08.09.1915
Efri deild: 55. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

121. mál, þegnskylduvinna

Karl Finnbogason:

Mjer skildist svo, sem eitt af því, sem hv. 2. þm. Skagf. (J. B.) hafði á móti því, að tillaga þessi væri samþykt, sje það, að hann vilji ekki blanda máli þessu saman við önnur mál, sem fyrir þingið eiga að koma næst. Þetta verð jeg að telja ljettvæga mótbáru, eða að minsta kosti er líklegt, að málið drægist æði lengi á langinn, ef hún ætti að vera góð og gild, því jeg gjöri ráð fyrir, að seint verði stefnt til þings, til að ræða um mál þetta eitt saman, heldur muni það verða látið verða samfara öðrum áhugamálum þjóðarinnar, hvort sem það verður tekið fyrir fyrr eða síðar.

Annars virðist mjer hafa kent svo mikillar ótrúar á framkvæmd þessa máls, og jafnframt á þjóðinni, hjá andófsmönnum þess, að furðu sætir. Þeir hafa meðal annars ekki trú á, að hægt sje að fá hæfa menn til að standa fyrir kenslu þeirri, sem hjer á að stofna til, samfara þegnskylduvinnunni, ekki einu sinni trú á, að hægt sje að eignast þá, þegar fram í sækir. Þegar trúleysið er svona magnað, þá er meir en skiljanlegt, að málið sje erfitt viðfangs, og þungur róðurinn fyrir því. En fram mun það ganga eigi að síður, til hamingju fyrir þjóðina, að eins ef hún hefir þol og vit til að lofa því að festa rætur í huga sínum, áður en það er framkvæmt.