20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Guðmundur Eggerz:

Jeg heyri að hjer tala ýmsir háttv. þm. fagurt fyrir sín kjördæmi, og jeg get ekki sagt að jeg hafi sjálfur orðið var við hrossakaup, en það er ef til vill af því, að jeg er svo heppinn, að jeg hefi enga fjárbeiðni meðferðis fyrir mitt kjördæmi. T. d. talaði hv. 1. þm. Húnv. (G. H.) af mikilli andagift um eina brú, og hefði jeg þó líklega haft meiri ástæðu til að tala um brú á Grímsá, sem er jökulvatn og ein af verstu ám yfirferðar, enda hefir fjöldi manns druknað í henni. (Bjarni Jónsson: Hvar er hún á landinu?). Það getur verið, að háttv. þm. Dal. (B. J.) viti ekki hvar hún er, en það eru þó ekki nema 2 ár síðan að kvenmaður druknaði í henni, og ári þar áður 2 aðrir. Það er tvisvar búið að áætla, hvað brú yfir hana muni kosta, svo að talsverð sanngirniskrafa virðist vera á því, að fara nú að koma því máli í framkvæmd. En ástæðan til þess, að jeg ber það ekki fram hjer, er sú, að jeg ætla að efna það, sem jeg hefi lofað kjósendum mínum, sem sje að stuðla að því, að fjárlögin berði afgreidd hjer frá þinginu tekjuhallalaust. Jeg hefi tekið það fram, að jeg hygg að það stæði nær að brúa Grímsá, en þessa Hamarsá, því að það hefir sagt mjer kunnugur maður, að á sumardag sje hún ekki meiri en svo, að varla væri hægt að drekkja þar ketti í poka. En jeg hefi líka heyrt það úr öllum áttum, að það væri hrein og bein skylda þingsins að sjá svo um, að ekki yrði tekjuhalli á fjárlögunum, og það því fremur, sem tekjuáætlunin mun vera sett fullhátt. Hún er sem sje hjer um bil alstaðar sett nokkru hærra en 1914–15, og nú er þó heimsstyrjöld yfirstandandi, og það getur meðal annars haft þær afleiðingar, að vöruflutningur teppist til og frá landinu, svo að við það tapist tolltekjur og útflutningagjöld, sem eru aðaltekjur landsins, og eru þá engin ráð, nema taka lán, ef það þá fæst. Reyndar heyrast hjer líka einstöku raddir um það, að flónska sje að amast við tekjuhalla, og koma þær auðvitað helst frá þeim, sem mestar kröfurnar gjöra fyrir sín kjördæmi. Það mætti ef til vill benda á það, að gjaldaukinn, sem slíkir menn fara nú fram á hjer, nemur þegar 270 þús. kr., og ef það yrði samþykt alt saman, þá væri tekjuhallinn þar með kominn upp í 368 þús. kr. Jeg vona nú reyndar, að einhverju af því verði slátrað, og vildi jeg nefna í því sambandi háttv. þm. Dal. (B. J.), þar sem hann t. d. fer fram á 47 þús. kr. útgjaldaauka. Það eru þessir þingmenn, sem koma með stærstar brtt., sem mest stuðla að tekjuhallanum.

Eins og fjárlögin koma nú frá nefndinni, er tekjuhallinn 110 þús. kr. Þetta er 110 þús. kr. of mikið. Það er sagt að það sje ógurlegur vandi að gjöra þau úr garði tekjuhallalaust. Jeg get ekki sjeð það, og jeg vil leyfa mjer að benda háttv. deild á það, hvernig á að fara að því að leysa þann Gordionahnút. Ef brtt. þær, sem jeg hefi flutt, verða samþyktar, þá sparast við þær 38 þús. kr., en þær heyra undir annan kafla, og skal jeg því ekki tala um þær að sinni. Einnig má taka tillögur nefndarinnar, 30. lið, sem sje brýrnar á austurós Hjeraðavatna og Miðfjarðará. Þær voru ekki teknar upp í fjárlagafrumvarpið, og það var vel, og ef þær verða feldar, þá sparast þar 32 þús. kr. og þarna eru þá strax komnar 70 þús. kr. alls. Enn er gjört ráð fyrir því, að byggja hús yfir listaverk Einars Jónssonar fyrir 10 þús. kr. Jeg vil sleppa því, þegar svona þröngt er í búi. Svo held jeg að mætti taka burt eitthvað af því, sem ætlað er til símalagninga, upp í það, sem þá er eftir af þessum 110 þús. kr.

Jeg vona nú að sumir háttv. þm. vilji hjálpa mjer til þess arna, og þá ekki hvað síst háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.). Jeg vona að hann finni, að þess er þörf, og jeg man að jeg las eftir hann einhvern tíma í vetur góða grein í merku blaði, þar sem talað var um »landssjóðslekann«. Sagt að menn legðu sig í líma fyrir sitt eigið kjördæmi, en hugsuðu eigi um það, að þeir ættu fyrst og fremst að vera þingmenn alls landsins. Jeg hefi nú lagt saman fjárveitingarnar, sem hann fer fram á í sínum brtt., og þær eru samtals 9700 kr., og ef nú allir 40 þingmennirnir kæmu fram með viðlíka brtt., þá væri því samfara nær 400,000 kr. útgjaldaauki að samþykkja þær. Og allar lúta brtt. þessa háttv. þm. að hans eigin kjördæmi. Jeg vænti nú svo góðs af honum, að hann taki þær aftur, þegar hann sjer, að jeg hefi ekki farið fram á neitt fyrir mitt kjördæmi. Það er ekki nema eitt nauðsynlegt í þessu máli, og það er að skera niður allar brtt., sem fara fram á gjaldahækkun, nema menn geti þá jafnframt komið sjer saman um að láta þær ganga upp á móti einhverju öðru.