21.08.1915
Neðri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Framsögum. (Pjetur Jónsson) :

Það er ekki hægt verk að svara í einu öllum þeim aðfinningum, sem fram hafa komið til nefndarinnar enda mun nú þolinmæði margra á þrotum með að hlusta á menn skattyrðast hjer í deildinni. Jeg mun því hætta á að hafa svörin styttri en ræður þeirra háttv. þm., sem talað hafa, í þeirri von, að málstaður nefndarinnar sje betri en þeirra.

Það lítur svo út af máli margra, sem hjer hafa talað, að þeir hafi ekki lesið nefndarálitið, eða þá ekki athugað það, sem skyldi, því þeir virðast ekki hafa hugmynd um, hverjar ástæður liggja til sparnaðarstefnu fjárlaganefndarinnar í ýmsum greinum.

Jeg er hæstv. ráðherra þakklátur fyrir það, hve vel hann tók svari fjárlaganefndarinnar. Jeg tók ekki eftir að það væri nema á einum stað, sem skoðanir hans fóru í aðra átt en nefndarinnar. Það var um bókakaup Háskólans og fjárveitinguna til útgáfu íslenskra kenslubóka. Mjer fanst hann tala um það í hálfgjörðu skopi, að nefnd in hefði ætlað að spara á fyrra liðnum 200 kr. Jeg vil benda hæstv. ráðherra á, að það hefir ætíð fjárhagslega þýðingu að spara, þótt ekki sjeu nema smámunir. Það hefir fjárhagslega þýðingu að spara öll óþarfa útgjöld, smá og stór.

Það er enginn vafi á því, að ef á annað borð á að fara að spara, þá má alveg eins spara á þessum bókakaupum eins og öðru. Jeg skal benda á það gagnvart því, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. S.) sagði um þetta mál, að á árinu 1914 fjekk Háskólinn yfir 7000 kr. til bókakaupa. Það var 1300 kr. meira en veitt var til bókakaupa í sjálfu landsbókasafninu. (Bjarni Jónsson: Og þótti engum mikið.). Af því að háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir talað einna mest, held jeg að jeg verði að taka hann fyrir næst ráðherranum og víkja nokkrum orðum að ræðu hans. Jeg var nú búinn að tala um bókakaupin, en svo kem jeg að útgáfu kenslubóka. Það, sem nefndin hafði fyrir sjer í tillögum sínum þar að lútandi, var það, að nú er einn duglegasti maðurinn við Háskólann, í að semja kenslubækur, forfallaður frá því starfi um lengri tíma og óvíst, hver kemur í hana stað, eða hvort hann verður fær um slíkt. Nefndin leit svo á, að ef hæfileg ritlaun yrðu borguð, myndi trauðla verða samdar öllu fleiri kenslubækur en svo, að þessar 2000 kr., sem veittar eru, hrykkju fyrir því. Jeg þarf svo ekki að svara fleiru upp á þetta. Þá mintist háttv. þm. Dal. (B. J.) á athugasemdina um aðastoðarmanninn við vitana. Því hefir háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) svarað svo greinilega, að jeg hefi eiginlega engu þar við að bæta. Það eru engir afarkostir, sem þessum manni eru settir, þótt ætlast sje til, að hann veiti örfáum mönnum ókeypis leiðbeiningu í að gjöra rafmagnaleiðslu til ljósa. Það yrði honum ekki að fjeþúfu hvort sem væri. Þótt hann taki jafnvel ekki neitt beinlínis aukreitis fyrir leiðbeiningu sína, veit jeg þess dæmi, að hann telur sig hafa hag af þessari tilsögn, því að hann útvegar öll tæki til þessara fyrirtækja. Hann hefir áður boðist til að veita þeim, sem pöntuðu hjá honum tækin, ókeypis leiðbeiningar og áætlanir, svo að jeg get ekki sjeð neina annmarka á því, að honum sjeu sett þessi skilyrði fyrir launahækkuninni. Þá mintist sami háttv. þm, á athugasemdina um unglingaskólana. Honum fanst það óþarft að vera að taka fjóra skóla út úr, til að veita þeim sjerrjettindi. Jeg skal geta þess, að þessi athugasemd hefir staðið að mestu leyti óbreytt í fjárlögunum áður. Tillaga sú, sem fjárlaganefndin ber fram í þessu efni, er að öllu leyti sniðin eftir tillögum fræðslumálastjórans, og nefndin gat ekki fengið neinn mann, sem lítur sanngjarnlegar á úthlutun .þessa styrks heldur en hann. (Bjarni Jónsson: Verkin sýna merkin. Þetta sýnir bara, að maðurinn hefir ekki vit á málinu.). Fyrst og fremst hafa kaupstaðaskólarnir fastara skipulag, heldur en unglingaskólarnir úti um land, og í öðru lagi eiga þeir sitt eigið skólahús og hafa fullkomnari kröftum á að skipa.

