06.09.1915
Efri deild: 53. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

126. mál, strandferðir

Frsm.strandferðan. Ed. (Jósef Björnss.);

Till. sú, er hjer liggur fyrir háttv. deild, er stutt, og verða menn því ekki lengi að átta sig á, hvað í henni liggur, en það er þetta, að Alþingi felur stjórninni að semja við Eimskipafjelag Íslands um strandferðir Íslands árin 1916 og 1917 á grundvelli álits samvinnunefnda um strandferðir, sem prentað er á þgskj. 561.

Þótt þingsályktunartillagan sje stutt, er málið þannig vaxið, að rjett er að fara um það nokkrum orðum, til þess að rökstyðja það, að rjett sje að samþykkja till. Eins og hæstv. ráðherra tók fram, þegar það mál lá fyrir þessari háttv. deild snemma á þinginu, að kjósa þyrfti 5 manna nefnd, til þess að athuga strandferðir, þá er sá tími var bráðum út runninn, er til tekinn var í samningum við Björgvinjarfjelagið, að það skyldi annast strandferðir hjer við land. Það var ekki skyldugt að halda uppi strandferðum lengur en til næstu aprílbyrjunar, því að þá er sá umsamdi tími út runninn. Sá samningur, sem gjörður var við hr. Thor E. Tulinius verður út runninn nú í árslok, og hlaut það þess vegna, að verða hlutverk þeirrar nefndar, er um strandferðamálin átti að fjalla, að komast að samningum um hver skyldi hafa á hendi strandferðir fyrir árin 1916–1917, og hvernig þeim skyldi háttað. Að því er snertir það, að fá endurnýjaða samninga við þá, sem áður höfðu haft á hendi strandferðirnar, þá bæði lýsti hæstv. ráðherra yfir því, þegar þetta mál lá fyrst fyrir þessari háttv. deild, að Björgvinjarfjelagið myndi ófúst á að endurnýja samninga, og þegar nefndin grenslaðist eftir því, þá varð hið sama ofan á, að fjelagið var ófúst á það. Enn fremur leitst strandferðanefndinni, sem ekki var ein í ráðum, heldur vann með 7 manna nefnd úr háttv. Nd., að auk þess, sem Björgvinjarfjelagið var ófúst til samninga, þá væri það ekki æskilegt, að strandferðir þess hjeldu áfram, því að þær höfðu reynst gallaðar og ekki hentugar nje æskilegar. Um hr. Thor E. Tulinius er það að segja, að hann var ófáanlegur til að endurnýja samninga, en bauð að selja skip sitt, Ísafold, fyrir ákveðið verð, 72 þús. kr. Ef að því hefði verið horfið, að skip hefði verið keypt í þeim tilgangi, að landssjóður sjálfur tæki að sjer strandferðirnar, þá gat nefndin ómögulega mælt með slíku skipi sem Ísafold, því að verðið var svo hátt, að það náði engri átt, og var því algjörlega horfið frá því ráði. Þá var farið að leita hófanna um samninga við eina fjelagið, sem æskilegt varð að telja, að tæki að sjer strandferðirnar. Þetta fjelag er Eimskipafjelag Íslands. Á síðasta þingi var gjört ráð fyrir því, að það fjelag tæki að sjer strandferðirnar með tveim nýjum og góðum gufuskipum. En sökum atriðsins gat það ekki komið til nokkurra mála, að hægt væri að leggja út í það, að kaupa ný skip. Og þótt fjelagið hefði viljað leggja út í þann kostnað, að borga 1/3 meira fyrir skip en vanalega, þá var samt ómögulegt að fá þau nógu snemma, til þess að taka við strandferðunum á rjettum tíma. Vegna þess, að það þannig var ómögulegt fyrir Eimskipafjelag Íslands, að taka að sjer strandferðirnar með þeim skilyrðum, sem gjört var ráð fyrir í fyrra, varð að leita að nýjum samningsgrundvelli við fjelagið. Þetta gjörði nefndin. Og þótt nú stæði svo á, að fjelagið sæi sjer ekki fært að reka strandferðir með sömu skilyrðum og gjört var ráð fyrir í fyrra, þá tjáði það sig þó ekki ófúst að leigja skip til strandferðanna og reka þær með líku fyrirkomulagi og ætlast var til á síðasta þingi. Jeg skal nú með fáeinum orðum drepa á það, sem mestu máli skiftir, þegar til þessa nýja fyrirkomulags kemur. Um ferðir þær, sem skipunum eru ætlaðar, skal jeg segja það eitt, að það varð að samningum milli strandferðanefndanna og Eimskipafjelags Íslands, að bygt skyldi á þeim áætlunum, er gjörðar voru á Alþingi í fyrra, enda þótt færri ferðir yrðu farnar en gjört var ráð fyrir þá.. Mjer nægir því að vísa til þeirrar áætlunar, sem er prentuð í Alþingistíðindunum frá því í fyrra, og strandferðanefndin þá samdi, en það er áætlunin á fgskj. IX. með strandferðanefndarálitinu þá (Alþt. 1914. A., þgskj. 364 sbr.395). Að því er þessar áætlanir snertir, þá er þeim örlítið vikið við, en þó eru þær breytingar svo lítilfjörlegar, að jeg sje ekki ástæðu til að víkja orðum mínum að þeim, heldur vísa eingöngu á álit strandferðanefndanna. Skip þau, sem gjört er ráð fyrir að taka á leigu, er auðvitað ekki hægt að segja með vissu um hvernig yrðu, en það varð þó að samningum, að þau skyldu vera engu lakari en Austri og Vestri, sem alkunnir eru hjer við land. Með tveimur slíkum skipum, sem fengin væru á leigu, gæti þá fjelagið haldið uppi líkri áætlun og þeirri, sem samþykt var á þingi 1914. Þegar talað var um fjárhagshliðina, um það, hve mikið Eimskipafjelagið skyldi fá fyrir að halda uppi strandferðum, þá reyndist talsvert örðugt að ná fullu samkomulagi. Þó fór svo að lokum, að sæmilegir kostir urðu fyrir Eimskipafjelag Íslands annars vegar og landssjóð hins vegar. Eru þeir á þann veg, að styrkurinn, sem fjelagið fær úr landssjóði, skal vera ákveðinn 75000 kr., þó með þeim skilyrðum, vegna þess, hve skipaleiga og kol eru í mikið hærra verði heldur en áður en stríðið byrjaði, að Eimskipafjelaginu skuli bættur sá halli, sem það kann að líða af þeim ástæðum. Eins og sakir standa, er ómögulegt að segja með neinni vissu, hve kostnaðurinn verður mikill á árunum 1916 og 1917. Stríðið getur hætt von bráðar og eðlilegt ástand komist á. Hins vegar getur líka stríðið haldið áfram og komið jafnvel lakara ástand en nú er. Það er því eðlilegt, að svo ungt fjelag sem Eimskipafjelag Íslands, geti ekki tekið á sig þá áhættu, að reka strandferðir, hvernig sem skipaleiga og kolaverð verður, nema trygging fáist fyrir því, að það fái hallann bættann, ef einhver verður. Nefndinni fanst það eðlilegt, að fjelagið mætti ekki leggja út í þessa áhættu, og þegar svo á það er litið, að þetta er þörf landsins, sem um er að ræða, þá er það eðlilegt, að landið beri áhættuna, sem er því samfara að reka strandferðirnar, sem auðvitað getur brugðist til beggja vona, hve mikil reynist, vegna stríðsins.

