23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Guðmundur Eggerz:

Jeg get sagt með sönnu að kjördæmi mitt, Suður-Múlasýsla, greiði ekki minstar tekjur til landssjóðsins, en þó er það svo, að jeg á engar útgjaldatillögur til að berjast fyrir.

Breytingatillögur mínar eru þó tvær. Fyrri brtt. er við 16. gr. 4. Hún er um að fella burtu 18. þús. kr. fjárveitingu til undirbúnings og rannsóknar járnbrautarstæðis frá Reykjavík og austur að Þjórsá.

Hvers vegna er jeg á móti þessum lið? Þegar á árinu 1913, þegar frumv. um járnbrautarlagningu kom fram hjer í deildinni, varð jeg hræddur — jeg varð myrkfælinn við frumvarpið. Jeg fullyrði, að það sje rjett staðhæfing hjá mjer, þegar jeg segi; að flestir fyrir utan Reykjavík og nærsveitirnar hafi verið myrkfælnir og hræddir við frumvarpið, og það af ýmsum ástæðum.

Jeg er. andvígur þessum lið nú, fyrir þá sök, að jeg tel hann annaðhvort með öllu óþarfan, eða jeg tel hann hættulegan.

Ef tilætlunin er sú, að útlendingar leiti til landsins, og biðji um leyfi til að leggja þessa járnbraut, fyrir svo og svo margar miljón króna, þá segi jeg, að þessi 18. þús. kr. fjárveiting sje óþörf, því að þeir mundu alls ekki taka þær rannsóknir á járnbrautarsvæðinu gildar, sem við hefðum látið gjöra hjer heima fyrir. Þegar um miljónafyrirtæki er að ræða, þá mundu þeir að sjálfsögðu vilja láta sína eigin verkfræðinga rannsaka járnbrautarsvæðið.

Jeg tel fjárveitinguna hættulega, ef hún miðar til þess, að greiða götu frv., sem lá fyrir þinginu 1913. Jeg ætla ekki sem stendur, að ganga langt inn á það frumv. Jeg vil rjett að eins minna á, að samkvæmt því átti að veita einkaleyfi til járnbrautalagninga í 75 ár, og átti landssjóður að ábyrgjast 5½% af því fje, sem varið yrði til járnbrautalagningarinnar, fyrir utan viðhald og reksturskostnað, og var sagt, að vel gæti svo farið, að fyrirtækið kæmi til að kosta 5–6 miljónir króna. Þetta taldi þingið 1913 hættulegt fyrirtækið fyrir land og þjóð.

Jeg veit það vel, að svo var tilskilið, að meiri hluti stjórnenda skyldi vera búsettir Íslendingar, en allir vita það, að Íslendingar voru ekki færir um að leggja út í slíkt fyrirtæki upp á eigin spýtur, enda voru það líka danskir auðmenn, sem ætluðu að veita þessum miljónum inn í landið. Og það verð jeg að taka fram, að síst af öllu vildi jeg fá miljóna áveitu á landið úr þeirri átt. (Pjetur Jónsson: Þetta vita allir). Það er undarlegt af háttv. framsögum. (P. J.), að vera alt af að grípa fram í fyrir þingmönnum.. Heldur hann, að hann hafi einkaleyfi til að tala hjer, þótt honum virðist ef til vill ræður sínar skemtilegar? Hann verður að sætta sig við það, að allir eru ekki á sömu skoðun og hann. Það má vel vera, að hann kæmi akandi á járnbraut með pípuhatt, til þess að fagna þessum dönsku auðkýfingum .

