21.08.1915
Neðri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sigurður Eggerz:

Mjer er það fullljóst, að á slíkum tímum, sem nú eru, er erfitt að búa til fjárlög, er bæði taki tillit til sjálfsagðs sparnaðar og hins vegar dragi þó ekki úr nauðsynlegum framkvæmdum. Jeg veit að það er erfitt að vega salt á milli þessa, en það erfiði verður háttv. deild að takast á hendur.

Af þessum ástæðum sje jeg það fyllilega, að brýna nauðsyn ber til, að ýms þörf og annars óhjákvæmileg fyrirtæki verða að sitja á hakanum, að þessu sinni, Enda hefi jeg komið fram með breytingartillögu á þgskj. 427, er fer í þá átt að verja ekki fje til símalagninga á þessu fjárhagstímabili.

Nú skyldi enginn ætla, að breytingartillaga þessi sje runnin af þeim rótum, að jeg álíti ekki símalagningar nauðsynleg og sjálfsögð fyrirtæki, en ástæðurnar til þess; að jeg rjeðst á þenna lið fjárlagsfrumvarpsins, eru fleiri en ein.

Fyrsta ástæðan er sú, að vegna stríðsins hefir orðið gífurleg verðhækkun á því efni, er þarf til símalagningar, og það svo mikil, að t. d. kopar myndi nú kosta margfalt meira en venjulega.

Unnur ástæðan er sú, að ef litið er til síma er gjörðir hafa verið hjer á landi, þá dylst engum, að þær framkvæmdir hafa í raun og veru verið miklu hraðskreiðari en allar aðrar framkvæmdir okkar á þeim tíma. Að vísu segja menn; að símar borgi sig svo vel, að síst sje ástæða til að draga úr þessum framkvæmdum; en þar til er því að svara; að jeg gjöri ráð fyrir því, að margar af þeim símalínum, sem eftir er að leggja; muni síður borga sig en þær, sem þegar hefir verið lokið.

Þá er ein ástæða enn til þess, að jeg hefi komið fram með þessa brtt., og hún er sú, að svo framarlega sem símar standa í fjárlögunum, þá ber jeg kvíðboga fyrir því, að brtt. þær, er gjörðar verði við liðinn; verði bæði margar og miklar, því að sannleikurinn er sá, að flestir þingmenn hafa einhvern símaspotta í pokahorninu, er þeir eiga að útvega.

Jeg verð að taka það fram, að þessi brtt. mín er ekki sprottin af eigingirni, því að mitt kjördæmi lagði mikla áherslu á að fá síma frá Vík í Mýrdal og austur á Síðu, er kostaði um 40,000 krónur. Mælir það fremur með símalagningu þessari en flestum öðrum, að sú hugsun vakir fyrir landssímastjóranum og raunar mörgum fleirum, að ákjósanlegt sje, að símalína verði lögð alla leið austur til Hornafjarðar, til þess að nokkurn veginn fullkomið símasamband komist á bæði sunnan og norðan landa.

Um leið og jeg bendi á þetta, skal jeg geta þess, að símaverkfræðingur hefir athugað símalínustæði á þessum slóðum, og telur hann enga hættu á því, að ekki muni takast að gjöra símalínuna örugga fyrir ám og söndum; hefir hann athugað síðasta hlaupið á Skeiðarársandi og ekki talið, að það myndi hafa valdið tjóni á símalínu þar.

Jeg hefi bent á þetta til þess að sýna mönnum fram á, að, skoðað frá mínu kjördæmi, er mjer þetta áhugamál, og verði símar látnir standa í fjárlögunum, þá yrði jeg þess vegna að koma fram með brtt. við þann lið, og eins og jeg hefi áður sagt, yrði jeg ekki sá eini, er það gjörði.

Fjárlaganefndin virðist líka ,vera fylgjandi þessari sparnaðarstefnu, því að í athugasemd við símaliðinn hefir hún tekið það fram, að stjórninni skuli veitt heimild til að fresta frekari símalagningu, ef þröngt verði í búi. Að vísu er þessi athugasemd bót í máli, en ef skeyta á mikið a slíkum athugasemdum við hina ýmsu liði fjárlaganna, þá fer vald stjórnarinnar um það, hvað gjört skuli og hvað ekki, að verða allmikið. Ef símar eiga að standa í fjárlögunum, þá er rjett af Alþingi að gjöra ákvæði um, hvaða símar skuli lagðir, ef nægilegt fje yrði til þess, og í hvaða röð. Það teldi jeg viturlegra, heldur en leggja heimild upp í hendur stjórnarinnar um það, hvaða símar skuli lagðir og í, hvaða röð.

