23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Stefán Stefánsson :

Jeg sje ekki ástæðu til að fara að ræða mikið um brtt. þær, er fyrir liggja, því að nóg virðist vera um þær rætt orðið, og margt endurtekið.

En jeg á brtt. á þgskj. 430, er jeg vildi minnast á örfáum orðum.

Hún fer í þá átt, að maður sá, er hefir á hendi að leiðbeina mönnum í húsabyggingu í sveitum, fái svo sæmileg laun, að hann geti við þau lifað. Hann hefir haft 1000 króna laun að viðbættum alt að 400 krónum til ferðakostnaðar. Fjárlaganefndin hefir fengið brjef frá honum, þar sem hann sýnir fram á, að hann geti ekki lifað af þessum launum og óskar að þau verði hækkuð, mig minnir upp í 1800 kr. Nú hefir nefndin lagt til, að laun hans verði hækkuð úr 1000 kr. upp í 1200 krónur. En þar sem hann hefir lýst yfir því, að hann geti ekki haldið áfram þessu starfi, nema hann fái hækkuð laun sín að mun, sem er ofur eðlilegt, því að hann hefir bæði fyrir konu og börnum að sjá, þá fanst mjer þetta vera vel þess vert að gefa því gaum. Jeg hefi því komið fram með tillögu um að laun hans yrðu hækkuð upp í 1500 kr., og er það sú lægsta upphæð, sem hann hefir látið í ljós við mig, að sjer væri unt að ganga að. Maðurinn er orðinn kunnur víða um land, og væri mikil eftirsjón að honum, ef hans misti við. Því að hann er áhugamaður, hefir lagt sig fram allan og óskiftan, til þess að starf hana kæmi bændum að sem mestu og bestu liði, enda hefir árangur af starfinu orðið mikill og góður. Það er heldur ekki annars að vænta, því að hann er mikið vel að sjer í sinni grein, enda hefir hann varið til náms síns 10–12 árum, til þess að geta orðið sem nýtastur maður til þessa starfa. Fyrst stundaði hann timbursmíði í mörg ár, fór síðan til Noregs og lærir þar steinsteypugjörð. Kemur síðan hingað heim og tekur við starfinu í þeirri von, að hann fái sæmileg laun, eða þau laun, sem hann þó geti lifað af.

Síðastliðið ár, er hann hafði að eins 1000 kr., hefir hann varið frá sjálfum sjer alt að 400 krónum, en auðvitað getur slíkt ekki gengið til lengdar. Maðurinn er efnalítill, eina og geta má nærri eftir langt nám, og aðstandendur hans fremur fjelitlir, svo að nærri má geta, hvort hann er fær um stöðug útlát frá sjálfum sjer, enda í mesta máta ósanngjarnt. Þess vegna finst mjer alveg sjálfsagt, að svo framarlega sem þingið ætlast til, að hann haldi starfi sínu áfram, að það veiti honum þá þessa sjálfsögðu launahækkun.

Hæstv. ráðherra, háttv. þm. Dal. (B. J.) og háttv. þm. N.-Þ. (B. S.) hafa allir tekið vel í þessa málaleitan, og eftir orðum þeirra að dæma, verður að búast við því, að þessari litlu fjárveitingu verði vel tekið. Bændur hafa nú orðið fengið mikinn áhuga fyrir því, að vanda sem best bæjarbyggingar sínar, og vilja nú helst ekki framar byggja úr öðru efni en steini. Þess vegna sjá allir hversu afarnauðsynlegt það er, að hafa þann mann til að leiðbeina í þessu efni, er hefir lagt þetta fyrir sig og gjört að lífsstarfi sínu. Þess má geta, að hann hefir skrifað fjárlaganefndinni hjer í Nd., og sent henni ásamt því brjefi, þar sem hann óskaði hærri launa, mjög góð meðmæli frá þeim bændum, sem hann hefir mest unnið hjá að sínu byggingarstarfi; þau ættu því að vera nokkur sönnun fyrir því, að rjett sje að fylgja fram þessari tillögu minni.

