06.09.1915
Efri deild: 53. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

126. mál, strandferðir

Sigurður Stefánsson:

Jeg verð að segja það, að gagnvart þingsályktunartillögunni á þgskj. 689 er jeg í töluverðum vanda staddur með atkvæði mitt. Það er einkum að kenna því atriði í samningnum, sem háttv. þm. Skagfirðinga (J. B.) talaði um, að landssjóður eigi að bera tekjuhallann af strandferðunum. Jeg álít það ekki verra, að landssjóður gjöri sjálfur út, heldur en að hafa það svo, að aðrir eiga að stjórna útgjörðinni, en hann á að bera kostnaðinn. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg vantreysti Eimskipafjelaginu, heldur af því að jeg álít, að hjer geti verið um svo stórkostlegt tap fyrir landssjóð að ræða. Eins og eðlilegt er, tekur Eimskipafjelagið það fram, að kostnaðurinn er mikið meiri en vanalega. Tekjuhallinn getur því orðið geysimikill. Jeg sem þingmaður verð því að skoða huga minn vel, áður en jeg greiði atkvæði í máli þessu. Hjer verður að líta á það, að Alþingi má ekki þröngva kosti Eimskipafjelags Íslands, og eðlilegt er, að Eimskipafjelagið setji þessa kosti. Við megum ekki gjöra neitt til þess, að teygja Eimskipafjelag Íslands út á hættulega braut, en verðum hins vegar einnig að athuga hag landssjóðs. Þetta er afarmikilsvert og áríðandi mál, en jeg hygg, að jeg líti nokkuð öðrum augum á það en almenningur. Jeg hygg, að þingið gæti vel forsvarað, þótt það trygði ekki fastar strandferðir á næsta fjárhagstímabili, og held jeg að það yrði ekki sjerlega tilfinnanlegt fyrir landsmenn. Jeg held að Eimskipafjelag Íslands gæti hagað svo ferðum skipa sinna, að það gæti bætt upp strandferðaleysi á þeim stöðum, sem helzt yrðu útundan. Þessir staðir yrðu mest einstaka hafnir, en miklir hlutar af landinu, t. d. Vestfirðir og Austurland, stæðu jafnt að vígi, þótt engar strandferðir væru trygði. Á þá staði koma alt af skip hvort sem er, þar sem er nógur varningur og góðar hafnir. Jeg held að vjer myndum bjargast með ferðum Sameinaða fjelagsins, Björgynjarfjelagsins og Eimskipafjelagsins, þetta fjárhagstímabil, þótt Alþingi gjöri ekki neinn fastan samning um strandferðirnar. Það er ómögulegt að segja, hve tekjuhallinn getur orðið mikil af þessum ferðum, og hefði það verið eitthvert annað fjelag en Eimskipafjelag Íslands, sem í hlut hefði átt, hefði það ekki verið takandi í mál, að gjöra svona lagaðan samning. Skipaleiga er dýr, og rekstur allur er dýr, og getur þó orðið enn dýrari, ef ófriðurinn helst lengi enn. Jeg játa, að þetta er má ske of mikil hræðsla, en hins vegar er þó áhættan svo mikil, að jeg vildi láta koma fram undir umræðunum ugg minn við að leggja út í þetta fyrirtæki. Mjer dettur ekki í hug að lá strandferðanefndinni eða Eimskipafjelagi Íslands, að þessir samningar hafa verið gjörðir. Það hefði verið hreinasta óvit af Eimskipafjelaginu að ganga inn á annað. Spursmálið er, hvort það er nauðsynlegt, að leggja út í þessa áhættu. Þegar maður lítur í fjárlögin, sjer maður að dregið hefir verið úr fjárveitingum til samgöngumála. Hjer er líka um samgöngumál að ræða. Jeg held að það mætti forsvara það, þótt ekki sje haldið öllu í sama horfi og í vanalegum árum eða góðárum, þegar engin hætta er á ferðum.

Jeg vil biðja háttv. deildarmenn að skilja ekki orð mín svo, sem jeg sje að álasa strandferðanefndinni. Jeg vildi einungis leggja það undir deildina, hvort henni findist þessi ótti ástæðulaus.