16.07.1915
Efri deild: 8. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

10. mál, strandferðir

Ráðherra :

Samskonar tillaga og þessi hefir verið til umræðu í háttv. neðri deild, og var hún samþykt þar, á þann hátt, sem jeg óskaði. Jeg taldi mjer bæði rjett og skylt að bera samskonar tillögu upp hjer í deildinni, og vona að hún sæti hjer sömu góðu undirtektunum sem í háttv. neðri deild.

Skal jeg svo leyfa mjer að skýra frá þeim ástæðum, er liggja til grundvallar tillögunni.

Með samningi dags. 24. okt.1913 skuldbatt gufuskipafjelag Björgvinjar sig til að halda uppi ferðum frá Austur- og Vestur-Noregi um Færeyjar og umhverfis Ísland, og er samningurinn birtur í Stjórnartíðindunum 1913 B. bls. 265. Samningurinn gildir frá 1. apríl 1914 til 1. apríl 1916, og byrjaði 1. apríl 1914. Sem þóknun fyrir póstflutninginn fær fjelagið 30 þús. krónur á ári Í apríl næsta ár er samningur þessi því útrunninn. Í fjárl. 1914–'15. eru veittar 60 þús. kr. til strandferða. Helmingur þess fjár rennur til Björgvinjar fjelagsins.

Enn fremur var gjörður samningur við Thor E. Tulinius fyrir hönd fjelags eins (sjá Stjórnartíðindi 1913 B. bls. 271), er gilda skyldi bæði fyrir 1914 og 1915, nema fjelagið segði honum upp fyrir 1. ágúst 1914. Það hefir fjelagið ekki gjört og gildir samningurinn því enn þá og til næstu ársloka.

Fyrir þessar ferðir eru einnig greiddar 30 þús. kr., sbr. 13. gr. fjárlaganna C.II. Loks skyldi greiða Eimskipafjelagi Íslands 40 þús. krónur, ef það kæmist á fót og tæki til starfa á árinu 1915. Það hefir það gjört, og styrkurinn er því útborgaður, samkvæmt 13. gr. fjárlaganna C. III.

Með lögum nr. 53, 10. nóv. 1913, var landsstjórninni veitt heimild til að. kaupa hluti í Eimskipafjelagi Íslands fyrir alt að 400 þús. kr. gegn því, að fjelagið hjeldi uppi strandferðum umhverfis landið með tveimur eða fleiri strandferðaskipum. Ferðirnar skyldi hefja svo fljótt, sem því yrði viðkomið, í síðasta lagi 1. apríl 1916,. er samningur við Björgvinarfjelagið gengi úr gildi. En tækist eigi samningur við Eimskipafjelagið, var stjórninni heimilað, að kaupa skip eða leigja, og lántaka alt að. 450 þús. kr. heimiluð, en með lögum nr. 41, 2. nóv. 1914, var lánsheimildin aukin upp í 500 þús. kr., að jeg ætla vegna dýrleika skipanna.

Hinn 4, febrúar 1914 var gjörður samningur á milli Eimskipafélagsstjórnarinnar og landsstjórnarinnar, og er sá samningur birtur í Lögbirtingablaðinu 7. árg., 6. tölubl. Samningur þessi gengur í þá átt, að landssjóður kaupi hluti í Eimskipafjelagi Íslands fyrir 400 þús. kr.; þar af eru greiddar samkvæmt samningnum 109 þús. krónur 1. júní 1914, en eftirstöðvar skyldu greiddar fyrir 1. febr. 1915. En sú greiðsla hefir eigi enn þá farið fram.

Skilyrði fyrir þessum samningi er það, að Eimskipfjelagið haldi uppi strandferðunum frá 1. apríl 1916 með 2 strandferðaskipum, enda greiði landssjóður sanngjarnan styrk til þeirra ferða. Meiningin var, eins og sjá má á 4. og 5. gr. samningsins, að 300 þús. krónur yrðu lagðar í hluti til kaupa á strandferðaskipunum, og ef fjelagið fullnægði eigi skilyrðunum um strandferðir, sýnist landssjóður óbundinn um hlutakaup, sbr. 2. og 5. gr. samningsins. En 1914 virðist þingið hverfa frá því skilyrði (þingskjal 364), og með þingsályktunartillögu 1914 (Alþtíð. 1914 A. þingskjal 471) heimilar þingið landsstjórninni að semja við fjelagið um strandferðir 1916 og 1917 með styrk alt að 77300 kr. hvort árið.

Vegna styrjaldarinnar miklu er eigi gjörlegt að byggja strandferðaskipin nú. Skipasmíðastöðvar geta eigi látið þau fyrir það verð, sem hugsað var; þau yrðu svo stórum mun dýrari en ráðgjört var í öndverðu, líklega svo að 70–80% munar. Svo að skipin til strandferða verða eigi til í apríl 1916 með nokkru móti.

Jeg átti í Kaupmannahöfn tal við framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins. Hann taldi það eigi mjög erfitt, að fá skip leigð til strandferðanna, því að skip þau, er mest hefðu hækkað í verði og mest gæfu af sjer í farmgjöldum, væru vöruflutningaskip, en síður þau skip, sem bæði eru löguð fyrir vöruflutninga og farþegaflutninga. En það er ljóst, að Eimskipafjelag Íslands getur ekki fullnægt samningnum bókstaflega, og nú er ekkert víst hvernig fer með strandferðirnar. Sameinaða gufuskipafjelagið og Eimskipafjelag Íslands, halda væntanlega uppi millilandaferðum sínum, eins og verið hefir, en það fullnægjir alls ekki strandferðaþörfinni. Tulinius, er nú heldur uppi strandferðunum, eins og fyr var sagt, hefir hins vegar nýlega ritað landsstjórninni, og skýrt frá því, að hann vildi helst vera laus við strandferðirnar næsta ár, en jafnframt boðið landssjóði kaup á strandferðaskipi sínu „Ísafold“, fyrir 72 þús. krónur; en eftir því, er þeir segja, er þar ættu að bera best skyn á, þá er ekki gangandi að því boði. Um nánara viðvíkjandi þessu hefir hann vísað til herra yfirdómslögmanns Axels V. Tulinius, er væntanlega gefur samgöngumálanefndinni allar þær upplýsingar hjer að lútandi, er hún þarfnast.

Sameinaða gufuskipafjelagið hefir, eins og undanfarið ríkissjóðsstyrkinn, 40 þús. kr. á ári, en hann er til millilandaferða, en ekki strandferða.

Þegar jeg kom til Björgvinar átti jeg ekki tal um þetta við forstjóra gufuskipafjelagsins þar; taldi það ekki rjett að svo stöddu, einkum vegna þess, að Nielsen forstjóri Eimskipafjelagsins taldi eigi frágangssök að taka skip á leigu, og gaf góðar vonir um að það tækist. Bjóst hann við að geta gefið nánari upplýsingar um það, er hann kæmi heim með Goðafossi. Hann er nú nýkomin hingað, og er því hægt að eiga tal við hann um málið.

Málið er mikilsvarðandi og afaráríðandi fyrir landslýð, og því tel jeg sjálfsagt að háttv. deild skipi nefnd í það. Það er bæði verk mitt og skylda, að stuðla til þess, að Alþingi ráði þessu vel til lykta.

Í fyrra var kosin sameiginleg samgöngunefnd fyrir báðar deildir, og blessaðist það allvel, og því vil jeg mæla með að svo verði gjört nú aftur.