Annars vildi jeg beina þeirri fyrirspurn til þeirra manna, er láta sjer ant um þessa breytingartill., hvort meiningin sje sú, að rannsóknum loknum, að fitja upp á einhverju svipuðu og 1913. Jeg vænti þess, að fá ákveðið svar upp á þessa fyrirspurn mína. Sje meiningin sú, að fara þá að leita til Dana með fyrirtækið, þá álít jeg, að það geti orðið oss Íslendingum stórhættulegt. Annars vil jeg geta þess, að mjer kemur það harla kynlega fyrir sjónir, að vera nú að fara fram á þessa fjárveitingu. 1907 voru veittar kr. 16500 í þessu skyni, og á þinginu 1911 kr. 3000 í sama tilgangi. Rannsókn hefir verið gjörð, bæði af dönsku landmælingamönnunum og verkfræðingunum Krabbe og Jóni Þorlákasyni, og loks Þórarni Kristjánssyni. Mjer virðist það því undarlegt, ef nú þarf að veita kr. 18000 í viðbót, og það einkanlega með tilliti til þess, að á þinginu 1913 var því haldið fram, að málið væri fullkomlega rannsakað út í æsar, og óhætt væri að byggja á áætlun Jóns Þorlákssonar.

Þá kem jeg að annari breytingartill. minni við 29. lið 16. gr., um að 20 þús. kr. fjárveitingin til brimbrjótsins í Bolungarvík falli niður. Ekki er svo að skilja, að jeg sje andstæður þessu fyrirtæki í sjálfu sjer. Fyrir nokkrum árum var svo áætlað, að þetta fyrirtæki mundi kosta 85 þús. kr., en nú er mjer sagt, að samkvæmt nýjustu áætlun kæmi það til að kosta 225 þús. kr. Þar sem upphæðin er svona há, og tímarnir nú eins og allir vita, þá tel jeg það hæpið, að það sje rjett leið, sem hæstv. stjórn og nefnd vill fara í þessu máli. Jeg held það miklu rjettara, ef landið á að kosta þetta verk, að það væri þá unnið alt í einu og tekið lán til þess. Að öðru leyti er jeg sjálfu málinu hlyntur og breytingartill. mín er að eins framkomin vegna þess, hvernig fjárhagsástandið er nú.

Þetta eru þær einu breytingartill., sem jeg hefi leyft mjer að bera fram við fjárlögin; en jeg verð lítið eitt að minnast á aðrar framkomnar brtt.

Á þgskj. 338, 97. lið á atkvæðaskránni, er tillaga um 10 þús. kr. fjárveitingu, til þess að reisa hús yfir listaverk Einars Jónssonar. Jeg get ekki ljeð þessari tillögu atkvæði mitt. Jeg man eftir því, að um þetta mál var rætt á seinasta þingi, og aðalformælandinn, háttv. þm. Dal. (B. J.), gat þess, að nægja mundi, til þess að geyma listaverkin í 5–600 króna járnskúr. Eins ætti að mega notast við það 1915. Að minsta kosti er það talsvert stórt stökk úr 600 kr. upp í 10 þús. kr.

Háttv. þm. Dalamanna fór fögrum orðum um þessi listaverk; hann virti þau ekki hátt, eitthvað 120 þús. kr. Ætli 600 kr. áætlun hans í fyrra hafi ekki verið eitthvað svipuð þessari áætlun. Jeg veit það vel, að þessi maður á alt gott skilið, en hann getur átt það, þótt við förum ekki í þessu árferði að byggja 10 þús. kr. hús yfir verk hana.

Einhverjir kunna að segja, að jeg sje á móti þessari brtt., vegna þess, að jeg gjöri lítið úr verkum þessa manns. Látum þá segja svo, en jeg get ekki fengið af mjer að greiða atkvæði með þessu, þegar jeg veit, að í mínu eigin kjördæmi eru svo mörg fyrirtæki, miklu þarflegri en þetta, sem verða samt að bíða.