Enn fremur mintist sami háttv. þm. á undanþágu þá, sem nefndin leggur til að gjörð verði um símafjeð, að stjórninni veitist heimild til að láta vera að leggja nýja síma, og megi nota fjeð til annarra þarfa. Hann telur, að til þessa þurfi að gjöra sjerstök lög, ef þau eigi að hafa gildi.

Nefndin talaði um þetta við ráðherrann, eftir að hún hafði athugað málið rækilega, og spurði hann, hvort hann myndi láta sjer nægja þessa athugasemd til að hegða sjer eftir, og kvað hann svo að orði, að svona lagaða athugasemd mundi hann telja nægilega. Jeg er ekki lögfræðingur, og hætti mjer ekki út í lagaskýringar, en læt mjer nægja fyrir nefndarinnar hönd að skírskota til þessa svara hæstv. ráðherra.

Jeg var víst búinn að svara upp á brtt. háttv. þm. Dal. (B. J.) um að hækka tillagið til símanna upp í 50,000 kr. fyrra árið.

Jeg hefi sagt það fyrir nefndarinnar hönd, að hún gæti ekki fallist á að hækka þessa fjárveitingu, síst fyrra árið. Frá mínu persónulega sjónarmiði hefði jeg ekkert á móti því, að þetta fje yrði sett svo hátt, sem landssímastjóri hefir ætlast til. Hann ætlaðist til að tekjuafgangurinn af símunum, sem áætlaður er 100000 kr., yrði notaður til símalagninga 1916, eins og sjest af brjefi hans til nefndarinnar. En jeg kannast ekki við, að um neitt loforð sje að ræða, enda er þetta brjef landssímastjórans ekki tæmandi, því að hann hefir gleymt einum síma, sem átti að vera allra fyrsti síminn, sem lagður yrði, en það er síminn til Grenivíkur í Þingeyjarsýslu. Það er ekki ósennilegt, af því að jeg var flutningsmaður símafrumv. á einum tíma, að jeg hefði ósköp hæglega getað komið þessum síma í 2. flokk, ef jeg hefði viljað hnotabitast um það. Jeg átti meira vald á því en aðrir, þar sem jeg var upphafsmaður að þessu máli. Jeg álít nú, úr því að þessi áætlun hefir raskast, að það verði að fela stjórninni að ráða fram úr því, hvaða símar eigi að verða fyrstir, og gjöri jeg þá ráð fyrir, að þessi sími í Dalasýslu, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) var að tala um, hljóti að verða með þeim allra fyrstu símum, sem lagðir verða.

Háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) mintist á húsmæðraskólamálið. Jeg var ekki viðstaddur og heyrði ekki ræðu hans, en mjer var sagt, að hann hefði tjáð sig mótfallinn stofnun húsmæðraskóla á Norðurlandi, og sagt, að sjálfsagt væri að gjöra skólann á Blönduósi að húsmæðraskóla, ef á annað borð væri verið að hugsa um að stofna slíkan skóla fyrir Norðurland. Hann hvíslar nú að mjer, að hann hafi bætt við: nema ef upp kæmi myndarlegur skóli í Eyjafirði fyrir allar þrjár sýslurnar. Hann hefir þá haldið fram minni skoðun í þessu efni, og er jeg honum þakklátur fyrir.

