06.09.1915
Efri deild: 53. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

126. mál, strandferðir

Framsm. (Jósef Björnsson):

Jeg vil að eins segja örfá orð út af því, sem háttv. þm. Ísaf. (S. St.) sagði. Hann mintist á það, að hann teldi það frekar ókost en kost, að landsstjórnin stjórnaði ekki fyrirtækinu alveg, úr því að hún ætti að bera áhættuna. Jeg verð að segja það fyrir hönd strandferðanefndarinnar, að hún lítur öðrum augum á þetta, því að hún álítur að fyrirtækinu verði á engan hátt betur stjórnað en með því, að fela það Eimskipafjelagi Íslands.

Það liggur í augum uppi, að ef landsstjórnin sjálf ræki fyrirtækið, þá þarf mann eða menn til þess að reka það, og það er óvíst; að hægt sje að fá jafnfæra menn og Eimskipafjelagið nú á ráð á.

Strandferðanefndin verður að hallast að því, að kostnaðurinn verði að líkindum minni í höndum fjelagsins en í höndum landstjórnarinnar. Það getur vel komið fyrir, að tekjuhalli verði mikill. En alt þetta er mikið komið undir stríðinu, hvort það hættir eða ekki.

En þegar stjórninni er falið að semja við Eimskipafjelagið, þá getur hún, ef kostnaðurinn verður afarmikill, og stjórninni og Eimskipafjelaginu þykir ástæða til, ákveðið að hætta við ferðirnar að meira eða minna leyti. Slík ráðstöfun væri eigi nema sjálfsögð, ef kostnaður ætlaði að verða ókleifur. En það gæti líka svo farið, að nauðsyn væri á, að hætta við neitt af ferðunum. Hins vegar er nefndin á því máli, að það sje ekki þægilegt fyrir Eimskipafjelagið, með þeirri afstöðu, sem það hefir, að komast hjá, að fullnægja brýnustu og sjálfsögðustu samgönguþörfum landsins.

Háttv. þm. Ísaf (S. St.) benti á, að flutningsþörfin með strandferðaskipum væri ekki mikil á Suðurlandi og Austurlandi og jafnvel austurhluta Norðurlands og jafnvel Vesturlandi. Það er satt, að á þessu svæði eru víðast svo góðar hafnir, og millilandaskipin koma þangað svo oft, að þar er ekki eins mikil þörf strandferða og annarstaðar; einkum gildir þetta Austurland og Vestfirði. En jeg vil benda á, að það er einkennilegt, að á þessu svæði eru dýrir fjarðabátar, en þeir eru engir á svæði því, sem hann nefndi ekki, sem sje á svæðinu frá Eyjafirði vestur að Horni. Þar er ekki gjört ráð fyrir neinum bát, og þar geta þó hafnir lokast af ís, og ef strandferðunum er kipt burtu, þá er þessi hluti landsins mjög svo útilokaður frá samgöngum á sjó. Því er það, að strandferðanefndin í heild sinni, og eins jeg sjálfur, álít, að það sje því að eins forsvaranlegt að kippa burtu ferðunum, að þær verði óheyrilega dýrar. En jeg tel að þar komi þingsályktunin ekki í bága við. En hjer er alt í óvissu; það gjörir stríðið. En því getur verið lokið þá og þegar, og þá gengur alt sinn rólega gang og getur haldið áfram eins og venja er til. En nú hefir nefndin fallist á, að á meðan stríðið stendur, verði skipakosturinn lakari en gjört var ráð fyrir á Alþingi 1914, og að fyrstu og síðustu ferðirnar megi falla niður. Er alt það gjört til þess, að minka kostnaðinn eins og frekast hefir þótt fært.