16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Ráðherra :

Jeg skil ekki annað en að jeg geti verið mjög stuttorður, því að háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði ekki annað en það, sem komið hafði fram af hendi hans við umræður um annað mál, sem hjer lá fyrir deildinni fyrir nokkru, tillöguna út af staðfestingu stjórnarskrárinnar. En úr því að háttv. þm. Dal. (B. J.) þykir svo mikið undir því komið, að rifja upp aftur það, sem hann sagði þá, vil jeg svara örfáum orðum því helsta, sem hann tók fram.

Sumt af því, sem hann ljet um mælt, voru spádómar einir, t. d. um það, hvernig farið hefði, ef stjórnarskráin hefði ekki verið staðfest. Hann sagði, að það myndi hafa, eða hefði getað leitt til sambandsslita. Látum svo vera, en þá vil eg skjóta því til háttv. deildar, hvort við myndum hafa verið við því búnir, að svo yrði í sumar. Háttv. þm. Dal. (B. J.) sjer allar leiðir opnar. Við höfðum vitanlega rjett til að segja já og nei, en nei-ið gat leitt til þess, sem hann tók fram.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að jeg hefði unnið vont verk, og mjer virtist till hans ræða ganga út á það, að leitast við að sýna fram á, að mínar gjörðir væru vítaverðar, og, að því er mjer skildist, refsiverðar. Hann talaði í því sambandi um þingrefsingu. Mun hann þar hafa átt við vantraustsyfirlýsingu eða ákæru til landsdóms, eða öllu heldur hvorttveggja. Vantraustayfirlýsing þarf ekki að vera refsing. Með henni má vinna ráðherranum þægt verk, þar sem hann losast við þann vanda, sem staða hans hefir í för með mjer. Landadómsákæra er ekki heldur refsing út af fyrir sig, þótt hún vitanlega geti leitt til refsingar. Ef meiri hluti þings líti á þetta mál eina og háttv. þm. Dal., þá myndi það vitanlega leiða til slíkrar ákæru. Það voru eitthvað 4–5 liðir, sem háttv. þm. Dalamanna tók fram. Jeg skal taka það fram nú þegar, að jeg tel óþarft nú við 1. umr fjárlaganna að ræða um það, hvort vilja þingsins hafi verið fullnægt með staðfestingarskilmálum stjórnarskrárinnar eða ekki, vegna þess, að bæði neðri deild og efri deild hafa látið uppi skýran og ótvíræðan vilja sinn og álit á því máli. Í báðum deildum hefir verið samþykt, í neðri deild með rökstuddri dagskrá og í efri deild með sjerstakri tillögu, að fyrirvara Alþingis í fyrra væri fullnægt. Þess vegna tel jeg óþarft að fara frekar út í efni málsins nú.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að jeg hefði slegið biturt vopn úr hendi Íslendinga með því að taka við staðfestingu stjórnarskrárinnar. Þetta vopn var það, að jeg hjelt ekki leiðinni opinni fyrir skilnaði í sumar. Háttv. þm. Dal. (B. J.) vill halda því fram, að við hefðum getað sagt við konungsvaldið, að meiri hluti þings tæki ekki við neinni stjórn, nema hann fengi vilja sínum framgengt. Jeg er á því, að þetta hefði getað verið tvíeggjað vopn, og jeg vil aftur spyrja háttv. þm. Dal., þingið og alla Íslendinga, hvort þeir hefðu verið undir þetta búnir. Jeg leit svo á í vetur, að við værum það ekki. Og háttv. þm. Dal. var enginn skilnaðarmaður í vetur nje þeir hinir, sem hallast nú á sömu sveif og hann í þessu máli.

Í öðru lagi sagði háttv. þm. Dal., að jeg hefði sýnt þinginu óhlýðni. Sú óhlýðni átti að vera í því fólgin, að jeg hefði farið út fyrir þau skilyrði, sem þingið setti fyrir staðfestingu stjórnarskrárinnar.

