21.08.1915
Neðri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sigurður Gunnarsson:

Það hefir nú ef til vill ekki mikla þýðingu að, jeg standi upp, því nú er ekki nema helmingur þingmanna inni, en af því jeg á hjer nokkrar brtt., þá neyðist jeg til að gjöra ofurlitla, grein fyrir þeim:

Jeg minnist þess, að háttv. framsm. fjárlaganna sagði, að nefndin hefði farið svo langt í sparnaðartillögum sínum, sem fært hefði verið, án þess þó, að nauðsynlegar framkvæmdir væru rifnar upp með rótum. Þetta er satt, að nefndin hefir gengið að minsta kosti svo langt, sem fært var í því að draga úr eða fella niður nauðsynlegar fjarveitingar; verður enda álitamál, hvort hún hefir ekki farið öllu lengra en fært var að rjettu lagi. Sjerstaklega mæli jeg þetta með tilliti til nefndarinnar um vegi, síma og vitabyggingar. Úr þessum framkvæmdum vill hún draga mjög. En þetta, sem jeg nú hefi nú talið, er eina og allir vita, öflugustu lyftistengurnar undir því, að framleiðslan í landinu og viðskiftalífið haldist í lagi. Og skal jeg bæta því við, að aldrei er þess brýnni þörf en á þessum erfiðu ófriðartímum. Þó skal jeg játa, að nefndin hefir tekið liðlega í eina fjárbón mína, er fer í þá átt, að bæta samgöngur við fjölbygt hjerað, með því að veita fje til þess að mæla upp skipaleiðina að Skógarnesi. Úr þessu hefir ekki orðið hingað til, en nú hefir nefndin tekið málið upp á sína arma, og er jeg henni þakklátur fyrir það.

En er jeg sný mjer að 13. gr. og brtt. nefndarinnar við hana, þá sje jeg að nefndin leggur til, að framlagið til Stykkishólmsvegarins, 8000 kr. síðara árið, falli burtu. Jeg skal þegar benda á, að þetta er ekki gjört eftir tillögum stjórnarinnar nje heldur landsverkfræðingsins. Því það sjest af athugasemdum stjórnarinnar, hvað hún leggur til og hvernig hún lítur á málið. Þar segir svo: »Vegur þessi liggur nær eingöngu eftir blautum mýrum, mjög illum yfirferðar, alt vestur að Gröf í Miklaholtshreppi, og er óhjákvæmilegt að halda honum áfram þangað. En úr því er þolanlegur vegur vestur að Hjarðarfelli«. Þetta er alt öldungis rjett hjá stjórninni, og skil jeg því ekki, hví fjárlaganefndin leyfir sjer að leggja til, að fjárveiting þessi falli burtu. Jeg treysti því, að háttv. fjárlaganefnd sjái, að jeg hefi rjett fyrir mjer og sansist á, að fjárveitingin eigi að standa eins og hún er í stjórnarfrv.

Þá skal jeg víkja ofurlítið að vitunum. Nefndin leggur til, að bygging vitans á Malarrifi sje frestað. Þótt jeg álíti, að það sje mjög nauðsynlegt, að fá þenna vita bygðan sem fyrst, eins og fleiri vita, þá skal jeg ekki vera mótfallinn þessari brtt. nefndarinnar, ef hún þá aftur á móti tekur liðlega í það, að fjárveitingin til Stykkishólmsvegarins fái að standa óhögguð. Flest efni í vita er afar dýrt sem stendur, en vegagjörðin heimtar ekkert útlent efni.

Þá er brtt. á þgskj. 383. Þar fer jeg fram á að fá 100 kr. styrk til tveggja leiðarljósa á Svartatanga. Háttv. framsm. nefndarinnar (P. J.) ber því við, að þetta sjeu eki leiðar heldur hafnarljós, og hefir það eftir umsjónarmanni vitamálanna. Þetta er hinn mesti misskilningur. Þegar skip sigla inn flóann, þá lýsir Elliðaeyjarvitinn þeim inn að eynni. En þegar komið er inn fyrir eyjuna, þá er skarpur krókur á skipaleiðinni, og nýtur vitans þá ekki, en þá taka leiðarljós þessi við, sem nauðsynleg leiðbeining fyrir skipin inn undir höfnina. Kostnaðurinn við að gæta þessara ljósa er ekki lítill, því, helst þarf að hafa fastan mann mikinn hluta ársins. Jeg legg áherslu á það, að þessi ljós eru. ekki hafnarljós, heldur, eins og jeg sagði, leiðarljós.

Það er ekki nema sanngjarnt að veita þenna styrk, því að þingið hefir á þremur undanförnum fjárhagstímabilum veitt styrk til þessara leiðarljósa, og væri nú undarlegt, að fara að kippa að sjer hendinni.

