20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Bjarni Jónsson :

Það er ekki nýtt, að jeg standi upp. Jeg þarf alt af að færa einhverjum þakkir, enda er skylt að þakka það, sem vel er til manna gjört. Skal það nú gjört.

Jeg get ekki annað sjeð en það sje alveg óþarft, að fela embættismönnum landsins að ákveða það sjálfir, hvenær þeir eigi að síma, og láta þá svo fá allar sínar greiðslur endurgreiddar. Ef þeir þurfa að síma til stjórnarráðsins, þá er vitanlegt, að þeir fá þann kostnað endurgreiddan, og sími stjórnarráðið til þeirra, þá auðvitað borgar það svarið. En að láta þá mega kalla inn tolla og önnur gjöld með símskeytum, það virðist mjer alveg óþarfi, því að bæði er það, að þeir fá svo mikið fyrir að innheimta gjöldin, að þeir standa sig vel við að bera þann kostnað sjálfir, sem af því leiðir, og svo er líka hitt, að með því er ekki hægt að hafa neitt eftirlit að þeir sjeu þá ekki að fá sjer hausa eða rikling einhverstaðar að, og gjöri það í embættisnafni. Jeg skil ekki í þeim mönnum, sem vilja að landssjóður hafi nákvæmar gætur á hverjum fimmeyringi, en eru samt fylgjandi bruðli eins og þessu. Og ónotast svo við mig, að jeg skuli mæla þetta í sömu vog og þeir mæla öll önnur og nauðsynlegri gjöld landssjóðs.

Jeg skal nú reyndar segja háttv. deild það, að í alvöru talað, þá tel jeg það ekki stórtjón, þótt þessi liður fengi að standa, en þá er rjett að fella hann, til þess að mæla alt á sömu vogina.

Jeg skal, áður en jeg sest niður, geta þess, að það gleður mig auðvitað, að jeg hefi nú yfirlýsingu stjórnarinnar fyrir því, að jeg eigi heimtingu á að fá greitt úr landssjóði það, sem jeg lagði út fyrir frímerki og símskeyti, meðan jeg var í þjónustu landsins. Það er svo sem auðvitað, að verði þessi liður samþyktur, þá sendi jeg reikning fyrir það til stjórnarinnar.

Þá vildi jeg minnast lítið eitt á styrkinn til hreppanna í Dalasýslu, sem jeg fer fram á að verði veittur í fjárlögunum, til þess að ljetta undir með mönnum að leita sjer læknis. Þótt jeg fari fram á að styrkur verði veittur 3 hreppum í sýslunni þá er þó ekki svo að skilja, að þeir sjeu allir jafn illa settir. Í því efni eru Skarðstrendingar langverst settir. Til dæmis um það, hvað glöggur maður háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) er og hvernig hann borgar Dalasýslu fósturlaunin, er það, að hann sagði, að Fellsstrendingar væru ekkert verr settir en Skógstrendingar, með að ná sjer í lækni frá Stykkishólmi. Þó geta Fellsstrendingar ekki með nokkru móti náð í lækni, sje sjórinn ófær, en Skógstrendingar eiga alt af hægt með það, því að þeir hafa þó landveginn.

Viðvíkjandi styrknum til Magnúsar Guðlaugssonar smáskamtalæknis, þá skal jeg taka það fram, að hann hefir fjölda meðmæla frá ýmsum ágætismönnum í 5 sýslum landsins. Auk þess að hafa meðmæli tveggja lækna, þá hefir hann meðmæli frá öðrum eins mönnum og þessum, sem jeg nú skal leyfa mjer að láta háttv. deild heyra hvað heita, og nefna til dæmis af mörgum:

Síra Bjarna Símonarson próf, í Barðastrandasýslu, Guðjón Guðlaugsson fyrrum þingm. Strandamanna, Tryggva Bjarnason fyrr. þm. Húnvetninga, Torfa heit. Ólafsson, síra Jóh. L. L. Jóhannesson, síra Svein Guðmundsson í Múla, Rögnvald Magnússon, síra Jón Finnsson og svo síra Lárus Halldórsson á Breiðabólstað á Skógarströnd.

Jeg býst við að það sje nóg að nefna nöfn þessara þjóðkunnu og gáfuðu manna, til þess, að háttv. deild trúi því, að hjer sje ekki farið fram á að veita heiðurslaun að verðleikalausu, og jeg býst við, að flestir verði mjer sammála um, að þessir menn, sem jeg hefi nefnt, þoli samanburð við háttv. 2. þm. S.-M. (G. E.).

Jeg skal svo ekki lengja frekar umræðurnar, og læt þess að síðustu getið, að jeg tel víst, að tillögur mínar verði allar samþyktar.