Hann sagði, að jeg hefði tekið við staðfestingu stjórnarskrárinnar með öðrum skilyrðum en þingið 1914 hefði ætlast til, en hann fór ekkert út í það, hver þau önnur skilyrði væru. Til þess hefi jeg því að svara, að mikill meiri hluti þingsins hefir lýst ánægju sinni yfir staðfestingu stjórnarakrárinnar og talið fyrirvaranum fullnægt. Alþingi er skipað sömu mönnum nú og 1914, og þar sem það hefir lýst svo afdráttarlaust yfir ánægju sinni með það, sem orðið hefir, þá finst mjer að það ætti að nægja. Jeg get ekki gjört að því, þótt háttv. þm. Dal. sje á annari skoðun. Hann hefir vitaskuld fulla heimild til þess. En það verð jeg að segja, að frá mínu sjónarmiði er það undarlegt, ef þingið þyrfti að fara að refsa mjer fyrir óhlýðni við sig, eftir að meiri hluti þess hefir lýst því yfir, að hann væri að öllu leyti ánægður með gjörðir mínar. (Bjarni Jónsson: Jeg er á öðru máli en meiri hlutinn). Háttv. þm. Dal. (B. J.) heldur því fram, að meiri hlutinn eigi að ráða í hverju máli, en þá verður hann að hugsa hugsunina til enda og beygja sig fyrir þeirri niðurstöðu, sem meiri hlutinn kemst að. (Bjarni Jónsson: Þetta er ekki sá rjetti meiri hluti). Þetta er ekki sá rjetti meiri hluti, segir háttv. þm. Dal. Jeg er ekki svo markglöggur, að jeg geti dregið þann rjetta og ranga meiri hluta í sundur. Í þinginu eru 40 höfuð, og meiri hlutinn hygg jeg að sje eftir því 21. Jeg þekki ekki annan mælikvarða á meiri hlutann en þann »matematiska« mælikvarða. Það getur verið, að háttv. þm. Dal. hafi einhvern annan mælikvarða eða vog til að vega á vit og góðan vilja þingmanna, og geti síðan reiknað meiri hlutann út eftir því. Jeg verð að játa, að jeg er svo illa staddur, að jeg þekki ekki þau áhöld.

Úr því að háttv. þm. Dal. (B. J.) talar um að jeg eigi skilið að fá refsingu af þinginu, þar sem jeg hafi slakað til frá skilyrðum þeim, sem þingið setti, þá er það ekki illa til fundið að skýra frá því, að sumir, sem ekki eru vanir að telja okkar rjett meiri en hann er, t. d. prófessor Knud Berlin, álíta, að aðrir hafi slakað til meira en jeg fyrir hönd Íslendinga. Háttv. þm. Dal. lítur svo á þetta mál, sem hann gjörir, vegna þess, að honum er þetta svo viðkvæmt mál. Jeg er ekki að lasta hann fyrir það. En viðkvæmnin getur leitt mann of langt. Hún getur glapið manni sýn, og jeg er hræddur um að það eigi sjer stað um háttv. þm. Dal.

Þriðja stórbrotið, sem jeg hefi átt að drýgja, var það, að jeg hefði ekki kvatt saman aukaþing. Jeg hefi við hinar löngu umræður um eftirvarann sagt frá því, hvers vegna jeg gjörði það ekki. Jeg vil þó bæta því við það, sem jeg sagði þá, að ýmsir líta svo á, að úr því að meiri hluti þingsins hafi sagt, að skilyrðunum fyrir staðfestingu stjórnarskrárinnar væri fullnægt, þá sje sönnun fengin fyrir því, að ekki hafi verið ástæða til að kalla saman aukaþing. Jeg var sjálfur á þeirri skoðun, að fyrirvaranurn væri fullnægt, og þá var ekki hugsanarjett af mjer að kalla saman aukaþing með þeim aukakostnaði og drætti á framgangi mála, sem það hefði haft í för með sjer.

Fjórða stórbrotið var það, að jeg hafi brotið vilja meiri hluta kjósenda á bak aftur. Þetta er bygt á því sama, sem sje því, að jeg hafi ekki fullnægt skilyrðum þingsins. Allar röksemdir sínar byggir háttv. þm. Dal. á þeirri forsendu, að sú skoðun, sem þingið lýsir nú yfir, sje röng. Jeg verð að segja, að þingrof í þessu tilfelli hafi verið úrhæfis. 1914 fóru kosningar fram síðast, og þeir, sem þá voru kosnir, voru aðallega kosnir til að ráða stjórnarskránni til lykta. Það hefir heyrst sú skoðun, að þingið 1915 væri annað en þingið 1914. Það er dálítið undarlegt, þar sem þingmennirnir eru allir hinir sömu, nema einn, sem komið hefir í staðinn fyrir annan, sem dáið hefir. (Bjarni Jónsson: Hjartað er breytt). Jeg veit ekki í hverju það liggur. Jeg get raunar fallist á, að háttv. þm. Dal. og sumir aðrir sjeu nú öðru vísi en þeir voru 1914. Að því leyti get jeg kannast við, að breyting hafi orðið á þinginu, en að öðru leyti ekki. Hvort sem lítil eða mikil trygging er fólgin í því fyrir þjóðina, að hafa kosið þessa menn, til þess að fá stjórnarskránni heppilega til lykta ráðið, þá er það sams konar trygging, sem gjörist í öðrum löndum með þingbundinni konungsstjórn. Það er sú trygging, að vilji meiri hluta kjósenda komi fram í þinginu og ráði úrslitum málanna. Þó eiga kjósendur að vita það, að þingmenn eru ekki bundnir við vilja kjósenda sinna, heldur við sannfæringu sína eingöngu. Háttv. þm. Dal. segir, að ef þingmaður breytir stefnu sinni, þá eigi hann að fara til kjósendanna og segja :

»Nú hefi jeg skift um skoðun; nú gefst ykkur kostur á að velja mig eða hafna mjer«.

