02.09.1915
Efri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

111. mál, yfirskoðunarmenn landsreikninganna

Framsm. (Björn Þorláksson):

Eins og sjá má af nefndarálitinu, hefir nefndin lagt til, að tveim viðaukatill. væri bætt við tillögurnar, eins og þær komu frá Nd.

Á fyrri viðaukatill. (þgskj. 652) stendur svo, að nokkur undanfarin ár hafa sparast peningar á póstávísunum. Hafa þær gengið gegn um Íslandsbanka, og hann sjeð um greiðslu þeirra utanlands. Peningarnir hafa svo legið í bankanum á vöxtum þangað til þeir hafa verið greiddir erlendis. Hafa þeir vextir numið um 20 þús. kr. Endurskoðunarmennirnir leggja til, að fje þetta sje nú greitt í landssjóð. Nefndin, sem kosin var í Nd., hefir fallist á þetta, en ekki viljað koma fram með tillögu í þessa átt. Nefndin hjer vill ekki að fje þetta standi lengur í bankanum, meðfram vegna þess, að bankinn gefur mjög lága vexti, og landssjóður þarf síns með, og leggur því til að greiða það í landssjóð.

Á síðari viðaukatillögunni stendur svo, að þegar endurskoðun landssímareikninganna fór fram 1913, var ekki gefinn reikningur fyrir Reykjavík. Endurskoðunarmennirnir hafa því lagt til, að símareikningur skuli sendur ár hvert, og nefndin í Nd. fjelst á þetta í nefndaráliti sínu, en fann ekki ástæðu til að koma með tillögu í þá átt að heldur, en hjer er það gjört til þess, að taka af allan efa. Er tillagan á þá leið, að reikningur skuli gjörður yfir tekjur og gjöld gjörvalls símans árlega.

Um fyrri breytingartill. er það að segja, að nefndin hjer leit svo á, að eftirlit með bændaskólum þyrfti eigi að vera á sama hátt og áður, þeg;ar búin voru rekin fyrir landssjóðsfje, en á hinn bóginn hefir nefndin ekki haft á móti, að skipuð væri þriggja manna nefnd, til þess að líta eftir framkvæmdum og búnaðarháttum á skólunum. Nefndin hjer leggur því til, að þriggja manna nefnd sje skipuð við hvern skóla, og skal jeg taka fram fyrir hönd nefndarinnar, að ætlast er til, að þeir þrír menn sjeu valdir innan sýslu, til að forðast kostnað. Í sambandi við þetta vil jeg geta

þess, að nefndin hefir komið fram með brtt. til leiðrjettingar á þgskj. 675.

Síðari brtt. er fram komin vegna þess, að endurskoðun landsreikninganna hefir leitt í ljós, að talsverður munur er á því, hve háir dagpeningar eru reiknaðir, nefnil. frá 6–8 kr. Var vakin eftirtekt á þessu af endurskoðunarmönnum, og út af því óskaði stjórnin, að þingið setti föst ákvæði um þetta. Nefndin í Nd. lagði til, að 5 kr. væru ákveðnar, en deildin færði það upp í 6 kr. Nefndin hjer leit svo á, að 5 kr. væri nógu hátt, þegar litið er til þess, að allur ferðakostnaður er greiddur, og þetta eru fæðispeningar en ekki laun.

Hv. þm. Barðstrendinga hefir tekið aftur brtt. sína á þgskj. 701, svo jeg orðlengi ekki um hana.

Brtt. hv. 5. kgk. á þgskj. 703 fer fram á, að stjórnin setji fastar reglur um dagpeningana, en þessa brtt. má telja óþarfa, með því að þingið er nú einmitt að gjöra það, sem stjórnin hefir ætlast til og óskað eftir.

Skal jeg svo ekki fjöðlyrða frekar um þetta, en vona að deildin fallist á tillögurnar.