21.08.1915
Neðri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Guðmundur Hannesson:

Þegar eg bað um orðið, hafði jeg von um, að menn mundu haldast inni í salnum, en jeg sje að nú standa flest sæti auð, svo að það er líklega ekki til neins fyrir mig, að vera að tala yfir auðum stólum. Jeg ætla þó að segja fáein orð.

Jeg vil fyrst minnast á brtt. á þgskj. 448, um brú á Hamarsá á Vatnsnesi. Jeg hefi átt tal við Jón Þorláksson landsverkfræðing um þetta mál. Honum þótti það sómaboð, að einn hreppur og sýslufjelagið skyldu bjóðast til að leggja fram 3/4 kostnaðarins, og sagðist hann ekki skilja í því, að þingið neitaði að leggja fram það, sem á vantaði. Þótt áin sje ekki nema lækur þegar þurkar ganga, þá er hún samt oft ófær á vorin í leysingum, og það sýnir best, hvort ekki er þörf á brúnni, að hreppurinn skuli vilja leggja svona mikið í sölurnar.

Þá er næst brtt. mín; um að veita prestinum á Bergsstöðum, síra Birni Stefánssyni, styrk til að byggja upp á jörðinni. Þar stendur svo á, að húsin eru nálega fallin, og er því alveg nauðsynlegt að byggja upp, ef fólki á að vera við vært. Presti þykir, sem von er, ósanngjarnt að ætlast sje til þess af sjer, að hann byggi fyrir eigið fje, þar sem jörðin verður tæplega prestssetur til frambúðar, eftir því sem henni er sveit komið. Landssjóður á jörðina og ber að sjá fyrir sómasamlegum húsum á henni, svo þetta er ekki annað en styrkur til landsins sjálfs.

Jeg skal ekki vera margorður um kvennaskólann á Blönduósi, enda hefir þessi 200 kr. styrkveiting fengið góðar undirtektir. En út af því, sem háttv. þm. Ak. (M. K.) sagði, skal jeg taka það fram, að jeg álít þetta skólamál Norðlendinga vera hálfgjört klúður. Og jeg skal fúslega játa, að væri alt ógjört, sem gjört hefir verið í því máli, þá myndi jeg greiða atkvæði með því, að skólinn yrði settur í Eyjafirði, en ekki í Húnavatnasýslu. En úr því að Eyfirðingar hafa ekki haft dug í sjer til að halda við sínum skóla, en aftur Húnvetningar sýnt dæmalausan dugnað í því máli, þá finst mjer það fásinna að fara nú að draga af fjárveitingu til skólans. Jeg sje ekki annað en það sje sjálfsagt, að efla Blönduósskólann, úr því sem komið er. Húnvetningar hafa reist þarna skólahús, sem er eitthvað 25 þús. króna virði, og það verður ekki sagt, að staðurinn sje illa valinn, þótt skólinn væri ef til vill betur settur í Eyjafirðinum. Ef til vill reynir Eyjafjarðarsýsla að koma sjer saman við hinar sýslurnar, og þær reisi svo í sameiningu skóla í Eyjafirðinum, sem kepti við skólann á Blönduósi. En þá nægja ekki þessar 10 þús., sem farið er fram á. Þá nægja ekki 25 þús. kr. Fjárveitingin yrði þá að vera að minsta kosti 50– 100 þús. kr., ef sá skóli ætti að verða nokkur veruleg framför frá skólanum á Blönduósi. Eg held því, að tillaga háttv. þm. Ak. ætti ekki að fara lengra en til þessarar umræðu, og segi jeg þetta ekki af því, að jeg vilji ekki unna Eyjafirði alls góðs, heldur af hinu, að jeg sje að þessi fjárstyrkur verður þeim að engu liði.

Þá vildi jeg minnast ofurlítið á símana; og tillöguna um að skera niður allar fjárveitingar til þeirra. Í fjárlögunum er einn sími, sem jeg vil minnast á. Það er síminn til Kálfshamarsvíkur á Skagaströnd. Á aukaþinginu í fyrra var gefið loforð um, að þessi sími skyldi lagður 1916. Íbúar hjeraðssins vildu samt ekki láta sjer þetta lynda; þótti þessi bið of löng og ætluðu að leggja hann fyrir eigið fje; höfðu jafnvel útvegað sjer fje að láni í þessu augnamiði, þó ekki yrði úr því, sökum þess að jeg og ýmsir aðrir löttu þess í því trausti, að síminn yrði lagður 1916, eina og lofað var, bæði af aukaþinginu og landssímastjóra. Það má heita að þingið sýni prett, ef það samþykir ekki þessa fjárveitingu. Skal jeg svo ekki orðlengja þetta frekar.