Jeg er búinn að gjöra athugasemd út af tillögu háttv. þm. Húnv. (G. H.) um styrk til brúar á Hamarsá. Mjer finst að sú styrkbeiðni og sömuleiðis tillaga háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) um styrk til brúar á Ólafsfjarðarós hljóti að koma undir liðinn um sýsluvegi. Það er óneitanlegt, að það er ákaflega fallega gjört af Ólafsfirðingum að leggja fram fje, eins og háttv. þm. skýrði frá að þeir hefðu gjört, og undir flestum kringumstæðum myndu þeir hafa fengið styrk, ef það hefði að öðru leyti getað samrýmst tillögum nefndarinnar. Jeg gjöri ráð fyrir, að nefndin geti ekki greitt atkvæði með þessum styrkveitingum, þrátt fyrir ýmislegt, sem með þeim mælir.

Háttv. þm. Snæf. (S. G.) mintist á Stykkishólmsveginn. Það má vel vera, að það komi tilfinnanlega niður, að lækka þennan lið, en það er vitanlega svo alstaðar, þar sem styrkir eru lækkaðir eða þeim kipt í burtu. Hjer var um það að ræða, að taka annaðhvort þetta fje eða eitthvað annað, og jeg get ekki sjeð, að það hafi verið færðar ástæður fyrir því, að það væri svo afar tilfinnanlegt að bíða eftir framhaldi þessa vegar í samanburði við aðra vegi, sjerstaklega þegar litið er til þess, að á þessum vegi frá Stykkishólmi til Borgarness hefir verið unnið meira að vegabótum en á nokkrum öðrum þjóðvegi á landinu á sama tímabili. Hann lagði svo mikla áherslu á þennan veg, að hann sagði, að jafnvel þótt Malarrifsvitinn fjelli, þá væri það ekki svipað því eins tilfinnanlegt og hitt, ef vegafjeð væri strikað út.

Þá mintist hann á Svartatangaljósið og sagði, að það ljós væri ekki fyrir höfnina í Stykkishólmi. Jeg veit ekki til, að slík ljós sjeu beint við þær hafnir, sem kosta þau. Gróttuvitinn er t. d. langt frá höfninni í Reykjavík, sem kostar hann, og eitthvað svipað mun það vera með Svartatangaljósið. Nefndin fór í þessu efni eftir tillögum umsjónarmanns vitanna, og mun hún halda fast við sína afstöðu til þessara mála. Hann talaði um, að það væri ýmislegt í fjárlögunum, sem nefndin hefði frekar getað sparað, heldur en þetta, sem hún hefir ráðist á. Jeg vildi óska, að þeir, sem hafa það fyrir augum að spara sem flest, hefðu komið beint til nefndarinnar, ellegar komið með brtt. um að fella niður einstaka liði. Að vísu hafa tveir menn, eða sjerstaklega einn maður, komið fram með tillögur í sparnaðaráttina, en ekki hefir verið farið fram á, að neinu væri kipt burt af tillögum nefndarinnar, nema ef til vill einni.