Það hafa komið fram andmæli gegn brtt. minni frá háttv. þm. Dal. (B. J.) Hann telur það ekki heimilt, samkvæmt 7. gr. símalaganna frá 1912, að ekki verði lagðir nýir símar fyrir tekjuafgang landasímans, meðan fleiri síma gjörist þörf. En þá skal jeg taka það fram, að svo framarlega sem heimilt er að leyfa stjórninni þá takmörkun í þessu efni, er fjárlaganefndin leggur til, þá er jafn heimilt að leggja engan síma.

Ef skilja á símalögin svo, að allur tekjuafgangur gangi til nýrra símalagninga, þá má ekki verja neinu af tekjuafganginum til annara fyrirtækja, en svo er þó gjört í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar. En jeg lít svo á, að hún hafi rjett fyrir sjer í þessu, og þessi heimild sje til að láta hjá líða, að leggja nýja síma. Byggi jeg það einmitt á þessum orðum í 7. gr. símalaganna 1912: »Þá er lokið er lagning. og kaupum á talsímum og talsímakerfum o. fl., samkvæmt 5. gr., skal kaupa og leggja talsíma, er til 3. flokka teljast, og enn fremur aukaþræði í eldri línur, eftir því, sem nauðsyn krefur . . .« Þrátt fyrir staðhæfingar háttv. þm.

Dal. (B. J.), get jeg ekki skilið annað en orðin »ef nauðsyn krefur« eigi við hvorttveggja, talsíma, er til 3. flokka teljast og aukaþræði í eldri línur. Þar sem því að nauðsyn krefur, að láta vera í þetta sinn, að leggja síma yfirleitt, sökum þess, að brýn nauðsyn er á því, að verja þessu fje til annara fyrirtækja, heimilar 7. gr. símalaganna, að símaliðurinn sje feldur í burtu. — (Bjarni Jónsson : Jeg skil íslenskuna rjett, og þetta er hrekkvís skýrsla.) Mjer skal vera það ljúft að votta það hjer í háttv. deild, að háttv. þm. Dal. (B. J.) ber gott skyn á íslenska tungu; jeg skal ekki draga úr því, en hann hefir ekki vit á lögskýringum. En jeg veit ekki hvaða ástæðu háttv. þm. Dal. hefir til þess að væna mig hrekkvísi, þar sem það yrði til gagna fyrir kjördæmi mitt, ef unt væri að skilja þetta á annan veg. Enda eru það fleiri lögfræðingar en jeg, sem finst eðlilegt að skýra lögin á þenna hátt.

Með því að fella burt þennan lið úr fjárlögunum, spöruðust 78,500 krónur. En þó að jeg komi fram með þessa breytingartillögu, sem orkað getur tvímælis, þá er það þó ekki meining mín, að vilja draga úr því, að einhver verklegur svipur verði á fjárlögunum. —

Þegar maður horfir framan í sum andlit, tekur maður ekkert eftir þeim, af því að þau eru svo venjuleg, þó að maður sjái þau dag eftir dag; en þó að maður sjái önnur að eina í svip, verður maður að taka eftir þeim og gleymir þeim því ekki, af því að í þeim ern einhverjir þeir drættir, er verða manni minnisstæðir. Þá er maður lítur nú framan í fjárlagaandlitið, ef svo má að orði kveða, þá verður maður ekki var þessara stóru og sterku drátta, er hljóta að vekja athygli vora.

