08.09.1915
Efri deild: 55. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

121. mál, þegnskylduvinna

Karl Finnbogason:

Háttv. 2. þm. Skagf. (J. B.) beindi til mín ýmsum spurningum, og skal jeg svara sumum.

Fyrsta spurning hans var um það, á hverju ætti að byggja, er undirbúningurinn væri ónógur.

Þar til er tvennu að svara. Í fyrsta lagi hefir verið skrifað mikið um málið bæði í blöð og tímarit, einnig nokkuð rætt, og svo verður vafalaust mikið skrifað og talað um það fram að atkvgr. Í öðru lagi er spurningin að eins um það eitt, hvort menn vilji þegnskylduvinnu eða ekki, hvort menn vilji fórna stuttum tíma æfinnar til þess að vinna fyrir landið og læra jafnframt að vinna. Þessi spurning er svo einföld og óbrotin, að það þarf ekki langan tíma til að átta sig á henni. Síðar kemur svo spurningin um það, hvernig þegnskylduvinnunni yrði best hagað og að hverju beitt. (Jósef Björnsson: Því á hún ekki að koma áður?). Af því, að fyrst verður að vita, hvort menn vilji fórna landinu þessum stutts vinnutíma eða ekki. Ef menn vilja það ekki, þá er líka þýðingarlaust með öllu að vera að bollaleggja um það á hvern veg best megi framkvæma þegnskyldustarfið.

Þetta er full ljóst, og skal jeg þó skýra það nánar með dæmi. Jeg vil kaupa hest. Háttv. 2. þm. Skagf. (J. B.) spyr mig, hvort jeg vilji það, og jeg játa því auðvitað. Þá sýnir háttv. þm. Skagf. (J. B.) mjer hest. Jeg skoða hann náttúrlega og kaupi hann, ef mjer líst á hann og þykir verðið hæfilegt, annars ekki. Með þessu dæmi er jeg ekki að bjóða háttv. 2. þm. Skagf. (J. B.) nein hrossakaup. En að eins að sanna það, að hjer er fleira en eitt málsatriði, sem alls ekki þurfa að fylgjast að. Alveg eins með þegnskylduvinnuna. Eitt er hvort menn vilji hana í nokkurri mynd, annað hvernig henni skuli háttað, þriðja hversu mikið sje til hennar vinnandi — fyrir hana gefandi o. s. frv.

Þá var önnur spurning háttv. 2. þm. Skagf. (J. B.) um það, hverjir ættu að kenna. Auðvitað á og þarf að undirbúa vissa menn til þess, en þýðingarlaust er að byrja þann undirbúning, fyrr en vissa er fyrir því, að mennirnir, sem til fengist, hefðu eitthvað að starfa að loknum undirbúningi.

Þá var þriðja spurningin, hvað þetta kosti. Það hefir ekki verið rannsakað,enda ástæðulaust fyrr en líkur eru til, að rannsóknin hafi eitthvað að þýða — málið verði framkvæmt. Jeg fyrir mitt leyti vænti ekki fjármunalegs hagnaðar, svo miklu nemi.

Þá var háttv. 2. þm. Skagf. (J. B.) að tala um það, að það væri ómögulegt að fá hinn sanna vilja kjósenda í ljós á meðan málið er órannsakað. En til hvers á að eyða tíma og fje til þess að rannsaka málið, ef þjóðin vill ekki sinna því. Og fullar sannanir fyrir því, hvernig þegnskylduvinna gæfist, er ekki hægt að fá, fyrr en tilraunir hafa verið gjörðar.

Við erum sammála um .það, að málið þurfi að undirbúa sem allra best, áður en lög verða sett um þegnskylduvinnuna. Ágreiningurinn er að eins um það, hvort samþykt tillögu þeirrar, er hjer liggur fyrir, er spor í áttina til að greiða fyrir málinu eða ekki. Jeg álít að svo sje. Og aðalvinningurinn, höfuðatriðið við þingsályktunartillöguna, er það, að hún vekur hvern kjósanda, og auðvitað fleiri, til umhugsunar um málið. En á því græðir málið mest. Um það er jeg sannfærður.