Háttv. þm. V.-Ísaf. (M. Ó.) mintist á vitana. Hann sagði eitthvað í þá leið, að það væri undarlegt, þegar stjórnin hefði tekið þessa vita upp í fjárlagafrumv. sitt, að þá skyldi fjárlaganefndin leggja til, að þeir yrðu feldir burtu. Mjer þótti þetta fremur undarleg umsögn hjá háttv. þm., því að vitanlega var það ætlun fjárlaganefndarinnar að reyna að spara eitthvað af því, sem í stjórnarfrumv. stóð, og rjeðst hún þá meðal annars á þetta. Hann sagði, að fjárlaganefndin ætti að meta þarfirnar og fara svo eftir því. Það er dálítið undarleg ráðlegging líka, því að nefndin hefir ekki gjört annað þessar 5 vikur, sem hún hefir setið á rökstólum, en að meta þarfirnar. Eigi að síður vill þm. að samkomulag geti komist á milli hans og nefndarinnar. Það er óneitanlega fallega hugsað, og það getur vel verið, að til samkomulaga geti dregið, en jeg hef ekki umboð til að lýsa yfir neinu í þessu efni fyrir nefndarinnar hönd.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) vill taka burtu fjárveitinguna til Langadalsvegarins, en fella tillögu nefndarinnar um Malarrifsvitann. Þetta gefur mjer tilefni til að minnast á þessa vegarlagningarhugmynd yfir Kolugafjall. Jeg veit ekki hvort þessi breyting er heppileg, en eitt skal jeg leyfa mjer að benda á, og það er það, að á meðan þessi breyting er ekki komin á, þá er ómögulegt að komast hjá því að hafa þennan veg eftir Langadalnum. Þessi umræddi vegur er alls ekki reiðfær, og miklu verri en hann hefir nokkru sinni verið, en skip geta þó siglt fyrir Snæfellsnes, án þess að reka sig á. (Bjarni Jónsson: Það fer líka margur um Langadalinn, án þess afi fara ofan í). Þegar verið er að gjöra ráð fyrir að leggja veg yfir Kolugafjall, þá er þar um veg að ræða, sem enginn veit hvað kostar. Hann getur kostað 100 þúsund kr. eða meira. Tilfellið er, ef ekki er lagt fje til Langadalsvegarins nú, vegna fyrirhugaðrar vegabreytingar, þá verður hann óviðgjörður allan þann tíma, sem verið er að þinga um það, hvort þjóðvegurinn skuli vera yfir Kolugafjall eða ekki, og að líkindum á meðan vegagjörð þar stendur yfir.

Sami þm. (G. E.) var að áfella stjórnina fyrir það, að vegaverkfræðingarnir væru látnir einráðir um, hvernig þeir höguðu vegagjörðinni, og talaði um galla á vegunum í sambandi við þetta, rjett eins og gallarnir á vegunum væru því að kenna, að nú eru loksins fengnir sjerfróðir menn til að sjá um lagningu þeirra. Þótt vegirnir sjeu ekki gallalausir síðan, þá eru þeir þó margfalt betri en áður. Það er ekki rjett, að verkfræðingarnir fari yfirleitt eingöngu eftir ástandi jarðvegarins um hásumar, heldur hafa þeir lagt sig eftir kunnugleika á ástandi hans bæði haust og vor og vetur með snjómælingum og öðrum athugunum, sem nauðsynlegar eru,

Háttv. þm. V.-Skaft. (S. E.) talaði fyrir brú á Jökulsá. Jeg ætla ekki að blanda mjer í þá brúardeilu. Jeg hefi látið það í ljósi persónulega, að það hefði að rjettu lagi átt að vera búið að byggja þessa brú fyrir löngu, og eina brúna á Eyjafjarðará. En það er enginn vafi á því, að ef nú ætti að fara að samþykkja þessa tillögu, þá myndi það rugla þeirri áætlun, sem fjárlaganefndin hefir þegar gjört, og get jeg því ekki hlynt að henni, jafnvel þótt þessi athugasemd fylgi, að fresta megi framkvæmd verksins, ef fjárhagurinn reynist örðugur.