Í fjárlagafrumvarpinu er ekki gjört ráð fyrir, að ráðist verði í mörg stórfyrirtæki, enda er það eðlilegt, miðað við kringumstæður allar. En þar sem mjer virðist vera helst til langt farið í þessu efni, hefi jeg komið fram með brtt. á þgsk j. 410, er bætir úr þessu.

brtt., er hjer ræðir um, fer fram á, að veittar verði nú í fjárl. 78,000 kr. til brúargjörðar á Jökulsá á Sólheimasandi. Þetta mál er ekki nýtt hjer á þingi. Á þingi 1911 voru samþykt lög þess efnis, að brú yrði gjörð, á Jökulsá, jafnakjótt og fje væri veitt í fjárlögunum til þessa fyrirtækis. Þessi lög er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo, að þingið hafi ætlast til að þessi brúargjörð gengi á undan öðrum stórfyrirtækjum á landinu. Ástæðan fyrir því, að lögin beri að skýra þannig, er sú, að þegar lögin voru á ferðinni í Nd. á þinginu 1911, komu ýmsar brtt. fram um að bæta hinum og þessum brúm við, en þær voru allar feldar. Þetta virðist ljóslega benda á það, að þingið hafi markað sjerstöðu með brúargjörð á þessari á.

Á síðasta fjárlagaþingi (1913) hafði þetta mál fylgi bæði í Ed. og Nd., en ekki nægilegt til þess, að fje yrði lagt fram til fyrirtækisins.

Það er ef til vill ekki þörf á að fara mörgum orðum um hinar knýjandi ástæður, sem til brúargjörðarinnar eru, því að þetta mál er orðið svo kunnugt, bæði frá umræðunum um lögin 1911 og sömuleiðis frá síðustu fjárlagaumræðum. En jeg get samt ekki stilt mig um, að minnast á nokkrar þeirra.

Jeg skal þá fyrst minnast á þá ástæðuna, er mun verða ljettvægust fundin hjer í háttv. deild, en er þó ástæða engu síður.

Eina og kunnugt er, kemur Jökulsá undan Mýrdalsjökli; er hún erfið og ill yfirferðar, og það svo mjög, að enginn fær yfir hana komist nema fuglinn fljúgandi, þegar hún er sem verst. En fyrir austan hana liggja ýmsir fegurstu hlutar þessa lands, t. d. Mýrdalur og Síðan. Svo framarlega sem brúin yrði reist, yrði það til þess, að mikill ferðamannastraumur leiddist austur í þessar bygðir. En það er ekkert vafamál, að fyrir hvaða land sem er hefir það meiri þýðingu en flesta grunar, að útlendingar sjái merkustu og fegurstu svæði þess. Það vekur meiri eftirtekt á landinu en margur ætlar.

Ef þetta hefði verið aðalástæðan, hefði jeg ekki leyft mjer að koma fram með þessa brtt. hjer í háttv. deild, er fer fram á, að veita 78000 kr. til þessa fyrirtækis. En ástæðurnar eru fleiri og veigameiri.

Ein ástæðan er sú, að Jökulsá rennur í miðju læknishjeraði, og oft hefir það borðið við, að ómögulegt hefir verið að ná í lækni til kvenna, er legið hafa í barnsnauð.

Þá er það enn eitt, að yfir þessa á verða tvær blómlegar sveitir í Rangárvallasýslu að sækja verslun sína til Víkur, sem sje Austur- og Vestur-Eyjafjallahreppar, og geta menn ímyndað sjer, hvern trafala þessi voðagripur muni gjöra þeim. Enn er það, að Skaftfellingar eiga að sækja til fiskróðra vestur yfir ána, og komast þeir oft ekki yfir hana, þó að veður sjeu góð og fiskur nógur. Loka má geta þess, að mikið er fjárrekstra á þessum leið til Reykjavíkur, og hefir það stundum viljað til, að þeir hafa orðið að bíða við ána í viku eða upp undir hálfan mánuð, og ættu menn að geta gjört sjer í hugarlund, hver hnekkir þeim miklu landbúnaðarsveitum er í því, hve fjeð rýrnar á þessu, og hve mikill kostnaður hlýtur að vera því samfara.

