23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Skúli Thoroddsen:

Út af ræðu háttv. þm. Dal. (B. J.) í dag, þar sem hann mintist á skáldastyrkina, og á þá tilhögun, sem nú er farið fram á, þ. e. að veita stjórninni ákveðna upphæð, til þess að úthluta meðal skálda og listamanna, í stað þess, að láta þingið, eins og nú á sjer stað, ákveða upphæðirnar til hvers einstaks, skal jeg geta þess, að jeg var á móti þessari tilhögun, þegar um hana var rætt í fjárlaganefndinni.

Jeg hygg og, að gjöra yrði æ ráð fyrir því — þótt það sje leitt, að vera að metast á um verðleika einstakra manna hjer á þinginu — að þingið hafi þó yfirleitt meiri þekkingu, eða sje færara um það, að kveða á um þetta, en stjórnin er alment, og jeg býst við því, að yfirleitt mundu þessar fjárveitingar þó koma rjettlátlegar niður, ef þær væru ákveðnar af þinginu, heldur en ef stjórninni væri falið það.

Einnig ber að líta á það, að pólitísku öldurnar hjer á landi rísa stundum hátt, og það er því ómögulegt annað, en láta sjer detta það í hug, að það gæti haft óheppilegar afleiðingar, að þetta vald væri fengið stjórninni í hendur.

Skáld og listamenn, því orðið neyddir til þess, að skifta um skoðanir í pólitík, eða láta hana eigi til sín taka, vildu þeir ekki eiga það á hættu, að fá engan styrk.

Annars er það mín skoðun, að heppilegast væri, að lögð væri í sjóð einhver ákveðin upphæð, er ætluð væri skáldum, og listamönnum, til styrktar, — varið síðan æ árlega einhverjum tilteknum hluta vaxtanna til þess, sem og t. d. ákveðinni upphæð, er landssjóður veitti sjóðnum á ári hverju, meðan hann væri þess þurfandi.

En stjórn sjóðsins, og úthlutun styrksins, ætti að vera falin ákveðinni nefnd, er í sætu menn, valdir t. d.: einn af skáldunum sjálfum, annar af listamönnum öðrum, einn af Háskólanum, einn af stjórninni, einn af þinginu o. s. frv., ef fleiri væru.

Efa jeg og eigi, að þetta verði niðurstaðan, sem þingið kemst að, fyrr eða síðar.

Viðvíkjandi styrknum til búnaðarfjelaganna, skal jeg taka það fram, að jeg er þar ekki samþykkur meðnefndarmönnum mínum. Jeg álít, að styrkur þessi hafi gjört mikið gott, hafi örvað menn til framkvæmda, og að enn sje ekki kominn tími til þess, að kippa að sjer hendinni.

Satt er það að vísu, að styrkur þessi nemur ekki miklu, þegar honum er skift niður á mörg búnaðarfjelög, og sje hann þá bútaður niður, eftir tölu dagsverka, sem sífelt fara vaxandi, en á hinn bóginn verður því þó ekki neitað, að hann hefir þó eigi óvíða orðið — og verður enn — að töluverðu liði, einkum að því, er snertir kaup á jarðyrkjuáhöldum, o. fl., sem fjelögin þarfnast, og mundi því mörgum falla það illa, ef styrknum væri nú alveg kipt burtu, enda hefir málið ekki verið rætt á þingmálafundum, nje í blöðunum og mundi þess vegna koma mönnum á óvænt, og mælast þá og miður vel fyrir.

Þá sný jeg mjer að fjárveitingunni til dr. Guðmundar Finnbogasonar.

Mín skoðun er sú, að ekkert sje á móti því, að veita styrk í því skyni, er hjer um ræðir, alls einu sinni, þ. e. í eitt skifti fyrir öll. — Hitt felli jeg mig á hinn bóginn síður við, að veita styrkinn ár eftir ár, því að það bendir í þá átt, að hjer eigi að mynda fast embætti.

Ef styrkurinn væri veittur í eitt skifti fyrir öll, gæti jeg aftur á móti mjög vel felt mig við það, að upphæðin væri þá höfð nokkuru hærri, t. d. 4–5 þús. kr., og hefi jeg hugsað mjer, að í þá átt mætti þá koma að breytingartillögu við 3. umr.

Jafnframt vil jeg benda á það, að eigi starf þetta að koma að tilætluðum notum, þá þarf styrkþegi, að geta lagt í töluverðan kostnað. Hann þarf að geta haft menn í vinnu, og verður og að geta fengið menn, til að vinna svo eða svo, til þess að geta prófað þau eða þau handtök, og myndað sjer þannig fasta niðurstöðu, eða komist að ákveðinni skoðun. En til þessa þarf auðvitað nokkurt fje.

Þá sný jeg mjer að háttv. 2. þm. S.Múl. (G. E.).