Um brtt., sem jeg á hjer, ásamt háttv. þm. Dal. (B. J.), viðvíkjandi styrk til flóabáts á Breiðafirði, ætla jeg ekki að tala í þetta sinn, því að það stendur enn á áliti strandferðanefndarinnar, en væntanlega verður hægt að athuga þann lið við 3. umr. Að eins skal jeg taka það fram, viðvíkjandi þessari brtt. á þgskj. 392, að kjósendur mínir hafa falið mjer, auk þess að fá ársstyrkinn hækkaðan að mun, að fara fram á, að fá landssjóðsábyrgð fyrir 10,000 kr., til að kaupa vjelbát, en ætlast ekki til, að það sje beinn styrkur. Aftur á móti hafa Dalamenn falið þingmanni sínum að fá beinan styrk. En, eins og jeg drap á áðan, er nú ekki tækifæri til að fara ítarlega út í það mál.

Jeg vænti þess, að fjárlaganefnd og strandferðanefnd hafi kynt sjer ítarlega öll skjöl og skilríki, sem snerta það mál. Dalamenn og Snæfellingar hafa átt ítarlegt tal við framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins, hr. Emil Nielsen, um málið, og munu væntanlega njóta aðstoðar hans um útvegun á bátnum og um fyrirkomulag útgjörðarinnar. Það er áreiðanlega víst, að það mun verða miklu meira gagn að slíkum bát, sem hjer er um að ræða, heldur en að bát, sem einstök verslun á, og getur verið einráð um allar áætlanir, og yfirleitt, hvernig útgerðinni er hagað, og slíkur bátur auk þess mjög óhentugur.

Út af því, sem háttv. 2. þm. S.-M. (G. E.) sagði í gær, jeg held reyndar meira í gamni en alvöru, þegar hann fór að leiða þm. Snæf. fram á sjónarsviðið í sambandi við þm. Dalamanna, og þá fjáreyðslu, sem við stofnuðum til með brtt. okkar, skal jeg benda honum á það, að þótt þessi fjárveiting til uppmælingar á skipaleið inn að Skógarnesi sje látin standa, og þótt mjög yrði hækkaður styrkur til flóabáts á Breiðafirði, og þótt Svartatangaljósið gengi í gegn, þá sparaði fjárlaganefndin 10–11,000 kr. til Snæfellsnessýslu í fjörlögunum, ef Malarrifsvitanum yrði frestað, eins og hún leggur til. Ef fjárl.n. sparaði svipaðar upphæðir í öllum kjördæmum landsins, yrði það álítleg upphæð. Þetta var raunar útúrdúr, sem hefir litla þýðingu.

Þá er að eins eftir ein brtt, sem jeg á við 14. gr., og skal jeg leyfa mjer að fara um hana örfáum orðum. Hún er á þgskj. 428, og miðar að því að hækka lítilsháttar aðalupphæð fjárveitingarinnar til unglingaskóla á landinu. Fjárl.n. hefir gert breytingu í vil einstökum skólum, svo sem Núpsskólanum, og skal jeg síst draga úr því. En ef þær breytingar ganga fram, og er jeg fyrir mitt leyti fylgjandi því, þá lækkar upphæðin til unglingaskólanna í heild sinni, ef gjört er ráð fyrir, að framvegis verði sama tala unglingaskóla sem nú er, eða að minsta kosti ekki færri. Hinu má heldur gjöra ráð fyrir, að þeim fjölgi. Jeg tel ekki ráðlegt, að nú verði minna fje lagt til unglingaskólanna en á síðasta fjárhagstímabili, enda hygg jeg, að háttv. fjárlaganefnd hafi ekkert á móti þessari lítilfjörlegu hækkun við nánari íhugun. Það er að eina farið fram á, að hækka þenna lið um 500 kr., og mundi það jafna hallann.

Það eru ekki nema 13. og 14. gr., sem eru til umr. í þetta sinn, og þess vegna skal jeg ekki fara lengra út í fjárlögin að sinni. Jeg skal fúslega játa, að það er mikið vandaverk, sem fjárl.nefndin hefir með höndum, en þótt margt sje eflaust vel ráðið hjá nefndinni, get jeg ekki betur sjeð, en að frá henni komi ýmsar tillögur til hækkunar, sem alla ekki sýnast vera bráðnauðsynlegar, og allra síst á sama þinginu, sem vill draga mikið úr framlögum til mestu framfaramála landsins.

Jeg gæti t. d. nefnt ýmsar styrkveitingar, sem hljóða upp á nafn, og virðast síður en svo vera nauðsynlegar.