skyldi, en framkvæmdin handa hóf. Þær þúsundir, sem til þess hafa farið, hafa því komið að litlu gagni, svo að byrja verður aftur með nýjum fjárframlögum, ef sú áveita á að koma að gagni. Flóaáveitan er stórfyrirtæki, sem kostar mikið fje. Það er því nauðsynlegt, að þetta fyrirtæki verði svo vel undirbúið og athugað sem kostur er á. Og hjer er farið fram á, að skipa þrjá menn til að athuga og undirbúa fyrirtækið. Fyrst og fremst til þess, að leita samninga við jarðeigendur í Flóanum um allt, er til þeirra tekur, viðvíkjandi áveitumálinu, sjerstaklega hvernig landssjóður geti fengið endurborgaðan þann kostnað, sem hann verður að bera, ef verkið er unnið fyrir landssjóðsfje, að meira eða minna leyti; hvort hann geti orðinn endurgoldinn í landi, sem líklegt er til ábúðar og í sæmilegu verðmæti fyrir landið. Í öðru lagi er mönnum þessum ætlað að athuga, hversu lögnám á jörðum á áveitusvæðinu yrði framkvæmt, og hver kostnaður og áhætta flyti af því fyrir landið. Til þessa þyrfti fremur lögfræðing heldur en búfræðing eða verkfræðing, enda er í tillögunni farið fram á þrjá menn, en ekki að eins einn vinni að undirbúningi verksins, og virðist mjer það hyggilegast Á þann hátt má búast við fjölbreyttari þekkingu en ella, og betri athugun frá sem flestum hliðum. Þriðji liður tillögunnar hljóðar um það, að þessum mönnum sje einnig ætlað að gjöra tillögur um, hvernig bygðinni, skiftingu landsins, býlastærð og býlafjölda, túnstæðum o. s. frv., yrði haganlegast fyrirkomið. Þessi liður útheimtir bæði verkfræðis- og búfræðisþekkingu.

Jeg fæ ekki betur sjeð en að þetta. mál sje svo mikils vert fyrir landið í heild sinni, að sjálfsagt sje fyrir þingið, að láta rannsaka það sem best, og býst jeg því við, að deildin samþykki þessa tillögu. En áður en jeg sest niður, vil jeg geta þess, þess, að mjer finst hæpið, að þessar 2500 kr., sem farið er fram á að verði veittar, nægi til að undirbúa málið svo rækilega, sem nauðsyn krefur.