21.08.1915
Neðri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Matthías Ólafsson:

Jeg tek ekki til máls af því, að jeg eigi brtt. við fjárlögin. Jeg hefi ekki komið fram með neina brtt., og stafar það meðfram af því, að jeg hef verið svo önnum kafinn, að jeg gat ekki gefið mjer tíma til að kynna mjer brtt. nefndarinnar, og hins vegar er mjer ekki ljúft að standa í því beinatrogi, sem þingmenn standa í dag eftir dag. Þó jeg hafi ekki komið með neina brtt. sjálfur, langar mig til að gjöra örstutta athugasemd út af einni brtt., sem fram hefir komið. Það er 40 brtt. sjálfrar fjárlaganefndarinnar, þar sem hún leggur það til, að fella niður fjóra vita, sem stjórnin ætlaðist til að bygðir yrðu á næsta fjárhagstímabili. Með þessu hygst nefndin að spara upp undir 50000 kr. Þetta er að vísu mikill sparnaður, en jeg, efast um að það sje hyggilegur sparnaður. Ef eitthvað þarf að spara; þá verðum við að athuga, hvað helst megi spara. Það er aldrei svo þröngt í búi, að það sje ekki óhyggilegt að spara, á sumum sviðum. Og á þessu sviði má einna síst spara. Jeg hefi heyrt að vitamálastjórnin hafi farið fram á, að það yrðu bygðir átta vitar á fjárhagstímabilinu. Henni er það kunnast, hve þörfin er mikil og hvar hættan er mest.

Menn kunna nú ef til vill að segja, að hættan sje ekki meiri en á liðnum öldum, en með þeim hugsunarhætti yrði lítið um framfarir hjer á landi. Auk þess hafa siglingar aukist mjög hraðfara á seinustu árum, svo að hættan er að því leyti meiri nú en áður, og því dugar ekki að vitna, til liðinna tíma í því efni. Stjórnin hefir nú fallist á að taka 5 nýjar vitabyggingar upp í fjárlögin, og því finst mjer það harla undarlegt af fjárlaganefndinni að hún skuli leggja til að fella fjórar þeirra, en taka að eins eina upp. Sparnaðurinn er að vísu nokkuð mikill í orði, en eins og jeg drap á áðan, held jeg að það sje ekki hyggilegur sparnaður. Jeg held að hitt sje hyggilegra, eins og hv. þm Dal. (B. J.) sagði áðan, að láta nú eins og ekki sje þröngt. í búi, enda, er það ekki enn þá, hvað sem verður. Við getum gjarnan hugsað um hvað geti komið fyrir, og best er að vera við öllu búinn. En þá er líka ráð að láta fjárveitingar bíða til seinna ársins og gefa stjórninni heimild til að fresta framkvæmdum, ef nauðsyn krefur. Það getur verið, að styrjöldin minki tolltekjur okkar, og annað er ekki að óttast en afleiðingar af ófriðnum. Það getur enginn sagt neitt um, hverjar þær verða; það getur verið, að þær verði miklar og slæmar, en það getur líka farið svo, að þær verði ekki meiri en hingað til, og þá er ekkert að óttast. Nú er hjer góðæri bæði til lands og sjávar, og er því ekki ástæða til að draga úr nauðsynlegum framkvæmdum þess vegna.

Jeg hefði helst kosið, að háttv. fjárlaganefnd vildi taka þennan lið aftur, en vilji hún það ekki, get jeg ekki látið vera að koma með brtt. til 3. umr., og vona jeg, að sú tillaga fái fylgi háttv. deildar.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að tala um fleiri brtt. Þetta er sú tillagan, sem mig tekur sárast, ef fram gengi.