08.09.1915
Efri deild: 55. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

121. mál, þegnskylduvinna

Steingrímur Jónsson:

Jeg tel mál þetta svo mikilsvert, að jeg tel það sjálfsagt, að gjöra nokkra grein fyrir atkvæði mínu.

Eigi get jeg neitað því, að mjer fanst hv. 2. þm. Skagf. (J. B.) ekki sjá skóginn fyrir trjánum, þegar hann var að ræða málið. Hv. þm. Skagf. (J. B.) lagði aðaláhersluna á ýms framkvæmda, atriði og örðugleika við þau, en hins gætti miklu minna hjá honum, fyrir hve miklu hjer er að vinna. Það er ómögulegt að segja, að mál þetta sje svo ókunnugt þjóðinni eða svo vandasamt, að þeir muni eigi geta kynt sjer það nokkurnveginn til hlítar, sem vilja, þegar það verður reift af nýju. Jeg gjöri ráð fyrir að hv. þm. sje kunnugt, að mál þetta hefir verið á dagskrá hjá ungmennafjelögum og fleiri um alllangan tíma að undanförnu.

Þegar jeg svo sný mjer að efni tillögunnar, þá vaknar fyrst hjá mjer sú spurning: Er þetta ekki hagsmunamál fyrir þjóðina ? Og svarið verður: Jeg efast ekki um að svo sje, og það af tveimur aðalástæðum. Fyrir það fyrsta er það í mínum augum mikilsvert menningar- og uppeldismál fyrir þjóðina. Því verður það aukaatriði fyrir mjer, hvort það verði beint fjárhagnaðarmál eða ekki. Það kemur fyrst í ljós, þegar menn hafa komið sjer niður á fyrirkomulaginu, og þegar til framkvæmda kemur. Það, sem mest er um vert, er að þegnskylduvinnan geti kent ungum mönnum reglubundna vinnu og að beygja sig undir aga. Á hvorutveggja þessu er töluverður misbrestur hjá þjóð vorri, og jeg er ekki í vafa um, að þegnskylduvinnan á að geta ráðið þar mikla bót á. Mjer dylst það eigi, að allmiklir örðugleikar muni vera á því, að koma málinu í framkvæmd og stefna því í gott horf.

En vjer megum ekki einblína á agnúana eða festast á þeim, því að von vor um framtíðargengi þjóðarinnar byggist á því, að vjer getum yfirunnið þá.

Í öðru lagi finst mjer fullkomin þörf á, að ungmennum landsins sje sýnt það enn skýrar og skilmerkilegar en hægt er í ræðu eða riti, að þeir sjeu skyldugir að leggja nokkuð á sig fyrir ættjörðina, og þessi vinna, sem nú er verið að ræða um að heimta af þeim, á einmitt að beina huga þeirra fast að þessu þýðingarmikla atriði, að á hverjum manni hvíli sú skyldukvöð, að ofra ættjörðinni að minsta kosti nokkrum svitadropum.

Þessi tími virðist ekki heldur illa til þess fallinn að hreifa málinu. Aldrei munu þyngri kvaðir af hálfu ættjarðarinnar hafa verið lagðar á aðrar þjóðir en einmitt nú. Nú nægir ekki að biðja þær um að leggja fram svitadropa, heldur er krafist blóðdropanna.

Hv. 2. þm. Skagf. (J. B.) hafði það sjerstaklega á móti því, að tillagan væri samþykt á þessu þingi, að það mundi tefja fyrir málinu. En fyrir þessu færði hv. þm. (J. B.) engin rök, og því ekki ástæða að fjölyrða um það. Mjer aftur á móti sýnist að atkvæðagreiðsla um málið muni flýta fyrir því, hvernig sem hún fellur. Atkvæðagreiðslan hlýtur að gjöra það að umtalsefni og umhugsunarefni allra landsmanna, og það er rjett hjá hv. 5. kgk., (G.B.), að þótt meiri hluti kunni að verða móti tillögunni í bili, þá mun hún eigi síður vinna svo marga fylgismenn, að eigi muni langt þess að bíða, að hún eigi sigri að hrósa; og það er trú mín, að það muni verða hlutverk ungu mannanna, að bera hana fram til sigurs. Hugsjónin er svo fögur, að hún mun hertaka hugi þeirra, undir eins og þeir hafa fest glögt auga á henni.

Af þessu, sem jeg hefi til fært, er jeg með tillögunni, en mótfallinn rökstuddu dagskránni. Hún yrði eflaust til að tefja fyrir málinu, og engu líkara en að með henni eigi að vefja það inn í hjúp. (Jósef Björnsson: Hví geta áhugamennirnir ekki unnið áfram að málinu, þótt hún sje samþykt?) Þeir eiga óhægra með það þá, af því að þeir vita eigi glögt, hvernig alþýða manna lítur á það, og eiga því erfiðara aðstöðu en ef þeir vissu það nokkurn veginn. En einkum er þó það, að almenn atkvæðagreiðsla mundi betur en nokkuð annað hjálpa þeim til að knýja alþýðu til að hugsa um málið og gjöra sjer grein fyrir því