23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Matthías Ólafsson:

Það er eins og áður, að jeg á enga brtt. við þenna kafla fjárlaganna, en langar þó til að gjöra athugasemdir um ýmsa liði í þeim. Svo er enn sem áður, að jeg get ekki lagt til mikils sparnaðar, og mun því fremur vera hlyntur þeim liðum, sem til hækkunar miða, ekki af því, að ekki mætti sjá af sumum liðum, jafnvel þeim, sem nefndin hefir komið með.

Jeg skal þá fyrst snúa mjer að 93. lið á atkvæðaskránni. Stjórnin hefir lagt til að veita 2000 kr. til aðgjörða á Þingvelli, en nefndin leggur nú til að fella þá fjárveitingu niður. Þeir, sem komið hafa á Þingvöll nú síðustu vikurnar, mundu ekki telja eftir þessa fjárupphæð, því að viðgjörð á vellinum má ekki lengur dragast. Hann er að blása upp, af því að efni í veginn hefir verið þaðan tekið. Þar ofan á bætist, að Öxará flóir út yfir völlinn í vöxtum. Jeg veit ekki til hvers menn vilja veita fje, ef ekki til þess að vernda þenna fornhelga stað, sem öllum Íslendingum á að vera heilagur. Enda veitir ekki af innan stundar að veita stórfje, til þess að koma þar upp veglegu gistihúsi og halda þar uppi eftirliti, sem ekki mun vanþörf á, því að menn blygðast sín ekki fyrir að rífa upp kjarrið á eystra barmi Almannagjár, svo að vagnar, sem verða á leið manna þangað, eru alþaktir hríslum. Þetta má ekki liðast. Og þó er ekki nóg með það; menn leyfa sjer jafnvel að kveikja í grasinu. Jeg sá það á dögunum, að kveikt hafði verið í grasi og rótin brunnið, svo að rjóður var komið eftir á stærð við þenna sal. Yfirleitt er svo óvistlegt þarna, eins og þar hefðu staðið þar herbúðir. Tómar dósir liggja þar á víð og dreif, svo að í myrkri eru menn ekki óhultir um að meiða sig, nema þeir gangi á þykkum stígvjelum. Jeg álít misráðið að fella niður þenna lið, því að vel má lagfæra þetta, og þótt upphæðin sje lítil, þá mundi hún þó gjöra gagn, en þótt upphæðin hefði verið miklu hærri, þá mundi jeg samt hafa greitt henni atkvæði, og er viss um, að kjósendur mínir mundu hafa orðið mjer þakklátir fyrir.

Þá er 96. liður á atkvæðaskránni, sá margumþráttaði styrkur til skálda og listamanna. Ekki get jeg heldur þar verið samdóma nefndinni. Jeg álit misráðið að lækka þenna lið, og hefði helst kosið, að hann hjeldist óbreyttur eins og hann er í stjórnarfrumv. og að stjórnin útbýti styrknum, enda var sú hugsun þingsins 1913, að losa þingið alveg við öll afskifti af úthlutun þessara styrkja. Mín skoðun var og er sú, að stofna bæri sjerstakan sjóð með 200– 300 þús. kr. stofnfje, en sjerstök nefnd verði svo skipuð til að útbýta vöxtunum.

Það er leiðinlegt, að þurfa að vera að togast á um þetta. Sumir segja það hættulegt, að eiga þessar styrkveitingar undir stjórninni. Er þá ekki hitt líka hættulegt, að þingið skuli hafa úthlutun skáldastyrksins til meðferðar? Jeg get ekki komist hjá því, að lýsa yfir því, að jeg vil veita talavert fje til skáldanna, því hvar stæðum við nú, ef við hefðum aldrei haft skáld? Jeg er viss um það, að það er beinlínis satt, að »Hallgrímur kvað heilaga glóð í freðnar þjóðir«.

Jeg held að engin þjóð geti lifað neinu lífi, sem vert er að kalla líf, án skálda, listamanna og vísindamanna. Jeg er viss um, að það er engu minni sannleikur en skáldskapur í þessum orðum Jónasar:

Vísindin efla alla dáð,

orkuna styrkja, viljann hvessa,

vonina glæða, hugann hressa,

farsældum vefja lýð og láð.

Þá vil jeg minnast örfáum orðum á bygginguna yfir listaverk Einars Jónssonar. Mjer er það óskiljanlegt, að nokkur skuli vilja mæla á móti því, að við látum byggja yfir listaverkin. Við höfðum nú þegið þessa gjöf að manninum, og við vitum það, að við getum ekki flutt listaverkin heim, fyrr en bygt hefir verið yfir þau. Það er auðvitað fjarstæða hjá háttv. þm. Dal. (B. J.), að hægt sje að byggja fyrir 600 kr. Það er ómögulegt. Við erum nú búnir að binda okkur, svo að við verðum að byggja, og þá er best að byggja veglegt hús. Það er ekki til neins að vera að byggja fyrir 10000 kr. Það hús yrði of lítið á næstunni, nema svo sje hagað til, að hægt sje að byggja við húsið síðar, svo að laglega fari á.

Jeg er háttv. fjárlaganefnd þakklátur fyrir hönd Fiskifjelagsins, fyrir örlæti hennar við það, þó að hún hafi ekki veitt fulla upphæðina, þá býst jeg við brtt. um það við 3. umr. Jeg er sjerstaklega þakklátur fyrir það, að fjeð til erindrekans erlendis er veitt skilyrðislaust. Jeg skal geta í fáum orðum um, hvernig á skilyrðinu stóð í síðustu fjárl.