Jeg vil enn fremur minna þá, sem ekki eru kunnugir þarna, á það, að þótt þeir ef til vill haldi það ekki, þá er umferðin yfir ána mjög mikil. Það er auðvitað oft, að enginn kemst yfir hana, en mjer er nær að halda, að varla komi sá dagur á árinu, að ekki eigi einhver leið yfir hana, eða reyni að komast það. Vor og haust er umferðin einkum griðarmikil. Ef brú kæmist á Jökulsá, þá væri Mýrdalurinn, þessi mikla framfarasveit, sem t, d. háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir oft lýst ánægju sinni yfir og talið þar mestar búnaðarframfarir á öllu landinu, — þá væri þessi sveit komin í náið samband við sjálft Suðurlandsundirlendið, og með tímanum yrði akbraut — alla leið til Reykjavíkur. Og því fremur er þörf á þessu, þar sem þessi blómlegu framfarahjeruð eiga við hið bagalegasta hafnleysi að stríða, því að þótt margir kunni að vera, sem ekki vita, hvílíkt illfygli Jökulsá er, þá eru þó hinir margir, sem hafa farið meðfram strandlengjunni á skipum og þekkja til þess, hvernig er að lenda á höfninni í Vík. Og það liggur í augum uppi, hve illa sett það hjerað er, sem ekki getur notið þeirrar blessunar, sem fylgir samgöngunum á sjónum, ef því er líka bægt frá eðlilegum samgöngum á landi.

Jeg þykist nú hafa talið allmargar ástæður fyrir því, að brúa þessa á, sem nálega ættu að nægja hver fyrir eig. Og jeg hefi bent á það, að Alþingi hefir gefið beint loforð um það með lögum og örugga von um, að það skuli verða gjört. Og jeg get ekki lýst því, hver gleði varð þá á hverjum einasta bæ þar eystra yfir þessum stórtíðindum, — yfir því, að þingið skyldi hafa sýnt þann skilning á erfiðum kringumstæðum manna, sem það gjörði þá. Jeg er viss um, að þær blessunaróskir hafa verið óteljandi, sem þingið fjekk fyrir þau lög. En því meiri urðu vonbrigðin, þegar fjárveitingin kom ekki á síðasta fjárlagaþingi, en í stað þess var veitt fje til að brúa hinar og þessar smásprænur, sem kann ske hefir verið einhver þörf á, en engin í samanburði við þessa.

Og enn er aðalástæðan eftir, og sú ástæða ætti að vega svo mikið, að menn hugsuðu sig ekki tvisvar um. Sú ástæða er mannhættan, sem stafar af ánni. Síðan sögur fara af, hefir hún drepið 40 manns, og þótt menn jafnvel vilji nú að eins líta á þetta frá fjárhagslegu sjónarmiði, og gleyma öllum sorgum og böli, sem af því hefir leitt, þá er mjer spurn, hvers virði öll þessi mannslíf sjeu. Þótt að eins sje litið á þetta köldum hagsýnisaugum, þá hlýtur það að borga sig að brúa ána, af þessari ástæðu einni. En fyrir okkur, sem kunnugir erum þarna, og vitum, hver áhrif áin hefir á hugi manna í kringum hana, hefir það mál einnig aðra hlið. Mjer hefir oft verið fylgt yfir Jökulsá, og jeg hefi tekið eftir því, að sumum konuandlitunum, sem annars eru ódeig, hefir brugðið, þegar mennirnir þeirra eru að leggja af stað — út yfir ána. Því að það er sannleikur, að það veit enginn nokkurn tíma nema það sje í síðasta einn, að hann fer þá för. Og jeg get því fremur borið um þetta, þar sem jeg hefi sjeð mann drukna í Jökulsá, frá konu og mörgum börnum, og var við, þegar farið var heim með líkið. Það mun hafa verið síðasta fórnin.

Í mannúðarinnar nafni verður Alþingi fyrst og fremst að hugsa um það, sem myndi firra menn jafnstórkostlegri hættu og hræðslu, sem þessi brú myndi gjöra. Og á þessu máli hefi jeg svo mikinn áhuga, að jeg vildi óska, að það væri í höndum einhvers meira áhrifamanns, en jeg er, svo að meiri vissa væri fyrir því, að því yrði framgengt, því að með því myndi þingið vinna betra verk en margan grunar. Fáir þeirra, sem hjer eru, þekkja þá góðu menn, sem þarna búa, og enginn veit, nema áin kunni þá og þegar að taka þá af sonum landsins, sem það vildi ef til vill síst missa.

Í nafni mannúðarinnar hefi jeg fullan rjett til að spyrja hið háa Alþingi, hve lengi þessi gröf eigi að standa opin!