23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Þorleifur Jónsson :

Jeg á hjer brtt. á þgskj. 405. Þessi brtt. fer fram á að veitt verði til læknisbústaðar í Hornafirði 6 þús. kr. lán.

Málinu er þannig varið, að fyrir ári síðan lá við borð þar austur frá, að hjeraðslæknirinn yrði að hröklast burtu, vegna þess, að hvergi var hægt að fá handa honum viðunandi húsnæði. Hann gat hvergi fengið leigt, og sakir stóðu svo, að enginn fastur bústaður var til handa lækni, hvorki upp til sveita nje í verslunarstaðnum.

Eins og kunnugt er, er ekki auðhlaupið að því að fá lækna í afskekt hjeruð, ef þeir mega búast við því, þá og þegar, að þurfa að hröklast burtu vegna húsnæðisleysis. Þess vegna tóku menn það ráð, að koma upp læknisbústað í Hornafjarðarverslunarstað. Það var keypt nýlegt hús, dubbað upp og gjört að besta bústað fyrir lækni. Það kostaði fullgjört sýsluna um 6 þús. kr., og er það í sjálfu sjer töluvert þung byrði fyrir ekki fjölmennara sýslufjelag. Húsið var fullgjört í haust sem leið og þá flutti læknirinn í það.

Þegar ráðist var í þetta fyrirtæki, var það meðfram haft fyrir augum, að sýslan mundi geta fengið lán úr viðlagasjóði með þolanlegum borgunarskilmálum, og á fundi sýslunefndarinnar í vor var samþykt að skora á þingið, að veita 6 þús. kr. lán til læknisbústaðar sýslunnar.

Jeg hefi skrifað fjárlaganefndinni um þetta, og hún hefir tekið málaleitunina að hálfu leyti til greina, með því að leggja til að sýslunni væri veitt 3 þús. kr. lán í þessu skyni. Þetta er í sjálfu sjer betra en ekki, en það er ekki nægileg hjálp. Sýslan verður þá að leita lánstrausts hjá öðrum, og ef hún getur einhversstaðar kríað út lán, þá verður það með lakari kjörum, styttra lánsfresti og hærri rentum en viðlagasjóðslán.

Þó að fjárlaganefndin hafi ekki getað fallist á að veita alt, sem um var beðið, þá hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. um, að svo skuli gjört. Ef fje verður ekki fyrir hendi, þá nær það ekki lengra.

Jeg sje ekki hvaða ástæða er til að gjöra mun á Austur-Skaftafellssýslu og og Rangárvallasýslu, sem á þinginu 1913 var veitt 14 þús. kr. lán til læknisbústaðar í 28 ár með 6% í vexti og afborganir. Rangæingar komust þar að mjög góðum kjörum, og þó að okkur væri veitt lán til 20 ára með 5% vöxtum, þá eru það lakari kjör, sem við yrðum að sæta. Með tilliti til þessa álít jeg þingið ekki sjálfu sjer samkvæmt, ef það neitar þessari sýslu um lán til embættisbústaðar, þar sem það fyrir tveimur árum veitti annarri sýslu í sama skyni alt það lán, sem hún bað um. Það er auðvitað, að Austur-Skaftafellssýsla er ekki rík, en jeg vona þó að ekki sje mikil hætta að lána henni þessa upphæð. Það fer illa, ef hún verður ekki borgunarmaður fyrir 6 þús. kr.

Jeg er hræddur um að fjárlaganefndin hafi tekið þetta dálítið skakt. Að minsta kosti virtist mjer kenna misskilnings í ræðu háttv. framsm. (P. J.). Mjer heyrðist hann ganga út frá því, að umsóknin væri stíluð svo, að farið væri fram á, að lán væri veitt lækninum sjálfum, til að koma sjer upp húsi. Þenna misskilning vildi jeg leiðrjetta. Hjer er það sýslufjelagið sjálft, sem hefir komið upp framtíðarembættisbústað fyrir hjeraðslækni, alveg eins og á Stórólfshvoli og annarstaðar, þar sem komið hefir verið upp föstum læknisbústöðum.

Þar sem hjer er að eins um lánsheimild að ræða, sem ekki verður um að tala, nema nægilegt fje sje til í viðlagasjóði, þá vænti jeg að deildin sýni þá sanngirni að veita hana, með tilliti til þess, að áður hefir verið veitt lán til sams konar fyrirtækja. Það er einungis lán, sem hjer er farið fram á, en hvorki gjöf nje styrkur.