Jeg er honum ekki þakklátur fyrir brtt., sem hann hefir komið fram með, og fer í þá átt, að fella alveg niður styrkinn til »brimbrjótsins« á Bolungarvík, en verð þó að líta svo á, sem tillaga hans sje fram komin af því, að hann hafi ekki átt kost á því, að afla sjer nægrar þekkingar á málinu.

Hann talaði um það, að áætlunin væri allmjög á reiki, þar sem ýmist væri gjört ráð fyrir því, að verkið mundi kosta 80 þús. kr., eða þá 225 þús. kr. En hv. þm. gætti þess þá eigi, að áætlunin hlýtur að sjálfsögðu að verða að mun mismunandi, eftir því, hversu mikið verk menn ætla að vinna.

Það er hægt, að nema staðar, þegar lagðar hafa verið 80 þús. kr. í verkið, en til þess að það komi þó að verulega góðum notum, veitir ekki af talsvert miklu á 3. hndr. þús. kr. og ef þar ætti að koma reglulega góð höfn, þá mundi ef til vill ekki veita af einni milljón króna, eða jafn vel enn meira. En að fara svo langt hefir engum enn komið til hugar; en vitanlegt er það, að því lengra, sem »brimbrjóturinn« nær, því meira gagn gjörir hann.

Á síðastliðnu sumri voru alls lagðir um 30 metrar, fyrir fje það, sem veitt var á Alþingi 1913, sem voru alls 20 þús. kr., gegn 20 þús. kr. fjárframlagi annars staðar frá. En óunnið var þá enn alls fyrir kr. 13443,93, sem unnið v erður fyrir í ár, og væntanlega hefir nú þegar verið gjört að nokkru, ef eigi öllu.

Eins og gefur að skilja, og eins og jeg gjörði mjög ítarlega grein fyrir á grein fyrir á þinginu 1913, þá er mönnum vestra það hið mesta áhugamál, að »brimbrjótnum« miði sem mest áfram.

Það, af sjóvarnargarðinum, sem þegar er upp komið, veitir og þegar skjól fyrir næstu, og næst-næstu, vör, en að því skapi, sem garðurinn lengist, að því skapi veitir hann og skjól fyrir æ fleiri og fleiri varir.

Til þess að vinna það, sem unnið var í fyrra, og unnið verður í ár, hafa verið keypt áhöld, og vjelar, fyrir um 4 þús. kr., og dylst eigi að þessi gætu nú skemst, ef eigi orðið al-ónýt, ef hætt væri við verkið, og sama er um efnisleifar, einkum timbur, o. fl., svo að mjög áríðandi er því, er á málið er litið, frá þessu sjónarmiði, að verkinu geti orðið haldið áfram árlega, svo öfluglega, sem unt er.

En hjer við bætist og, að þörfin er alt af að verða æ brýnni og brýnni, að því er »brimbrjótinn« snertir, og má í því skyni geta þess, að útvegurinn er nú og sem óðast að breytast vestra, vjelbátar að verða þar að mun stærri en verið hafa.

Sjerstaklega eru það Skutulsfirðingar (þ. e. útvegsmennirnir í Ísafjarðarkaupstað), sem farnir eru að afla sjer mun stærri báta, um og yfir 20 smálesta, í því skyni, að eiga þá hægra með, að ná í fiskinn, hvar sem hann er, en þetta geta Bolvíkingar ekki, eins og lendingunni er þar enn háttað, og verða að láta sjer nægja smábáta.

Í Bolungarvík er ákaflega brimasamt, á haustum, og vetrum, í norðan og norðaustanátt, og yfirleitt, sje hann eigi á sunnan. — En leiðin, inn Víkina, mjög hættuleg, þegar ilt er í sjó, og margir eru þeir, sem farist hafa á þeirri leið, eða þá þar í lendingu.

Þá má og enn minna á það, hve feikilega örðugt er að setja þar báta á land. Ef vírstrengur bilar, — bátarnir eru dregnir á land með spili — geta æ slysin af hlotist, síns og dæmi eru til.

Það, að flýta sem mest fyrir »brimbrjótnum«, það er því að gjöra sitt til þess, að afstýra druknunum og slysum í einni allra helstu og afla sælustu verstöð landsins.

Það, að flýta fyrir »brimbrjótnum«, mundi og verða til þess, að auka mjög framleiðsluna, og gjöra landssjóðnum fje það, sem til hans hefir verið varið, sem allra fyrst arðvænt, því að þá geta menn mun oftar róið, þ. e. þurfa ekki eins oft að liggja í landi, eins og ella mundi.

Krabbe, verkfræðingur, sam rannsakað hefir staðinn, er málinu og mjög fylgjandi; enda landinu beint gróða-fyrirtæki, ef rjett er skoðað, — borgaðist fljótt, med auknum útflutnings og að flutnings-gjöldum, en landinu, og hjeraðinu, á hinn bóginn stórtjón, ef fólk neyddist til, að flytja þaðan, og eignir manna fjellu í verði.