Það má ekki minna vera en jeg drepi á það, hvað það er helst, sem mitt kjördæmi þarfnast, og það afarfljótt. Það eru vitar, bæði á Norðfirði, Seley, Kambsnesi og Papey. (Eggert Pálsson: Háttv. þingm, greiddi í gær atkvæði með vita í Suður-Múlasýslu). Jeg greiddi atkvæði með fjárveitingu til vitabyggingar, vegna sjómannastjettarinnar, en ekki af hreppapólitík. Það fer líkt fyrir háttv. þm. (E. P.), sem á heima í sveit, og lundunum, sem líka eru kallaðir prófastar, þeir missa, greyin, flugið og ruglast með öllu, þegar þeir hrekjast á land upp, svo langi, að þeir sjá ekki sjóinn. Jeg get frætt háttv. þm. (E. P.) um það, að sá viti, sem jeg greiddi atkvæði með, átti ekki að vera í Suður-Múlasýslu, heldur Snæfellsnessýslu. Þar sem jeg flyt ekki fram önnur eins nauðsynjamál fyrir mitt kjördæmi — og sumir vitarnir mundu ekki kosta 10 þús. kr. — þá get jeg ekki greitt atkvæði með þessari tillögu, því að jeg veit það, að enginn mun drukna af því, að þetta hús verði ekki reist, en jafnvel hinn minsti dráttur á vitabyggingum getur orðið fjölda manna að fjörlesti.

Fyrst jeg mintist á vitana, þá verð jeg að víkja nokkrum orðum að ræðu háttv. 1. þm. Húnv. (G. H ). Hann vítti mig fyrir það, að jeg greiddi í gær atkvæði með Malarrifsvitanum, og þar með aukningu á tekjuhallanum. En honum láðist að geta þess jafnframt, að þann halla vildi jeg jafna upp með því, að fella burtu 14 þús. kr. fjárveitingu til Langadalsvegarins. Þær upphæðir eru því nær jafnháar.

Þá vítti sami háttv. þm. (G. H.) mig fyrir að greiða atkvæði með Jökulsárbrúnni. En það var á engan hátt vítavert. Jeg man ekki betur, en samþykt hafi verið á þinginn 1911, lög um þessa brúargjörð, og jafnframt verður háttv. þm. (G. H.) að gæta þess, að það er ekki hægt að segja, að þessi fjárveiting auki hinn sanna halla í fjárlögunum, því að hann er bundinn því skilyrði, að nóg fje sje fyrir hendi. Að öðrum kosti verður hún ekki gjörð. Háttv. þingmaður getur því ekki vítt mig fyrir það, að jeg reyni að auka tekjuhallann. Þar eiga aðrir þingmenn skyldara mál. Það eru þeir, sem alt af eru að reyna að reita úr landssjóðnum í sín eigin kjördæmi, er skapa tekjuhallann, og kem jeg þá aftur að háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.).

Í stjórnarfrv. eru hans kjördæmi ætlaðar 54 þús. kr., 40 þús. til Húnvetningabrautar og 14 þús. kr. til Langadalavegar. Maður skyldi því ætla, að þessi háttv. þm. (G. H.), sem alt af er að tala um sparnað, væri ánægður. En svo er ekki. Hann vill ekki hjálpa sjómannastjettinni; hann vill ekki vera með því að brúa eitt hið ægilegasta vatnsfall á landinu, sem hefir orðið mönnum tugum saman að aldurtila, en hann vill að veittar sjeu 1200 kr. til þess að brúa lækjarsprænu í hana eigin kjördæmi. Enn fremur fer hann fram á 7500 kr. fjárveitingu til bryggjugjörðar á Blönduósi. Nú er þar bryggja að norðanverðu, sem veittur hefir verið ríflegur styrkur til og þar hefir kaupfjelagið, sem er stærsta verslunin í hjeraðinu, stöðvar sínar. Bryggja að sunnanverðu kæmi því að engum notum, og jafnframt hefir því alt af verið haldið fram, að ómögulegt væri að gjöra bryggju þar. Jeg fæ ekki skilið hvers vegna á að fara að veita fje til þess, að hafa tvær bryggjur á þessum stað, sjerstaklega þar sem þær hafa reynst svo illa.

