16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sigurður Eggerz:

Þetta er í annað skifti, sem beint er fyrirspurn til mín, en jeg vænti þess að hæstv. forseti gjöri dagsins vegna undantekningu og lofi mjer að tala oftar. Jeg man ekki glögt sem stendur um sölu á þessari jörð en man þó það, að hún var seld í minni stjórnartíð og jeg var í talaverðum vafa um, hvað gjöra skyldi. Jeg leitaði til biskups og annara um málið og komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri nema um tvent að gjöra, annað hvort að selja jörðina eða veita prestinum lán til þess að byggja upp hús á jörðinni, en afleiðingin af því hefði orðið sú, að hætt hefði verið við, að jörðin yrði þá áfram prestssetur í því sameinaða prestakalli, en til þess liggur hún afarilla.

Jeg fór því þá leiðina að selja jörðina; og það var ekkert nýtt fordæmi, heldur má vísa til margra slíkra. Þegar ekki hefir verið búist við því, að jarðirnar verði prestssetur framvegis, þá hafa þær verið seldar, t. d. Stafafell og margar fleiri. — Um verðið er það að segja, að það var eftir mati dómkvaddra manna. Jeg er að vísu ókunnugur þarna, en jeg talaði við mann um þetta, sem er kunnugur í Eyjafirði, sem sje landritarann, og þótti honum verðið sæmilegt. Og jeg má líka fullyrða, þótt jeg hafi ekki skjölin í höndum, að biskup var á sama máli. Jeg man nú ekki í svipinn hvert verðið var, hvort það voru eitthvað 7–8 þús. kr., en um það má fá upplýsingar með því að síma til stj.ráðsins. Jeg held, sem sagt, að hjer hafi ekki að neinu verið farið eftir öðrum reglum en áður tíðkaðist.