16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Magnús Kristjánsson :

Það er eins og háttv. þm. Dal. (B. J.) tók fram, ekki svo gott að vita, hvert á að beina fyrirspurnum sínum, þar sem 3 ráðherrar hafa setið að völdum á fjárhagstímabilinu. Mig langaði til að fá upplýsingar um það, hvort ekki sje rjett að jörðin Hrafnagil í Eyjafjarðarsýslu hafi verið seld, og sje svo, hvers vegna hún hafi verið seld svo lágu verði, sem jeg hefi heyrt, þar sem mjer er kunnugt um það, að lík jörð að stærð og gæðum þar í nágrenninu hefir verið seld fyrir 28,000 kr. Mjer virðist verðmunurinn svo afskaplegur, að jeg verð að telja það stórt vafamál, hvort heppilegt hafi verið að selja jörðina. (Sveinn Björnsson : Hver var verðmunurinn?)

Jeg veit það ekki með vissu, en mjer er kunnugt um það, að Espihóll var seldur fyrir 28,000 kr. og verðmunurinn var mjög mikill, því heyrt hefi jeg að Hrafnagil hafi verið selt fyrir 4,500 krónur.

Hvað sem þessu líður, þá er það mjög óþægilegt að þessi jörð var seld, því ef frumv. það, sem nú er á ferðinni hjer í þinginu, um breyting á skipun prestakalla í þessu hjeraði, yrði samþykt, gæti svo farið, að mjög erfitt yrði um ábýlisjörð handa sóknarprestinum, ef sá núverandi fjelli frá eða flyttist burt. Sömu óþægindin munu koma í ljós þegar núverandi Saurbæjarprestur lætur af prestakap, þótt engin breyting verði önnur, því þá er Hrafnagil ekki hentugt prestssetur, ef sameiningin kemst á, en hina vegar ekki ólíklegt, að núverandi Grundarprestur óski helst að sitja á eignarjörð sinni, Hrafnagili. Hvernig sem á málið er litið, virðist því þessi ráðstöfun óheppileg.

Þetta er ekki stórmál, en fyrst menn mega koma með fyrirspurnir, þætti mjer gott að fá upplýsingar um þetta.