Þá kem jeg að 108. lið á atkvæðaskránni, sem fer fram á 1000 kr. fjárveitingu hvort ár til Stórstúkunnar. Þessi fjárveiting stóð ekki í frv. stjórnar, og mjer er ekki vel ljóst hvers vegna nefndin hefir tekið hana upp. Í nefndarálitinu er raunar sagt, að tilgangurinn sje sá, að tryggja það með öllu »heiðarlegu móti«, að bannlögin verði ekki afnumin, eða eitthvað á þá lund. Jeg hygg nú ekki, að yfir vofandi hætta sje á því. En eitthvað hefir Stórstúkan sjálfsagt unnið sjer til ágætis; fyrst nefndin hefir hlaupið til að koma með þessa brtt. Og hvað er það þá, sem hún hefir gjört? Hún hefir komið hjer á bannlögunum, sem jeg efa að þjóðinni sjeu til mikils sóma. En jeg get sagt annað með vissu, og það er það, að með því hefir hún dregið úr bindindishreyfingunni, sem var svo vel á veg komin áður en lög þessi öðluðust gildi, og gjört landinu með því stórtjón. Ef til vill er það meiningin, að stúkan noti þetta fje til þess, að verðlauna forverði sína fyrir hógværð og kurteislega framkomu, sem við sáum gott dæmi upp á í háttv. Ed. fyrir skömmu. Eða kann ske eigi að verðlauna flutningsmenn frv. þessa, er nú er nýkomið hingað til deildarinnar. Þegar Reglan er orðin svo, að hún ætlar að meina læknum að nota þau lyf, er þeir vilja, þá álít jeg síst ástæðu til þess, að verðlauna hana.

Þá hefir nefndin lagt til, að fella burtu lítilfjörlega fjárveitingu — 15 kr. fyrir örkina — til þess að gefa út landsyfirrjettardóma. Jeg skil ekki hvernig hv. nefnd getur dottið annað eins í hug. Það er áreiðanlegt, að þetta dómasafn er bráðnauðsynlegt, ekki eingöngu lögfræðingum, heldur öðrum mönnum, til að hafa við höndina. Slík söfn ættu að fylgja hverju embætti, og jafnframt ætti að vera til registur yfir gildandi lög í landinu. Slíkt registur er nauðsynlegt öllum mönnum. Nú verða menn að fara í danska lagasafnið, ef þeir vilja finna eitthvað.

Þá á jeg að eina eftir einn lið. Það er 6000 kr. fjárveitingin til dr. Guðmundar Finnbogasonar. Jeg er búinn að tala nokkuð um þá fjárveitingu áður og þykist vita hver úrslitin muni verða, eftir því sem fór um rökstuddu dagskrána. Þessi samþykt er afareinkennileg. Jeg veit ekki til þess, að nokkur af þeim mönnum, er atkvæði greiddu með dagskránni, hafi bent á það, hvernig haga ætti þessu skýjaverki. Annars ætti það að vera venja, þegar um svona stóra veitingar er að ræða, að einhver væri látinn hafa hönd í bagga með því, hvort og hvernig verkið yrði unnið. Enn fremur verð jeg að telja það hinn versta ósið, hve margar fjárveitingar eru bundnar við nöfn einstakra manna. Þessi og mörg önnur störf ætti stjórnin að minni meiningu að veita. Þessu fje væri betur varið til vegarins milli Borgarness og Stykkishólms, sem feldur hefir verið hjer í deildinni. Og jeg er alveg viss um það, að Snæfellingar hefðu heldur kosið að sjá framan í þenna vegarspotta, en þenna nýja fimbul-búfræðing eða heimspeking, eða hvað hann nú heitir. Jeg vil ljúka ræðu minni með því að segja, að þessar 6000 kr. eru sá mesti óþarfi, óviturlegasti og versti bitlingur, sem þingið hefir nokkru sinni veitt.