Jeg er svo heppinn að eiga ekki fleiri brtt. við þann kafla fjárlaganna, sem nú er til umræðu. En það er önnur tillaga nefndarinnar, sem jeg vildi minnast á með nokkrum orðum, því að hún kemur mjer við og mínu kjördæmi. Hún er um styrk til lendingarbóta við Ingólfshöfða í öræfum. Jeg kann nefndinni þakkir fyrir að hafa tekið þetta upp, samkvæmt ósk minni. Hún hefir sýnt með því mikla sanngirni, og jeg hefi sýnt henni þakklæti mitt með því að koma ekki fram með fleiri brtt., þrátt fyrir ýmsar fjárbeiðnir frá Austur Skaftfellingum, til endurbóta á þjóðvegum o. fl. Jeg hefi ekki viljað koma fram með till. til hækkunar, vegna þess, að jeg er sama sinnis sem fjárlaganefndin og margir fleiri sparsemdarmenn, að mjög æskilegt væri, að fjárlögin gætu litið sem best út frá þinginu.

Viðvíkjandi Ingólfshöfðamálinu vil jeg leyfa mjer að gefa nokkrar upplýsingar, þar sem mörgum háttv. deildarmönnum mun vera ókunnugt um, hvernig því er varið.

Eins og kunnugt er, er alveg hafnlaust á strandlengjunni frá Vík í Mýrdal og austur að Hornafirði. Og eini staðurinn á þeirri leið, sem líkindi eru til að umbæta megi svo, að þar mætti lenda, er einmitt Ingólfshöfði.

Það er nokkuð síðan að kunnugir menn álitu, að þar mætti gjöra sæmilega bátalendingu. Þar er vík á einum stað í bergið, og í þeirri vík er sagt gott afdrep í flestum áttum. En sá galli er á víkinni, að í henni er stórgrýtt urð, svo að ekki er lendandi bátum þar þess vegna, og eins er ófær vegur um klettana niður að víkinni. Aðalverkið, sem gjöra þarf, er því að ryðja vörina og gjöra veg um klettana niður að henni.

Fyrir nokkrum árum síðan var rannsókn gjörð á þessum stað af vegaverk stjóra Árna Zakaríassyni. Hann hafði verið fenginn til athuga þetta fyrirhugaða mannvirki. Jeg ímynda mjer, að töluvert megi leggja upp úr hans áliti, því að hann er hagsýnn maður og þaulvanur að fást við þess háttar störf. Hann taldi verkið framkvæmanlegt, og áætlaði að það mundi kosta 5 eða 6 þúsund kr., jeg man ekki hvort heldur.

Nú í sumar hefir þessi staður verið skoðaður aftur af Birni Eymundssyni hafnsögumanni í Hornafirði, sem er ágætur sjómaður, mesti völundur og verkhygginn með afbrigðum, og hefir við margvísleg störf fengist, bæði hjer á landi og í Vesturheimi. Björn rannsakaði þetta fyrirhugaða mannvirki að tilhlutun Jóns Þorlákssonar landsverkfræðings. Hann fór þangað snemma í vor og athugaði vegarstæðið, en þá var svo ilt í sjó, að ekki var hægt að ýta frá söndum, og þess vegna var ekki hægt að mæla dýpið nje rannsaka víkina nákvæmlega. Hann fór þangað aftur síðla í næstliðnum mánuði, en jeg veit ekki til að skýrsla um þá för sje komin enn. Jeg veit því ekki, hvernig hann lítur á málið nú, eftir að hann hefir kynt sjer dýpi o. fl.

En ef menn vilja ekki trúa leikmönnum í þessu efni, þá er hægurinn hjá að fá verkfræðing til að rannsaka þetta enn betur en gjört hefir verið. Jeg veit ekki betur en að í næsta mánuði fari Guðmundur Hlíðdal verkfræðingur og aðstoðarmaður vitaverkfræðings austur, til þess að setja upp Ingólfshöfðavitann. Er þá gott tækifæri að fá hann til að líta á þetta.

Jeg held, að engin hætta sje að samþykkja þessa fjárhæð, því að ef stjórnin fær vitneskju um, eftir allar rannsóknir, að það sje ekki til annars en að fleygja peningum í sjóinn, að leggja út í fyrirtækið, þá verður það heldur ekki gjört og fjenu ekki eytt.

Sjálfur er jeg því miður ekki kunnugur á þessum stað, því að jeg hefi ekki komið þangað. En öræfingar, sem þar eru þaulkunnugir, hafa geysitrú á að þar megi gjöra góða bátalendingu, og vilja leggja fram fje og vinnu, til þess að því gæti orðið framgengt. Ef landssjóður legði 5 þús. kr. til fyrirtækisins, þá mundu hjeraðsbúar leggja mikið á móti, í vinnu að minsta kosti.