Jeg skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en vænti þess, að þessi litla fjárveiting fái atkvæði sem allra flestra háttv. deildarmanna, því það er öldungis víst, eina og jeg hefi skýrt frá, að fái hann ekki þessa hækkun, verður hann að láta af starfinu, en það teldi jeg mjög illa farið, og mjög væri það gremjulegt fyrir hann, sem tekist hefir þetta á hendur með það fyrir augum, að vinna sem mest og best gagn.

En svo er það viðvíkjandi 21. gr. fjárlaganna, að jeg sakna þess mikillega, að ekki hefir fengist lánsheimild til póstafgreiðslumanna og símastjóra á Siglufirði, Jósefs Blöndal, sem hann hefir óskað eftir og fengið meðmæli með, bæði frá landssímastjóra og póstmeistara. Lánið, sem hann fer fram á að sjer verði veitt, er þó ekki hærra en 5–6000 krónur. Hann hefir bygt allvandað steinsteypuhús og er í því bæði póstafgreiðslan og símastöðin, sem áður var í fornfálegum timburhjalli, sem var alsendis óhæfilegur til slíkra almennra afnota, og ekkert var hægt að geyma í, nema það lægi undir stórskemdum.

Þegar á það er litið, að maðurinn er fátækur, en hefir þó ráðist í að byggja þarna allvandað steinsteypuhús, sem hefir kostað hann 15000 kr., þá er svo sem auðvitað, að hann hefir orðið að fá þetta fje mest að láni, og er þar af leiðandi í mestu vandræðum með að geta staðið í fullum skilum, og leitar þess vegna lánveitingar um nokkurra ára bil á þessum 1/3 af húsverðinu. Frá þingsins hálfu sýnist mjer það ekki vera nema lítil greiðvikni, þar sem um ekki hærri upphæð er að tala, en getur að hinu leytinu bjargað fjelitlum manni út úr fjárkröggum, sem hann hefir komist í, um leið og hann gjörði því opinbera mjög mikinn greiða.

Jeg verð því að leyfa mjer, við 3. umræðu, að koma fram með breytingartillögu viðvíkjandi þessari lánbeiðni, ef fjárlaganefndin sjer sjer ekki fært að taka þessa málaleitan til greina. Jeg tel það svo mikla framför fyrir hjeraðið, og svo mikinn feng fyrir það opinbera, að hafa fengið þarna sæmilegt hús í stað hjallsins, er var bæði sveitinni og landinu til minkunar, að jeg tel það ekki vansalaust að láta mann þennan fara algjörlega synjandi.

Um fleiri atriði ætla jeg ekki að tala, en mun sýna með atkvæði mínu, hvern veg jeg lít á breytingartillögur þær, er fyrir liggja.

Þá bar forseti upp tillögu, er komið hafði frá Bjarna Jónssyni, Bened. Sveinssyni, Skúla Thoroddsen, Magnúsi Kristjánssyni, Birni Kristjánssyni, Jóhanni Eyjólfssyni, Hannesi Hafstein, Hirti Snorrasyni og Sigurði Eggerz, um að fresta fundi, og var hún feld með 13:12 atkv. að viðhöfðu nafnakalli, og sögðu :

já:

nei:

Bened. Sveinsson,

Björn Hallsson,

Bjarni Jónsson,

Eggert Pálason,

Björn Kristjánss.,

Einar Arnórsson,

Guðm. Eggerz,

Einar Jónsson,

Hannes Hafstein,

Guðm. Hannesson,

Hjörtur Snorrason,

Jón Jónsson,

Jóhann Eyjólfsson,

Matth. Ólafsson,

Jón Magnússon,

Pjetur Jónsson,

Magnús Kristjánss.,

Sig. Gunnarsson,

Sigurður Eggerz.

Stefán Stefánsson,

Þór. Benediktsson:

Sveinn Björnsson,

Þorleifur Jónsson,