14.07.1915
Efri deild: 6. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

4. mál, nefnd í fjárlögum

Flutnm.(Björn Þorláksson):

Af því að jeg stend fyrstur á blaði sem flutningsmaður að tillögu þessari, þá vil jeg segja örfá orð.

Það er óvanalegt, að tillaga um það, að skipa fjárlaganefnd hjer í háttv. deild komi svo snemma fram á þinginu, en orsökin til þess er sú, að það hefir komið til orða milli ýmsra deildarmanna, að fjárlaganefnd háttv. neðri deildar hefði einhverja samvinnu við fjárlaganefnd efri deildar. Fjármálanefnd neðri deildar byrjar á störfum sínum í dag, og þarf því nú að kjósa nefndina hjer, ef samvinna á að vera frá byrjun. Jeg fyrir mitt leyti vona eftir góðum árangri af þessari samvinnu; starf fjárlaganefndanna setti að taka minni tíma, og jeg hygg, að meira samræmi yrði í starfinu, og þá um leið líkur til þess, að fjárlögin tæki minni breytingum eða byltingum í deildunum. Ef svo reyndist, þá er það talsverður vinningur. Það hefir áður í ýmsum málum verið höfð slík samvinna, en aldrei í fjárlögunum, og hefir samvinnan jafnan reynst vel, og því líka af þeirri ástæðu orsök til að ætla, að svo verði hjer. Í þingsköpum Alþingis er ekki gjört ráð fyrir þessu, en lögfræðingar þingsins telja, að frá þeirra hálfu sje ekkert því til fyrirstöðu, að fjárlaganefndirnar hafi einhverja samvinnu. Jeg leyfi mjer því að leggja til, að háttv. deild samþykki þingsályktunartillögu þessa og kjósi síðan nefndina, og enn fremur legg jeg til, að 5 menn verði kosnir í nefndina, eins og vant er.