Samband samvinnufjelaganna sótti um 4000 kr. styrk til erindreka erlendis, gegn því, að það legði til sömu upphæð. Fiskifjelagið fekk nú einnig styrk — sama augnamiði, með sama skilyrði. En það gat ekki lagt fram helming fjárins frá sjer, og það gekk illa að fá fjeð annarastaðar frá. Sjerstaklega tóku botnvörpungaútgjörðarmennirnir dauft í málið, og endirinn varð sá, að eigi fjekst annars staðar frá meira en 1800 kr., og fór því svo, að ekki fjekst meiri upphæð úr landssjóði. Nú fór Fiskifjelagið fram á, að fjeð til ráðunautsins yrði veitt skilyrðislaust. Hæstv. ráðherra tók þunglega í málið, og þótti kenna áhugaleysis hjá Fiskifjelaginu, en jeg get fullvissað háttv. deild um það, að Fiskifjelagið gjörði alt, sem hægt var að gjöra, og því ekki um að kenna. Það er heldur engin von, að svo ungt fjelag geti lagt fram jafnmikið fje og gömul samvinnufjelög. Nú hefir fjárlaganefndin orðið við bón Fiskifjelagsins og er jeg henni mjög þakklátur fyrir það. Jeg álít, að landið eigi að hafa erindreka erlendis, og það jafnvel fleiri en einn, og kosta hann að öllu leyti af landssjóði. Þetta ættu að vera föst embætti og þó að það kostaði 24,000 kr. hvert embætti, þá gæti svo farið, að það borgaði sig á einum degi. Aðrar þjóðir hafa menn út um allan heim, til þess að kynna sjer vörumarkaði, en kaupmannastjettin okkar hefir engan ráðunaut, og er þess þó síst vanþörf. Kaupmannastjettin heldur, ef til vill, að hún þurfi engan ráðunaut, en jeg get bent á mýmörg dæmi, er sýna hið gagnstæða. Fyrir ca. þrjátíu árum kom hingað Englendingur,Ward að

nafni, og keypti hjer fisk — smáfisk — og verkaði hann á annan hátt en áður hafði verið gjört. Hann keypti fiskinn á 180 kr. tonnið, en þegar hann verslað um ca. 20 ára tíma með þenna, fisk, þá kemur það upp, að hann hafði fengið ca. 400 kr. fyrir tonnið. Áður en Ward kom hingað, hafði þessi fiskur eigi verið í neinu verði. Þetta var hinn svo nefndi Labradorfiskur, sem lengi hefir verið kallaður hjer á landi Ward- fiskur. Þetta sýnir það best, að til geta verið markaðir, sem íslenska kaupmannastjettin veit ekki neitt af.

Þá vildi jeg minnast lítillega á brtt. 131 á atkvæðaskrá, frá háttv. þm,. N.- Ísf. (Sk. Th.), um brimbrjótinn í Bolungarvík. Jeg mun greiða atkvæði með henni, og falli hún, mun jeg greiða, atkvæði með tillögunni 133 á atkvæðaskrá, frá fjárlaganefndinni. En mjer mjög illa við skilyrði fjárlaganefndarinnar fyrir þeirri styrkveitingu. Nauðsynin til þess, að koma þessu stórvirki í framkvæmd, er afarmikil. Og það er ómögulegt að hugsa sjes, að einn hreppur geti lagt fram helming þess fjár, sem þarf. Það hefir verið talað um það, að áætlunin um hvað verkið mundi kosta hafi ekki verið ábyggileg. Það er rjett. En í upphafi vissu menn ekki að þetta gæti orðið slíkt stórmál, sem nú er sýnt að það verður. Jeg tel það mjög misráðið af þinginu, ef það vill ekki veita fje, nema því að eins, að Bolungarvík leggi fram helming á móti. Ef tekið er tillit til þess, hvað landssjóður fær í aðra hönd fyrir allan þann fisk sem aflast í Bolungarvík, þá hljóta, menn að finna, að ekki er hægt að telja þetta eftir.

Þá kem jeg að sparnaðartillögum mínum. Skal jeg þá fyrst minnast á tillögu 134 á atkvæðaskrá, um að veita 5000 kr. til þess að ryðja vör við Ingólfshöfða. Það hefir áður verið samþykt hjer, að fela stjórninni að láta rannsaka hafnarstæði á þessum stað. Það hefir ekki verið gjört enn sem komið er, því þó að Árni Zakaríasson og, ef til vill, einhver annar hafi rannsakað þarna lendingu, þá er ekki fyllilega að marka slíkt, og því vildi jeg helst láta þessa fjárveitingu bíða. Jeg álít sem sje, að þingið hafi enga tryggingu fyrir því, að þessum 5000 kr. verði ekki beinlínis kastað í sjóinn.

Þá vil jeg næst minnast á tillöguna um, að leggja fje til að byggja bryggju í Reyðarfirði og sömuleiðis í Búðardal. Jeg veit ekki til þess, að af þessum bryggjum sje nokkur teikning til, eða nokkur áætlun um kostnaðinn. Jeg hefi komið í Reyðarfjörð og sjeð að bryggjuleysi stendur þar ekki fyrir þrifum.

Jeg þykist þá ekki þurfa að segja meira. Atkvæðagreiðalan mun sýna afstöðu mína til annara liða fjárlaganna og brtt. þeirra, sem komið hafa fram: