20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sigurður Gunnarsson:

Jeg hafði nú eiginlega ekki ætlað mjer að tala langt mál hjer, en af því að jeg á viðaukatillöguna á þingskjali 392, þá vildi jeg leyfa mjer að segja nokkur orð. Það var einkum tvent, sem knúði mig til þess að koma fram með þessa tillögu, og gaf mjer jafnvel von um að henni yrði tekið vel. Í fyrsta lagi hafa, eins og háttv. þingdeild er kunnugt, komið til fyrri þinga bænir um að stofnað yrði sjerstakt læknishjerað í Hnappadalss. og syðra hluta Snæf.s. Þingið tók þunglega á þessu í fyrstu og alt fram til 1911. Þá var því svo vel tekið, að það komst í gegn um Nd. og til 2. umræðu í Ed., og kunnugir menn málinu sögðu að það hefði einungis verið fyrir slys, að það komst ekki í gegn þar. Nú ríkir sama óskin þar vestra. Þeir, sem kunnugir eru staðháttum á þessum slóðum, munu vita um, hve afarerfitt er fyrir þessa 3 hreppa, Miklaholtshrepp, Eyjarhrepp og Kolbeinsstaðahrepp, að ná til læknis. Þingið hefir líka viðurkent læknaþörfina í þessum hreppum, með því að taka frumvarpinu um sjerstakt læknishjerað á þessum slóðum svo liðlega 1911. Á eina hlið þessum sveitum er hafið, á aðra hlið slæmur og erfiður fjallgarður, og á þriðju hliðina afarlangur vegur til læknis. Jeg vildi ekki koma með frumvarp um að stofna nýtt læknisembætti, sökum sparnaðar nú, en kom í staðinn fram með þessa viðauka.tillögu, sem fer fram á að þessum þremur hreppum sje veittur 300 króna styrkur í sameiningu, til þess að leita læknis, en sá styrkur yrði að sjálfsögðu látinn koma hinum fátækustu hreppsbúum að notum. Þetta verða ekki nema 100 krónur á hrepp til jafnaðar, og jeg vona að fjárlaganefndinni geti því fundist þessari beiðni stilt við hóf. Jeg skal leyfa mjer að taka það fram, að tilætlunin er ekki sú, að 100 krónur falli endilega hverjum hreppi í hlut, heldur að þessum 300 krónum verði skift niður á alla hreppana í rjettu hlutfalli við fólksfjölda. — Þetta var þá fyrri ástæðan.

Hin ástæðan er sú, að jeg sje, að í stjórnarfrumvarpinu er farið fram á að veita sams konar styrk, 300–600 kr. ýmsum hreppum, sem ekki eru færri en 5 að tölu, og jeg býst fastlega við að hægt sje að setja þessa tillögu mína við hliðina á þeim, hvað sanngirni snertir, Það er nú má ske von, að fjárlaganefndinni þyki fullmikið gjört að því að sækja um þess háttar styrk, er hjer ræðir um, eina og hæstv. ráðherra drap á í ræðu sinni, en sje þessi styrkbeiðni feld, þá álít jeg líka rjett að fella í burtu allar sams konar styrkbeiðnir, sem fram eru komnar, að undanskildum styrknum til Öræfinga. Því þeir munu vera allra manna verst settir á landinu í þessum efnum, með öræfi, jökla og alls konar torfærur á allar hliðar. Vona jeg að háttv. fjárlaganefnd taki þessi ummæli mín til athugunar, samræmisins vegna.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta. Jeg vona að þessi viðaukatillaga mín standi ekki verr að vígi, með að samþykki háttv. deildar, en aðrar sama konar fjárbeiðnir, er fram hafa komið, og fjárlaganefndin hefir ekki hreyft við.