Fjárlaganefndin hefir ekki getað fallist á að taka þessa tillögu upp, jafnvel með þessari athugasemd. Jeg mun þó láta málið hlutlaust, en tel það rjettast, ef önnur þessara brúa, sem jeg nefndi, verður samþykt til að fara upp í efri deild, að lofa þeim að fara þangað báðum.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) hafði sjerstaka ástæðu til þess að vera hvassyrtur, út af tillögu einni, af því að jeg beindist á móti því að veita styrk til að reisa hússtjórnarskóla á Akureyri. Mjer þykir þetta leitt, ekki að eins vegna vinfengis okkar, háttv. þm. Akureyringa og mín, sem jeg vona að ekki falli neitt á fyrir þetta, heldur líka vegna hins, að mjer er orðið ant um þetta húsmæðraskólamál, og hefi verið flutningsmaður að því með háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.).

Háttv. þm. Akureyringa talaði um, að þetta mál hefði ekki haft fylgi á þingi, af því að fyrirkomulagið hafi ekki líkað. Þetta stafar af ókunnugleika hans á málinu. Það var ekki þetta, sem hamlaði, heldur hitt, að þingmenn voru þá bundnir við stórmál, og líka ef til vill það, að þeir hafa, sumir hverjir, ekki haft áhuga eða vilja á að beita sjer í því. En hitt er rjett, að tvisvar hefir verið samþykt í Nd. að setja slíkan skóla á stofn á Norðurlandi og Austfjörðum.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) fór að athuga hvað hússtjórnarskóli í sveit kostaði í samanburði við það, ef hann væri á Akureyri. En fyrst og fremst gjörði hann þar úlfalda úr mýflugu, og svo vil jeg benda á það, að kostnaður við stofnun þessa skóla á Akureyri verður ekki lítill, því að þar sem safnað hefir verið undirskriftum kvenna um alt Norðurland, og svo rausnarleg fjárframlög eru boðin af þeirra hálfu, þá má búast við, að þær hafi ekkert smáræði í hyggju. Yrði slíkur skóli áreiðanlega ekki ódýrari á Akureyri en í sveit, en kæmi svo á sínum tíma algjörlega að kalla á landssjóð, eins og kvennaskólinn í Reykjavík og á Blönduósi.

Enn fremur er jeg hræddur um það, að þrátt fyrir þessar mörgu undirskriftir, muni verða almenn óánægja út af skólanum, ef hann verður ekki í sveit. Jeg veit beinlínis um það, að undirskriftirnar eru bygðar á því, að konur hjeldu, að miklu erfiðara yrði að fá hússtjórnarskóla á Norðurlandi í sveit en í kaupstað.

Jeg hefi átt tal við nokkrar konur, er skrifuðu undir, um þetta mál, og er því kunnugt um, að þetta voru ástæðurnar fyrir mörgum undirskriftum, enda þótt þær vildu skólann miklu heldur í sveit. Auk þess hefi jeg átt tal við þær konur, er best hafa kynt sjer fyrirkomulag á hússtjórnarskólum, og búið sig undir kenslu í slíkum skólum. Þær hafa allar verið eindregið með því, að þeir væri betur komnir í sveit.

Loks mintist háttv. þm. Akureyringa á ágreining, sem var fyrir nokkrum árum á milli Eyfirðinga, eða eiginlega Akureyringa og Þingeyinga, út af þessu máli. En jeg skal svara því, að einstrengingsskapurinn var ekki af Þingeyinga hálfu.

Þá greindi á um það síðast, hvort skólinn ætti að vera svo nálægt Akurureyri, að hægt væri að ganga í hann úr bænum, eða svo fjærri bænum, að nemendur úr bænum gætu ekki gengið í hann daglega. Við Þingeyingar vildum, að skólinn yrði heimavistarskóli, og virtist okkur, að hann myndi ekki illa settur á gjarna, svo nærri Akureyri mátti hann vera okkar vegna. Og er salan á gjarna kom hjer seinna fram á þingi, þá var jeg á móti henni, meðal annars af því, að sú jörð væri til fyrir húsmæðraskóla, ef til kæmi. Þetta sýnir best, hvernig þessum ágreiningi var farið.

Það má vera, að jeg hafi einhverju ósvarað, en jeg læt hjer staðar numið.