Þetta eru þá aðalatriðin í þeim samningsgrundvelli, sem til er vísað í þingsályktunartillögunni. Hún fer í þá átt, að Alþingi mæli með að gjörðir sjeu samningar við Eimskipafjelag Íslands, um að það taki að sjer strandferðirnar með tveimur skipum, ekki lakari en Austri og Vestri, eftir áætlunum sem líkustum þeim, sem gjörðar voru á Alþingi í fyrra, og að fjelagið fái fyrir þessar strandferðir 75000 krónur, auk þess halla, sem það kann að bíða af aukavátryggingargjaldi og hækkuðu kolaverði, vegna stríðsins.

Jeg vil leggja áherslu á orðin vegna stríðsins, og benda háttv. deild á fylgiskjalið VI. b við álit nefndarinnar á bls. 952 –953 í Alþt.1915 A., þar sem þeir geta sjeð lokaskilmálana. Jeg vil benda á, að sökum stríðsins, getur fjelagið gjört frekari kröfur en ef stríðið hættir. Auðvitað má segja, að náið er nef augum; landsmenn eiga fjelagið og þeir eiga líka landssjóð, og hljóta því að óska, að hvorugt skaðist. En landssjóður er styrkari, og því eðlilegt að hann beri áhættuna af áframhaldi stríðsins.

Um þetta mál skal jeg svo ekki hafa fleiri orð að sinni; jeg vil ekki tefja háttv. deild lengur, en vænti þess, að hún sjái sér fært, að samþykkja þessa þingsályktunartillögu.