Stjórnin hefir einnig tekið máli þessu mjög vel, og ætlað til verksins 10 þús. kr. á ári, eina og fjárlagafrumvarpið ber með sjer, — hefir þannig mætt óskum hjeraðsbúa, er sótt höfðu að vísu um 15 þús. króna á ári, vel á miðri leið, og kann jeg henni þakkir fyrir það.

Að því er snertir undirtektir fjárlaganefndarinnar, skal það og játað, að hún hefir — frá sínu sjónarmiði — tekið málinu fremur vel, og myndi þó óefað betur, hefði meiri hluta nefndarinnar eigi brostið nægan kunnugleik í málinu.

En það má nærri geta, að menn, sem greiða mjög hátt lendingarsjóðsgjald, 2 kr. af hverjum hlut yfir veturinn og sömu upphæð af hlutnum yfir vorið, og hafa auk þess tekið á sig 20 þús. kr. lán, til þess að geta orðið fjárveitingar Alþingis 1913 aðnjótandi, þeir eiga nú ekki að eins örðugt með, heldur er þeim það og beint alveg ókleift, að taka nú þegar að sjer nýja lántöku.

Jeg vænti því svo góðs af háttv. deild, að hún aðhyllist stj.frv., og lang-kærast hefði mjer þó að sjálfsögðu verið, að veittar yrðu alls til verksins 30 þús. kr. yfir fjárhagstímabilið næsta, eina og Bolvíkingar hafa óskað, og í samræmi við það hefi jeg því farið fram á 15000 kr. fjárveitingu á ári, en skyldi sú tillaga mín þó — því miður — ekki fá byr hjer í deildinni, þá vona jeg þó, að menn láti þá upphæð standa óbreytta, sem til er tekin í frumv. stjórnarinnar, og taki ekki í sama strenginn, sem háttv. fjárlaganefnd, að heimta þar framlag á móti þvíað slíkt skilyrði yrði þá í reyndinni alveg sama, sem að synja um styrkinn.

Hjer er og um það mál að ræða, sem ekki að eins snertir aðalatvinnuveg, heldur og líf og heilsu fjölda manna, og það eigi að eins Bolvíkinga og Ísfirðinga, heldur og manna úr ýmsum öðrum hjeruðum landsins, svo sem úr Barðastrandarsýslu, úr Strandasýslu, Húnavatnssýslu, Skagafjarðarsýslu, Dalasýslu, og víðar að, því að svo margir eru þeir, og víða að, sem sjó stunda í Bolungarvík.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, — vona og helst, að háttv. framsm. (P. J.) haldi ekki fast við þá skoðun, sem ofan á varð hjá meiri hluta fjárlaganefndarinnar, skoðun, sem stafað mun hafa ekki hvað síst af því, að málið þótti ekki svo nægilega upplýst af oddvita sýslunefndarinnar í Norður-Ísafjarðarsýslu, sem æskilegt hefði verið.

Jeg vona og því fremur, að háttv. þingdeildarmenn leggi ekki mjög mikla áherslu á það, sem ofan á varð í fjárlaganefnd, sem þingið 1913 var þeirrar skoðunar, að ekki bæri að setja »brimbrjóts«-lagningunni sömu skilyrði, eða líta á hana sömu augum, sem um venjulegar bryggjugjörðir.

Í mínu kjördæmi er ómögulegt, að gjöra mönnum það skiljanlegt, að þingið geti ætlast til, að þeir eigi í raun rjettri nokkurn eyri að greiða til þessa fyrirtækis.

Þeir segja, sem er, að alt landið eigi hjer hlut að máli, og benda, sem rjett er, á það, að landssjóður fái þetta endurgreitt, vonum bráðar, með auknu útflutningsgjaldi, því að þegar verkinu sje lokið, þá muni fólk þyrpast til Bolungarvíkur hvaðanæva, og aðflutningar, og útflutningar, þá vaxa svo, að landssjóður fái þá fje sitt mjög bráðlega aftur, og þá með þeim vöxtum, og vaxta-vöxtum, er aldrei verði nein þrot á.

Það er og ólíku hægra fyrir þingið, þegar verkið er komið nokkuð áleiðis, og farið að koma að töluverðum notum, að kippa þá að sjer hendinni og segja: »Nú er verkið komið þetta langt, nú verðið þið sjálfir að taka við«.

Það eru því tilmæli mín til deildarinnar, að hlífa nú og íbúunum við nýrri lántöku, og þá ekki hvað síst vegna þess, að þeir hafa nýlega tekið á sig 20 þús. kr. lán, eins og fyrr var að vikið.

Geta má þess og enn fremur, að »Fiskifjelag Íslands« hefir, sem kunnugt er, lagt styrkbeiðninni bestu meðmæli sín, og veit jeg ekki, hvað málið ætti betur að geta stutt, því að ekki minnist jeg annars, en að hvert einasta mál, sem landbúnaðarfjelagið hefir stutt, hafi æ hlotið góðan byr á þinginu, og sama ætti þá ekki síður að gilda um »Fiskifjelagið«, þ. e. meðmæli þess, að verða þá og eigi síður þung á metunum.