23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Guðmundur Hannesson:

Jeg gjöri ráð fyrir, að flestum sje nú orðið lítið um það, að lengja umræðurnar, en jeg stend í dálítilli skuld við háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.). Mig undrar stórum sú fyrirmunun, sem yfir honum er. Hann lýsti yfir því fyrir skömmu, og get jeg, hvað þetta snertir, skírskotað til allra hjer í deildinni, að jeg fer með rjett mál, að fjárbænir flytti hann engar fyrir kjósendur sína ; að eins ætlaði hann að sjá svo um eftir megni, að tekjuhalli yrði ekki í fjárlögunum. Rjett á eftir greiðir hann atkvæði með 39,300 kr. til vitabygginga, sem fjárlaganefnd hafði viljað spara, og 78,000 kr. til brúargjörðar á Jökulsá, sem fjárlaganefndin hafði einnig verið mótfallin. Á þennan hátt gjörir hann sitt til að auka tekjuhallann um nokkuð á annað hundrað þús. kr. Þetta afsakar hann svo á eftir með því, að segja, að ef illa ári, verði brúin ekki gjörð, og auk þess leggi hann til að fella Langadalsveginn. Þessar 14,000 kr., sem áætlaðar voru til hans, áttu að vega á móti vitunum. Þetta athæfi alt þarf ekki frekari skýringar. Það er blátt áfram að segja eitt og gjöra annað. Satt var það, að þetta var ekki fyrir hans kjördæmi, en hafi það út af fyrir sig sýnt nokkuð, þá sýndi það það, að hann væri ónýtur fulltrúi fyrir kjördæmið og annað ekki. Og þegar hann er svona þar, þá er ekki von á góðu, þegar hann kemst í ókunn hjeruð, t. d. vestur í Húnavatnssýslu, enda lagði hann þar til málanna ekki annað en rangt eitt. Hann hjelt því fram, að Hamarsá væri svo lítil spræna, að varla mætti væta í henni kött. Jeg ætla nú ekki neitt að fara að pexa um það við hann, en allir háttv. þm. mega nærri því geta, hvort hreppur og hjerað myndi láta sjer svo ant um að brúa ána og kosta til þess 4000 kr., ef svo væri.

Þá var hann að tala um póstleiðina í Húnavatnssýslu, en þekti ekki hvað sú leið var kölluð, sem hann taldi álitlegri en Langadalsveginn, Hann mun hafa átt við Kolugafjall, sem er einhver mesta fannakista á vetrum, fjallvegur, sem í mínum augum er miklu óhentugri. Seinast í ræðu sinni var hann að skamma gömlu bryggjuna á Blönduósi. Það eru vandkvæði á með þá bryggju, því miður; af því að hún var bygð þarna, en þrátt fyrir það má þó segja, að hún hafi enst vonum framar, þótt skemdir vofi alt af yfir henni.

Þá var hann að bregða mjer um, að jeg legði kapp á að krækja í fjárveitingar handa Húnavatnssýslu, 45,000 kr. til flutningabrautar og svo Langadalsveginn, en þar skýst nú þm. illa yfir, því að þar á jeg engan hlut að, heldur hefir stjórnin tekið það alt í frumv. sitt eftir tillögum verkfræðingsins, en hins vegar hefir Húnavatnssýsla setið lengi á hakanum með sína flutningabraut, og ósanngjarnt er það, að láta hana nú gjalda þess, að hún fær flutningabrautina miklu seinna en hin hjeruðin.

Annars hefði honum verið miklu nær að hrósa mjer fyrir það, að kröfur mínar voru ekki 1/10 hluti af kröfum sumra annara háttv. þm., en það var alt á eina bókina lært Það voru annaðhvort rangfærslur eða hreinar og beinar fjarstæður, er hann fór með. Þetta er undarlegt frá hana hálfu.

Hvað húsið á Gili snertir, sem hann var að blanda inn í umræðurnar, þá hefi jeg aldrei búist við að hann skilji, að það kunni að vera engu þýðingarminna fyrir þjóðina, að fá góð húsakynni, eins og hvort stjórnarskráin var samþykt í þetta sinn eða ekki, og að eins vel megi dæma um hvort byggingarlag sje gott eða ekki eftir litlu húsi eins og stóru. Ekkert af þessu skilur hann, og jeg bjóst heldur ekki við því.

En svo jeg víki nú frá þessu óhugðnæma umtalsefni, þá skal jeg geta þess, að jeg hefi því miður ekki getað aflað mjer þeirra upplýsinga um brimbrjótinn í Bolungarvík sem skyldi, og get því lítið um það mál sagt; en vel get jeg skilið það, að fátækum fiskimönnum veitist erfitt að leggja fram til helmings móti landssjóðsstyrknum.

Hvað snertir vörina við Ingólfshöfða, þá er enginn efi á því, að það væri til mikils gagns fyrir sveitina, ef hún gæti komist á, svo að hún yrði nothæf. Jeg heyri að það orkar tvímælis, hvort svo muni geta orðið. Jeg álit að minsta kosti nauðsynlegt, að fjárveitingin sje bundin því skilyrði, að verkfræðingur áliti að verkið geti komið að tilætluðum notum.

Jeg sje að nú er orðið svo áliðið nætur, og vil jeg ekki syndga meira upp á náðina, þó jeg ef til vill hefði gjört það að öðrum kosti.