Fiskur mun vera mikill fram undan lendingarstaðnum flesta tíma árs. Að minsta kosti er það víst, að vetur, semar, vor og haust er urmull af innlendum og útlendum togurum á þeim slóðum, og bendir það til þess, að þar muni vera afar aflasælt. Hina vegar væru það mikil þægindi fyrir hina afskektu Öræfinga, ef hægt væri að gjöra svo við lendinguna, að hægt væri að skipa þar upp vörum. Því að í góðu veðri mundu strandferðaskipin geta lagst þar skamt frá landi.

Jeg hygg að í þessari svo kallaðri Höfðavík sje ágætt afdrep í óveðrum. Bendir það til þess, að á síðastliðnu vori var róið í öræfum og ýtt frá söndum í ágætu sjóveðri. En meðan menn voru úti versnaði svo í sjóinn, að ekki var unt að lenda við sandana. Tóku menn þá það ráð, að leita til víkurinnar í Höfðanum, og björguðust þannig mennirnir, en báturinn brotnaði, vegna þess, hve urðin var stórgrýtt. Á þessu má sjá, að þó að ófært sje við sandana, getur verið vel fært að leita lands í víkinni, ef hún væri rudd.

Þar sem fjárlaganefndin hefir verið svo væn, að taka þessa tillögu upp, þá vona jeg að deildin verði svo náðug að samþykkja hana. Hjer er ekki um þá upphæð að ræða, að horfandi sje í að veita hana, ef hún gæti orðið til þeirra bóta, sem kunnugir menn hyggja.

Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að tala mikið um þann kafla fjárlaganna., sem fyrir liggur. Menn eru orðnir leiðir á löngum ræðum, sem vonlegt er. — Jeg vil að eins drepa á það, að það sem mjer fjell verst af tillögum nefndarinnar, var það, að hún skyldi leggja til, að feldur væri niður styrkurinn til búnaðarfjelaganna. Jeg býst við, að ýmsum nýlega stofnuðum og fámennum búnaðarfjelögum bregði í brún, þeg ar búið er að fella niður þann styrk. Þó að hann sje raunar ekki mikill, þá er hann áreiðanlega til uppörfunar fyrir menn til að ganga í fjelögin og gjöra jarðarbætur. Og þó nokkuð getur munað um hann, ef svo er farið með hann, að hann er látinn allur ganga í sjóð fjelaganna, en ekki bútaður sundur milli manna. Með því móti verða þau betur en ella fær um að útvega sjer ný og betri jarðyrkjuverkfæri, plóga, herfi og ýms hestaverkfæri, og ljetta undir með fjelagsmönnum að borga aðfengna vinnu til jarðabóta.

Jeg veit að nefndinni gengur sparnaður til, og það vil jeg ekki lasta. En þessi ráðstöfun kemur áreiðanlega eins og; skúr úr heiðríkju yfir búnaðarfjelögin, og því er jeg hræddur um að kurr verði í mönnum út af henni.

Það er sagt, að nú ári svo vel í sveitum landsins, að óþarfi sje að veita mönnum uppörfunarstyrk. Það má vel til sanns vegar færast. En líkt mætti segja um fjárveitingar til annara atvinnugreina t. d. til sjávarútvegarins. Það árar engu siður fyrir hann, og því þyrfti hann heldur ekki hjálpar við.

Sem sagt, jeg er á móti því, að styrkurinn til búnaðarfjelaganna sje afnuminn, vegna þess, að jeg álít að landið hafi haft og geti haft framvegis mikið gott af honum, og því sje varhugavert, að kippa honum burtu. Jeg tel sjálfsagt, að fylgja heldur tillögu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) um að fella styrkinn ekki niður nema annað árið. Það gæti þó fremur verið álitamál að styrkurinn væri látinn falla niður fyrra árið, með tilliti til þessa góðæris, fyrir landbændur, sem alt af er verið að tala um. En enginn veitt hvað það stendur lengi, og vel getur farið svo, að hallæri verði hitt árið. Góðærið, sem nú er, er að eins að þakka verðhækkun í svip, sem enginn veit hvað stendur lengi. Verðið getur lækkað bráðlega aftur, og þá ef til vill niður fyrir allar hellur. Jeg álít það algjört neyðarúrræði að svifta búnaðarfjelögin styrknum, og lengra get jeg alls ekki gengið, en að hann falli burtu að eins annað árið, og mun því fylgja brtt. 1. þm. Árn. (S. S.).