24.08.1915
Efri deild: 41. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

114. mál, opinber reikningsskil

Fyrirspyrjandi (Sigurður Stefánss.):

Eins og fyrirspurn sú, er hjer liggur fyrir, ber með sjer, þá er hún um það, hvað landsstjórnin hafi gjört í tilefni af þingsályktun, er samþykt var hjer í fyrra í háttv. deild.

Þessi þingsályktun, sem er þgskj. 423 í Alþingistíðindunum 1914, er í tveimur aðalliðum. Fyrri aðalliðurinn er í þremur undirliðum, um að hraða endurskoðun reglugjörðarinnar frá 13. febrúar 1873, og um að draga ekki úr gildandi ákvæðum gagnvart vanrækslu og óreglu gjaldheimtumanna landssjóðs, og um eftirlitsferðir.

Annar aðalliðurinn er líka í þremur undirliðum :

1. Að leggja fyrir næsta Alþingi (1915) frv. til laga um sjerstaka tollgæslu í Reykjavík.

2. Að veita póstmönnum leyfi til að rannsaka grunsamlegar böggulsendingar frá útlöndum.

3. Að rannsaka, hve mikið muni kosta að setja á fót sjerstaka tollgæslu á öllu landinu, og leggja skýrslu um það fyrir Alþingi.

Jeg skal strax taka það fram, að atriðið um póstbögglana, er komið í framkvæmd með lögum frá síðasta þingi.

Um þetta mál urðu talsverðar umræður á síðasta þingi, og sýndu þær, að þm. vildu, að þessu væri kipt í lag hið bráðasta, og ganga verða menn að því sem vísu, að þm. hafi verið full alvara með að koma þessu máli sem fyrst í framkvæmd. En best er það og viðkunnanlegast, að þingið þurfi sem minst að ýta við stjórninni um að bæta ýmsa galla á löggjöfinni.

Þjóð og þing verður að ætlast til þess, og mega treysta því, að stjórnin hafi opið auga fyrir því, sem áfátt er í löggjöfinni og framkvæmd laganna, og kosti kapps um, að ráða bót á göllunum, svo að þingið þurfi ekki að ýta við henni til þess.

En því er nú svo varið, að þingið hefir, því er nú ver og miður, oft og tíðum þurft að ýta við stjórninni um nauðsynjamál, eins og t. d. um þetta mál, sem hjer liggur fyrir, og er það auðvitað sjálfsögð skylda þess. Jeg hefi nú ekki orðið þess var, að stjórnin hafi gjört neitt, til þess að fullnægja þingsályktunartill. þeirri, er hjer ræðir um, en mjer dettur þó ekki í hug, að svo stöddu, annað en að hún hafi að einhverju leyti undirbúið málið.

Til þess að auka eftirlitið, hefi jeg heyrt, að hún hafi á prjónunum nýja endurskoðan á reglugjörðinni, en á þingi í fyrra var það látið í veðri vaka, að þessi endurskoðun á reglugjörðinni væri langt á veg komin, svo vonandi er hennar ekki langt að bíða.

Um síðasta atriðið, sem vitanlega er mergurinn málsins í tillögunni, um það, hvort landsstjórnin sæi sjer ekki fært, að auka eitthvað tolleftirlitið, og gjöra það betra en hingað til hefir verið, þá væri þessa ekki þörf, ef allir væru sammála um það,að tolllögunum væri vel hlýtt. En jeg hygg, að enginn geti huggað sig við þá vissu, að svo sje; jeg hygg, að allir hljóti að vera sammála um það, að tolllögin sjeu brotin og það stórkostlegar og meira en jafnvel nokkur önnur lög.

