23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Guðmundur Hannesson :

Jeg býst ekki við, að það hafi mikla þýðingu að halda langa ræðu, enda skal jeg ekki gjöra það. En þó get jeg ekki látið hjá líða að minnast lítið eitt á Blönduóssbryggjuna.

Eins og flestir vita, er Blönduósshöfnin ein af hættulegustu höfnum hjer við land, er skip koma á, en fyrir ofan liggja fjölbygð hjeruð, er hafa mikla verslun, en annarsstaðar er ekki höfn til afnota. Þarna verða menn að fara í land og flytja vörur úr skipi og í, hvernig sem veður er.

Lengi sáu menn engin ráð til að bæta úr þeim kostnaðarauka og þeirri lífshættu, er þessu var samfara, en fyrir allmörgum árum var þó ráðist í gjöra bryggju alllangan veg frá kaupstaðnum, líklega 1 kílómeter þaðan. Bryggja þessi liggur fram undan háum bakka, er skafla leggur í á vetrum. Er sá erfiðleiki, sem af þessu stafar, svo mikill á vetrum, að oft er nálega ómögulegt að nota bryggjuna. Ofan bryggjunnar er nálega ekkert undirlendi, og gengur þar sjór á land í brimum, svo vörur, sem í land koma, verða tæpast eða alls ekki varðar stórskemdum. Þá eru og bátar í mikilli hættu.

Nú var bryggjan gjörð á þeim tímum, er menn þektu ekki sem skyldi, hvernig slíku mannvirki skyldi haga. Það voru gjörðir stórir timburkassar, bundnir saman með trjeslám og járni og fyltir með grjóti. Slíkar bryggjur geta tæpast orðið til frambúðar, því járnið hlýtur að ryðga sundur með tímanum, og er þá við búið, að kassarnir losni sundur. Þó hafa þessir stóru kassar staðist til þessa. En nú er það spurningin, hversu lengi gjöra þeir það? En það er engum vafa bundið, að sífelt er við búið að þeir bili.

Við nýja rannsókn, er verkfræðingur Geir Zoëga hefir gjört, kom það upp úr kafinu, að fært væri að gjöra bryggju þar sem kaupstaðurinn er. Þar er nóg landrými fyrir ofan, svo að hægt er að bjarga vörum undan sjó og skemdum, og skamt yrði þá einnig að flytja þær, því að þar eru allar verslanirnar, nema »Kaupfjelag Húnvetninga«, er stendur við gömlu bryggjuna. Þar sem ætlast er til að bryggjan verði gjörð, er klöpp í botninum og örugg undirstaða. Þegar gamla bryggjan var bygð, örvæntu allir um, að mögulegt væri að byggja bryggju hjá kaupstaðnum, svo mjer fanst, satt að segja, grunsamt, að þetta fyrirtæki væri svo vel hugað sem skyldi. Jeg náði því tali af verkfræðingnum, sem hefir gjört áætlunina. Jeg spurði hann fyrst, hvort bryggjan gæti orðið til frambúðar, gæti varist sandinum og staðið gegn hafís og brimi. Taldi hann engan vafa á því. Síðan hefi jeg skrifað honum brjef og lagt fyrir hann fyrirspurnir um það, hvort bryggjan gæti staðist brim, sandaðburð og hafís, til þess að geta sýnt fjárlaganefnd þetta svart á hvítu. Hann svaraði mjer í brjefi, að bryggjan muni algjörlega trygg fyrir öllu þessu, ef hún verði gjörð eins og hann hefir lagt til.

Þá er annað atriði, er þingmenn verða að taka til greina, og það er, hversu mikið þeir menn vilja leggja á sig, er fyrirtækið kemur að gagni. Þeir bjóðast til að leggja fram 2/3 hluta kostnaðarins, ef. til framkvæmda kemur. Með þessu er fengin trygging fyrir því, að fyrirtækið sje þarft og trú á því, að bryggjan verði trygg og til frambúðar. Það er enginn vafi á því, að lítið kauptún gjörði þetta ekki, nema um ríka nauðsyn væri að ræða og menn gjörðu sjer vissa von um, að bryggjan kæmi að fullum notum.

Þá er annað mál, er jeg vildi minnast á. Það er Langadalsvegurinn; gjöri jeg það mest af því, að nú hefir því verið hreyft, að stefna póstleiðarinnar væri ekki ákveðin til fulls, og mætti svo fara, að hún yrði ekki lögð um Langadal.

