21.08.1915
Neðri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sigurður Eggerz:

Jeg skal ekki vera langorður. Það eru að eins örfá orð út af athugasemdum háttv. þm. Dal. (B. J.). Hann sagði, að jeg mundi hafa komið fram með breytingartill. mína við símaliðinn; til þess að friða samviskuna. Jeg vildi fella fjárhæðina burtu, til þess að jafna upp tillagið til Jökulsárbrúarinnar.

Háttv. þm. Dalamanna fer hjer ekki með rjett mál. Það er órjettmætt af honum að gjöra mjer slíkar getsakir, sjerstaklega þar sem jeg í ræðu minni færði óræk rök fyrir því, hvers vegna jeg vildi fella burtu fjárveitinguna til símanna. Það sjest líka á athugasemd nefndarinnar við liðinn, að hún er mjer sammála um það, að símarnir megi fremur sitja á hakanum en margt annað.

Jeg hefi tekið það fram áður og get gjarnan endurtekið það, að ein af ástæðum mínum fyrir þessari brtt. var sú, hve alt efni til símalagninga væri dýrt núna. Háttv. þm. Dal. (B. J.) segir, að hin sama ástæða sje fyrir hendi með Jökulsárbrúna. Þessu er því að svara, að sú athugasemd er gjörð við brtt., að verkið skuli ekki framkvæmt, ef fjárhagsörðugleikar sjeu fyrir hendi, og sýnist stjórninni, að brúarefnið muni verða miklu dýrara en endranær, þá býst jeg ekki við, að verkið verði gjört. Hann efaðist um það, að verkið mundi borga sig. Þó ekki væri litið á annað en þau mannslíf, sem stendur hætta af brúarleysinu, þá hygg jeg að sparnaðurinn á þeim útgjaldalið mundi margborga brúna, jafnvel þótt litið sje á málið köldum fjárhagsaugum eingöngu.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) hneykslaðist á skýringu minni á 7. gr. símalaganna. Jeg fæ ekki annað sjeð en að 3. flokks síma þurfi ekki að leggja, nema nauðsyn krefji. Jeg las greinina upp áðan og sýndi fram á það, að orðið »nauðsyn« hlyti að eiga við hvorttveggja, lagninguna og viðgjörðina. En hvort þessi nauðsyn sje fyrir hendi, verður auðvitað Alþingi að meta. Jeg álít hana miklu meiri í öðrum efnum, þar sem flest hjeruð landsins hafa þegar fengið síma.

Jeg býst því miður við því, að þessi tillaga mín verði feld, en þá er það spá mín, að allmargir símar verði komnir inn í fjárlögin, áður en þau eru farin út úr þinginu. Jeg hygg þá, að bæði jeg og háttv. þm. Dal. (B. J.) þurfi að athuga, hvort ekki muni jafn rjettmætt að fara fram á einhverjar símalagningar fyrir okkar eigin kjördæmi og þær, er í frumv. standa. Og jeg býst við, að svo verði um fleiri, ef brtt. mín verður feld. Verði það aftur á móti ofan á, að fella þennan lið burtu, þá er miklu hægari aðstaðan fyrir háttv. þm. gagnvart kjördæmum sínum á eftir.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að skýring mín á 7. gr. símalaganna væri sögð í spaugi. Þetta eru eins og hverjar aðrar getsakir hjá háttv. þm. Dal. (B. J.), en svo framarlega sem það er rjett, að greinin eigi að skiljast á þá lund, að ekki sje hægt að fresta símalagningum, þá hefir þingið í hendi sjer að gjöra ráðstöfun, er lögheimili undantekningu undan þessari grein. En þar sem hann sagði, að ekki mætti nota þetta fje til annara en símalagninga, þá er það jafnt stílað til háttv. nefndar og athugasemdar hennar um þennan lið.

Jeg hefi ekki frekara að segja. Háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) hefir talað svo vel og ljóst um nauðsyn Jökulsárbrúarinnar, að jeg hefi þar engu við að bæta.