09.09.1915
Efri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

145. mál, Sauðárkrókshöfn

Jósef Björnsson:

Þessi tillaga er komin frá fjárlaganefndinni, og hefir hún falið mjer á hendur að fara nokkrum orðum um hana. En til þess að þreyta háttv. deild sem minst, vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa upp brjef það frá Sauðárkróksbúum til stjórnarráðsins, sem komið hefir till. þessari af stað. En brjefið hljóðar svo :

„Með brjefi þessu leyfum vjer oss undirritaðir að fara þess á leit við hið háa stjórnarráð, að því mætti þóknast að taka inn í frv. til fjárlaga fyrir næsta fjárhagstímabil fjárframlag til hafnargarðsbyggingar á Sauðárkróki.

Þessi málaleitun vor er ekki ófyrirsynju, því oss dylst ekki, að höfnin hjer er í bersýnilegri hættu að eyðileggjast innan skamms tíma; til þess að fyrirbyggja þá hættu, þarf að voru áliti ekki mikið fjárframlag.

Hættan stafar aðallega af tvennu :

1) Framburði úr Gönguskarðsá, sem fellur til sjávar norðanvert við höfnina.

2) Af því að sjórinn brýtur upp landið milli kauptúnsins og Eyrarinnar og ber það út á höfnina.

Í leysingum á vorin ber Gönguskarðsá mjög mikið af aur og grjóti eftir farvegi sínum, og eðlilega berst það alt til sjávar. Af þessu myndast grynsli norðanvert og fram af eyri, sem er að norðan við höfnina, og sest þar að, þangað til haustbrimin koma; þá rótast það alt upp og sjórinn ber það með sjer inn á höfnina, þar sem það sekkur til botns. Þetta er öllum auðskilið, því þarna vinnur náttúrulögmálið sitt vanaverk, en áþreifanlegast er það fyrir oss, sem sjáum afleiðingarnar ár hvert.

Þar eð eyri sú, sem er norðan við höfnina, nær svo skamt út (enda styttist eyraroddinn árlega), nær haust og vetrarbrimið, með fullum krafti, tökum á að, brjóta upp landið frá eyrinni og inn að kauptúninu, og er það eitt ljóst dæmi þess, hvað hröðum fetum það heldur áfram að eyðileggja, að á síðasta ári hafa tvö býli, sem stóðu sunnanvert við eyrina, eyðilagst af þeirri ástæðu, að sjórinn var búinn að brjóta upp landið fast að þeim. Býli þessi stóðu nú fyrir fám árum ekki allnærri sjó, en smám saman hefir sjórinn eytt landi því, sem þar var fyrir framan og borið inn á höfnina, svo skiljanlegt er, að þess vegna grynnist hún (höfnin) jafnframt af framburðinum, sem Gönguskarðsáin flytur með sjer.

Ekki alls fyrir löngu, stóð pakkhús nyrst á lóð Stefáns sál. Jónssonar, sem var hjer verslunarstjóri við verslun Gránufjelagsins; sjórinn eyðilagði svo grunninn undir húsi þessu, að það varð að rífa það; en þetta varð til þess, að Stefán sál. Jónsson ljet byggja bólverk fyrir allri sinni lóð að norðan og austan. Mannvirki þetta hefir hamlað því, að sjórinn næði til að brjóta upp landið inn eftir kauptúninu.

Oss er það sjáanlegt, að hjer er stór hætta fyrir hendi, ekki einungis kauptúnsins vegna, heldur og fyrir alt það uppland, sem rekur verslun sína hjer, því ekki þarf áratugi til þess að gjöra höfnina ófæra skipum. Það verður innan fárra ára, ef ekki er nú strax ráðin bót á. Skagafjörður er stór og kostagóð sveit, og framleiðsla bænda þar í besta lagi, en hve mikill hnekkir yrði það ekki landbúnaðinum, ef verslunarstaðurinn hjer á Sauðárkrók yrði að leggjast niður, en ekkert er sýnilegra, ef náttúruöflin óhindruð halda hjer áfram byrjuðu verki.

Að vorri hyggju þyrfti þessi hafnargarður ekki ýkja langur til þess að hindra það tvent, sem hjer er fram tekið að framan og höfninni aðallega stafar hætta af. Hugsanlegt er, að nægilegt væri, að byggja trjebúkka, setja þá niður hvern við endann á öðrum og fylla þá með grjóti. Ef þetta væri gjört seinni hluta vetrar eða að vori til, mundi Gönguskarðsáin með framburði sínum fylla svo að þeim, að þeir stæðust brimin að haustinu til. Útgrynslin eru mikil með fram eyrinni, svo búkkar þessir þyrftu ekki næsta háir. Þetta er að eins bending, en vildi hið háa Stjórnarráð taka málið inn á dagskrá sína, yrði að sjálfsögðu farið eftir ráðleggingum landsverkfræðingsins.

Oss kemur alls ekki til hugar, að garður þessi yrði nú þannig bygður, að hann verji sjógangi úti á skipalegunni, því til þess þyrfti ógrynni fjár, einungis til að verja hana meiri grynslum en nú eru.

Ástæða virðist oss að benda á, þar eð landssjóður á allar lóðir hjer í kauptúninu, að jafnframt sem fjárveitingin er til heilla stóru sveitarfjelagi, er hún og til að verja eign landsins bráðum skemdum.

Sauðárkrók 19. mars 1915“. Undir brjef þetta hefir ritað sýslumaður Skagfirðinga og 52 menn aðrir.

Til viðbótar því, sem jeg las upp úr brjefinu, hefi jeg það að segja, að þótt fjárlaganefndin kannaðist við, að hjer væri um þarflegt nauðsynjaverk að ræða, þá sá hún þó eigi skynsamleg rök liggja að því, að fje væri veitt að svo vöxnu máli; fyrst taldi hún rannsókn þurfa að fara fram, áður en hægt væri að leggja út fjárveitingu, og beinir hún því til stjórnarinnar, að sjá um að það sje gjört. Jeg býst við, að háttv. deild líti sömu augum á málið sem nefndin, og að hún æski þess, að áætlun sje gjörð um það, hvernig hægt muni að verja höfnina eyðileggingu, og hvað það muni kosta. Kauptúnið sjálft liggur undir stórskemdum, og árlega brýtur af landi þess, svo hjer þarf brátt að gripa í strenginn, ef unt er. Að öðru leyti er málið svo rækilega reifað í brjefi þeirra Sauðárkróksbúa, að jeg sje ekki ástæðu til að þreyta deildina á lengri ræðu en þetta.