Það hefir mikla þýðingu fyrir Skagafjörð, ef vegurinn yrði lagður ytri leiðina og yfir Kolugafjall, en leið þessi er fjærri því að vera álitleg fyrir póstveg, miklu óálitlegri en fram Langadal og yfir Vatnsskarð. Annars er vegur yfir Kolugafjall erfiður og ógreiður að vetrarlagi; jeg hefi farið hann um það leyti árs, og er það því kunnugt. Líka er það mikill krókur fyrir póst að fara þá leið, í samanburði við að fara fram Langadal, ef Öxnadalsheiði er farin, eins og nú á sjer stað. En þó svo ólíklega tækist til, að póstleið yrði lögð yfir Kolugafjall, er enginn vafi á því, að eigi að síður verður vegur lagður fram Langadal. Fjölbygðar sveitir hafa not af þessum vegi, eigi að eins Langidalur,heldur einnig Svartárdalur og Blöndudalur, sem eflaust nota þennan veg til aðdrátta. Það er því ekki vegna póstleiðarinnar einnar, að jeg er þessu fylgjandi, en jeg sje það í hendi minni, að þessi vegur verður lagður, hvort sem er. Jeg býst líka við, að meðan hann verður ekki endurbættur, hljóti viðhaldakostnaðurinn. að verða landssjóði þungur baggi.

Um aðrar brtt. ætla jeg ekki að tala. En jeg vil minnast ögn á styrkinn til skálda og listamanna.

Mjer fellur það illa, að ekki var tekin til greina ósk Guðmundar Kamban, um að fá lán, til þess að geta klofið að byrja á ritstörfum í Vesturheimi. Í þessu máli . verða ekki færð önnur rök en persónulegt álit, og hvað mig snertir, þá er jeg ekki í neinum efa um, að því fje hefði verið vel varið, sem til hans hefði gengið. Þó að hann hefði fengið 10,000 kr. í eitt skifti fyrir öll, þá sjá allir, að hjer er ekki um gífurlega upphæð að ræða, í samanburði við skáldastyrk æfilangt. Líka væri það gott fyrir landið, ef hann gæti sjer orðstír í Vesturheimi, en það hefir hann þegar gjört í Danmörku. Jeg get þess til, að saga hans verði einhverntíma skrifuð, og þá verði þess getið, oss til lítils sóma, að hann hafi eitt sinn leitað til þingsins og verið neitað.

Það er eitt, sem jeg vil minnast enn á, og það er Heimilisiðnaðarfjelagið. Það var alveg rjett, sem hæstv. ráðherra sagði, að tilgangur fjelagsins væri sjálfsagt góður. En hann var í vafa um, hvort framkvæmdirnar væru allskostar heppilegar. Það getur verið, að þær sjeu minni en æskilegt væri. Jeg tel það líklegt, en vona að þær batni með tímanum. Eigi að síður er þetta gott mál, sem jeg býst við, þegar tímar líða, að verði talið stórmál, því að með þessu er í raun og veru verið að reyna að gjöra Íslendingum arðsama hina löngu vetur. Íslendingar hafa lengst af verið iðnaðarþjóð, og starfað að alla konar iðnaði mestan hluta árs, en er útlendur iðnaður tók við, þá kastaði almenningur þessu frá sjer, miklu fyrr en aðrar þjóðir. Þar þrífst enn víða mikill heimilisiðnaður, og víst er um það, að ólíku voru Þjóðverjar fastheldnari. Þeir hafa sumstaðar haldið heimilisiðnaði sínum, jafnvel þó kaupið væri afarlágt, tæpl. 1 kr. fyrir 16 stunda vinnu.

Þó er eitt bygðarlag hjer á landi, þar sem heimilisiðnaður er enn þá lifandi. Það er í Eyjafirði. Þaðan er flutt út mjög mikið af prjónlesi. Að vísu er það ófullkomið; þyrfti mikilla endurbóta. Ef þær kæmust á, ætti það ekki að vera óhugsandi, að vjer gætum unnið prjónles úr allri okkar ull.

Þegar verið er að ræða um að styrkja heimilisiðnað, finst mjer það liggja næst, að styrkja Eyjafjörð framar öllum öðrum. Þar hefir verið stofnað heimilisiðnaðarfjelag í þeim tilgangi, að endurbæta og auka gamla iðnaðinn.

Jeg greiði atkvæði með hækkun til heimilisiðnaðar, en við 3. umræðu hugsa jeg mjer að koma fram með breytingartillögu um, að þetta fjelag í Eyjafirði njóti styrks af þessum 1000 krónum, því að jeg held, að þar sje miklu betri jarðvegur fyrir hann en nokkru sinni hjer í Reykjavík.