20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Framsögum. (Pjetur Jónsson):

Jeg hefi ekki mikið að segja, sem betur fer.

Jeg er þakklátur hæstv. ráðherra fyrir undirtektir hans undir tillögur nefndarinnar við þenna kafla fjárlaganna, enda hafa nefndin og ráðherra verið í samvinnu.

Hæstv. ráðherra mintist á, að heppilegra mundi, að styrkurinn til Jóns Kristjánssonar til lækningastofu yrði 1000 kr. ársstyrkur, líkt og er um aðra lækna, sem sjerfræðingar eru. En með með því að hjer er um að ræða að setja upp lækningastofu, þá hefir nefndinni litist rjettara að veita þenna styrk í eitt skifti fyrir öll, en binda ekki þingið með árlegum styrk. Þó er þetta álitamál, og enginn hagur að, ef síðar yrði tekinn upp árlegur styrkur.

Um styrk hreppanna til að leita læknis, skal jeg kannast við það fyllilega, að till. háttv. þm. Snæf. (S. G.) er engu síður hófleg en aðrar tillögur, sem minst hefir verið á. Aftur á móti, að því er snertir brtt. á þskj. 393, þá getur það ekki komið til mála, að þeir hreppar, sem þar um ræðir, sjeu eins illa að vígi staddir til að ná í lækni og hinir hrepparnir. En hvað sem því líður, þá víkur málinu svo við, að þessir styrkir ná ekki tilgangi sínum. Það er sjaldnast tilfinnanlegt, hvað kostar að ná í lækni, heldur hitt, að ekki sje hægt að ná í hann, þótt það oft ríði á mannslífi. Upphaflega byrjaði þessi styrkur svo, að Öræfingum var veitt upphæð til þæs að launa með lækni, er dveldi hjá þeim tímakorn, viku eða svo, einu sinni á ári, og gátu þeir þá leitað til hans þann tíma.

Jeg held, að rjettast væri, eins og jeg tók fram í dag, að sjerstök nefnd fjallaði um málið og hefði þá auðvitað yfir- lit yfir öll hjeruð landsins. Það er engan veginn af tilfinningarleysi, að jeg mæli þessi orð, heldur er hitt; að mjer þykir rjettast, að öll þessi mál sjeu rannsökuð sem best í heild og með rjettlátum samanburði.

Mig furðar ekki á því, þótt háttv. þm. Dal. (B. J.) taki svari sjúklinganna í Laugarnesspítala út af reyknum. Sams konar er tekið fram í nefndarálitinu. En háttv. þm. er sjaldan svo nærgætinn við landssjóðinn, þótt hann sje í þröng. Það hefir verið reynt að útrýma reyknum, en mistekist enn þá. Í þessu sambandi verður þess að gæta, að nefndin hefir alstaðar orðið að klípa af og spara; þó skal jeg ekki segja, hvernig nefndin tæki í málaleitan um þetta, ef margir þingmenn væru um hana.

Að öðru leyti hafa háttv. 2. þm. S.-M. (G. E.) og hæstv. ráðherra svarað ýmsu, sem jeg hefði viljað svara, og mun jeg því láta staðar numið, þótt ef til vill væri ástæða til að tala meira.