Þetta er náttúrlega gott og blessað, en þegar svo stendur á sem hjer, að að allmargir þingmenn geta ekki viðurkent, að þeir hafa breytt skoðun sinni, þá getur háttv. þm. Dal. (B. J.) ekki gert þá kröfu til þeirra, að þeir segi af sjer þingmensku.

Meiri hlutinn segir, að skilyrðum Alþingis sje fullnægt, en minni hlutinn neitar því. Annars er þetta útrætt mál hjer í þinginu, og jeg álít það óþinglegt að fara að rifja það upp aftur og endurtaka umræður þær, er orðið hafa um það.

Þótt þessi kenning hv. þm. Dal. (B. J.), að þingmenn sjeu ekki annað en sendimenn kjördæma sinna, sje að nokkru leyti rjett, þá má ekki færa hana út í ytstu æsar, því að svo er beinlínis fyrir mælt, að þingmenn eigi að greiða atkvæði eftir sannfæringu sinni. Og háttv. þm. Dal. (B. J.) veit það mjög vel, að Alþingi hefir ráðið fjölda stórmála til lykta, án þess að kjósendur væru áður spurðir um skoðanir þeirra.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) talaði um, að það væri »óparlamentarisk« aðferð, að minni hluti og hluti úr meiri hluta styddu stjórn til valda. Jeg veit ekki hvaðan háttv. þm. Dal. kemur þessi viska, og hann hafði ekki fyrir því, að færa nein rök að þessari kenningu. Jeg held því fram, að hún sje röng og mitt »nei« er jafn gott og »já« háttv. þm. Dal. (Bjarni Jónsson: Meirihlutabrotið hafði skift um skoðun). Jeg segi, að þeir hafi ekki gjört það og hefi þar að baki mjer yfirlýsta skoðun meiri hluta Alþingis. Þetta veit háttv. þm. Dal. ósköp vel, og því er það rangt hjá honum að vera að tala um að jeg hafi ætlað að gjöra stjórnarbyltingu. Til þess hefði jeg þurft að breyta stjórnarskipunarlögum landsins. Jeg fæ ekki sjeð hvernig það hefði átt að gjörast á annan hátt.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) talaði um það, að þingsál.till. (fyrirvarinn) hefði átt að snúa sigurinn úr höndum Dönum. En jeg verð að telja það mjög tvísýnt, jafnvel þótt það hefði verið rjett, að jeg hefði vikið frá vilja Alþingis, að hún hefði nægt til þess að bjarga rjetti okkar. Annars skal eg geta þess, að Danir sjálfir hafa ekki sjeð þenna sigur sinn. Það var að eina eitt blað »Vort Land«, sem sagði eitthvað í þá átt í vor, en það var áður en ríkisráðsumræðurnar voru birtar. — Knútur Berlín hefir nýlega skrifað grein, og ekki vill hann viðurkenna, að Danir hafi unnið neinn sigur. Það eru að eins örfáir Íslendingar, sem þessu halda fram. Háttv. þm. Dal. hafði von um að geta komið einhverjum vörnum að og gleður mig að svo er. (Bjarni Jónsson: Þær eru ekki stjórninni að þakka). Þær eru jafn góðar hvaðan sem þær koma, jafnvel þótt þær komi frá hv. þm. Dal. (B. J ).

Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að það hefði verið vitavert af þingmönnum að samþykkja ekki þingsályktunartillöguna. Jeg hefi aldrei heyrt það fyrr, að það væri vitavert að greiða atkvæði eftir sannfæringa sinni. Fyrst þeir háttv. þm., sem dagakrána samþyktu, litu svo á, að tillagan væri óþörf og landsrjettindunum væri í engan voða teflt, þá var sjálfsagt fyrir þá að greiða atkvæði eins og þeir gjörðu. Jeg hefði talið það miklu vítaverðara, ef þeir hefðu samþ. tillögu háttv. þm. Dal.

Jeg heyrði ekki alla ræðu háttv. þm. Dal., en aðalatriðunum hygg jeg að jeg hafi svarað. Annars bjóst jeg ekki við þessari eftirhreytu af eftirvaranum, — hélt að málið hefði verið útrætt á þessum tveim dögum, sem það stóð yfir um daginn. Háttv. þm. Dal. hefir sýnst annað og viljað láta ljós sitt skína einu sinni enn og sýna mælsku sína.