Það er eðlilegt, eftir því sem framfarir þjóðarinnar vaxa, að eftir því vaxi útgjöldin. Það er sjálfsagt, og er jafn sjálfsagt og að ætlast til þess, að tekjur landsins komi sem best til skila, og alt sje gjört til þess af hálfu þings og stjórnar, að þar komi öll kurl til grafar, og því er óhjákvæmilegt að gjöldin aukist. Það hlýtur því að vera sjálfsagt áhugamál allra hugsandi manna, að jafnframt því, sem tekjurnar eru auknar, samkvæmt þörfum þjóðarinnar, þá sje innheimta þeirra sem best trygð. Og meðferð Alþingis á fjárlögunum sýnir það ljóslega, bæði nú og á fyrirfarandi þingum, að það er ekki vanþörf á því, að tekjurnar heimtist vel. Fjármálastefna sú, er ríkt hefir hjá þingi og þjóð, getur endað með skelfingu, ef eigi er að gjört, þar sem tekjuhalli fjárlaganna er jafnaðarlega allt að ½ miljón króna, og það getur sannarlega brugðist, að tekjur landsins fari svo fram úr áætlun, að tekjuhalli þessi hverfi, og nú er meiri ástæða en endranær til að ætla, að tekjurnar hrökkvi ekki fyrir útgjöldunum.

Í fyrra var Alþingi gefið alveg sjerstakt tækifæri til að íhuga þessi efni, þar sem sá orðrómur gekk þá hjer í Reykjavík, að hjer hefðu átt sjer stað mjög mikil tollsvik. En þessum tollsvikum var haldið vendilega leyndum. (Ráðherra: Einn fjekk 13000 kr. sekt). En blöðin gátu ekki um það. Blöðin rita langt og mikið mál um það, sem er mesta smáræði, eins og t. d., ef kerling, sem er dáin fyrir 100 árum síðan, er grafin upp og jörðuð í vígðri moldu, eða ef lambi er stolið einhversstaðar á útkjálkum landsins, ef til vill af hungruðum mannaumingja. En þó að svo nefndir „fínir menn“ hjer í Reykjavík steli stórfje af landsfje, þá eru blóðin sammála um það, að þegja vendilega. Þetta er óholt og lítt sæmandi fyrir þjóðfjelagið.

En þetta hefði meðal annars átt að sýna stjórninni það, að það er full ástæða til þess að athuga það mjög vel, hvort eigi sje rjett að skerpa tollgæsluna, þótt ekki væri nema í Reykjavík, og síðar á öllu landinu, ef fært þykir kostnaðarins vegna.

Jeg játa það fúslega, að það er mikið verk að rannsaka þetta mál til hlýtar, og það er ekki leggjandi út í svo miklun kostnað, sem tollgæslu um land allt, án þess að það mál sje áður vel rannsakað.

Jeg vona nú að stjórnin hafi íhugað málið, svo að hún hafi meiri hugmynd um það en aðrir, hver kostnaður af þessu leiddi. Fái jeg það svar, að kostnaður þessi sje afarmikill, þá mundi það mjög draga úr óánægju minni yfir því, að ekkert hafi aðhafst verið. Annars ættu tollsvikin í fyrra, að vera næg til þess, að ýta svo undir stjórnina, að hún sæi um, að slíkt gæti ekki hent aftur.

Hver svo sem skoðun okkar er í landsmálum yfirleitt, hvar sem vjer stöndum í stjórnmálaflokkum, þá hljótum vjer allir að vera á einu máli um það, að tekjur þær, er landssjóði bera, eigi að koma sem best til skila. En eins og nú hagar til, má við því búast, að stórmikið af fje landssjóðs komist aldrei til skila. Menn svíki tollinn. En það hlýtur að vera sjálfsögð skylda þings og stjórnar, að búa svo um, að landssjóður fái tekjur sínar með sem minstum aflöllum. Það er afar áríðandi fyrir fjárhag vorn.

Hitt atriðið, um tolleftirlit á öllu landinu, var ekki lögð eins mikil áhersla á í þingsályktuninni á síðasta þingi. Það var álitið heppilegast, að byrja með því, að setja á fót tolleftirlit í Reykjavík, og ef það borgaði sig, þá kæmi hitt á eftir. Því var stjórninni að eins falið að rannsaka, hvað það kostaði og leggja skýrslu um það fyrir Alþingi. Jeg býst við því, að stjórnin hafi eitthvað rannsakað í þessu efni, en sjerstaklega býst jeg þó við því, að þess verði ekki langt að bíða, að stjórnin fullnægi fyrsta liðnum í öðru atriði þingsályktunartillögunnar, og vænti jeg svars hæstv. ráðherra um, hverjar gjörðir stjórnarinnar sjeu um þessi efni.