24.08.1915
Efri deild: 41. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

114. mál, opinber reikningsskil

Fyrirspyrjandi (Sigurður Stefánss.):

Jeg get verið þakklátur hæstv. ráðherra fyrir svar hans, því að hann hefir komið til dyranna eins og hann er klæddur, og er það ávalt virðingarvert.

Um svar ráðherra við fyrri liðnum er það að segja, að jeg vjek að því í ræðu minni, að jeg byggist við, að geta fengið fullnægjandi svar við honum. Það gleður mig að reglugjörðin er nú komin, en satt að segja finst mjer það ekki vera þakkandi, því að henni var langt komið í fyrra sumar, þegar jeg bar fram þingsályktunina.

Viðvíkjandi svari hæstv. ráðherra við seinni liðnum, er það að segja, að það var rjett tilgetið af honum, að mjer mundi þykja það nokkuð ófullnægjandi, þó að jeg kannist við, að stjórnin hafði töluverðar afsakanir, eftir því sem á stóð. En jeg verð að láta það í ljós, að mjer finst það illa farið, að hjegómlegar pólitískar deilur og keppni um völdin í landinu, komi því til leiðar, að nauðsynjamál þjóðarinnar verði ekki framkvæmd. Þó jeg kannist við, að tormerki hafa verið á því fyrir hina fráfarandi stjórn, að framkvæma þetta, þá get jeg ekki álitið hana algjörlega sýkna. Það er ekki hægt að ætlast til, að ráðherra sjálfur grafi sig í gegn um öll störf, sem undir stjórnina heyra; en þó hann sje kafinn í störfum, þá getur hann sagt starfsmönnunum í stjórnarráðinu, að búa málið undir og leggja það svo fyrir sig. Mjer finst því að ráðherra sje ekki vítalaus, þó að hann hafi ekki getað búið þetta mál sjálfur undir þingið; hann hefði getað látið starfsmenn sína í stjórnarráðinu gjöra það.

Jeg játa það, að þessir ráðherrar hafa haft um annað að hugsa en að búa þetta tollmál undir þingið, en jeg álít það miklu óþarfara. Maður hjer í Reykjavík hefir sagi mjer, að hann byggist við að landssjóður mundi græða um 50 þús. kr., á aukinni tollgæslu í Reykjavík, og sá maður var þessu máli vel kunnugur. Það er augljóst, að afleiðingarnar af því ástandi, sem nú er, hljóta að verða stórkostleg tollsvik, einkum nú þegar svo er komið, að mönnum virðist vera farið að þykja sómi að skömmunum, þykja sómi að því, að brjóta lög landsins. Sá hugsunarháttur hefir mjög aukist með bannlögunum, en sú alda, sem þau hafa vakið, nær lengra en til þeirra.

Það, sem fyrir mjer vakir meðal annars, er að þeim lögum verði ef til vill betur framfylgt, ef tolleftirlit í Reykjavík væri aukið, svo að þessi tillaga ætti að stuðla að því, ef hún kemst í framkvæmd, að þau lög yrðu betur haldin.

Það er rjett, sem hæstv. ráðherra sagði, að það getur oft farið svo, að stjórninni verði ómögulegt að framfylgja öllum kröfum þingsins, og mun jeg verða manna síðastur til að stuðla að því, að þingið hlaði á stjórnina störfum, sem augljóst er, að hún getur ekki framkvæmt.

Jeg skal játa, að þó mjer þætti þetta svar ófullnægjandi, þá bjóst jeg ekki við öðru svari frá stjórninni. En það er eitt atriði, sem mjer finst vanta í svar hæstv. ráðherra, og það er, hvort hann sjer sjer ekki fært að taka málið til athugunar, svo að það verði lagt fyrir næsta þing, því að tilætlun mín með fyrirspurninni var aðallega sú, að herða á stjórninni í þessu máli og fá yfirlýsingu hennar um að hún mundi búa það undir næsta þing. Fái jeg það svar, mun jeg sætta mig við málalokin.