23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Þá sný jeg mjer að skáldunum. Háttv. þm. N.-Þing. (B. S.) sagði, að það gæti verið hættulegt, að stjórnin úthlutaði styrknum, því að með því mundu skáldin verða loftungur stjórnarinnar; þar á móti mundi þeirrar hættu ekki gæta, ef þingið úthlutaði fjenu. En má jeg spyrja :

Veltur ekki líka á ýmsu í þinginu 2 Mun ekki vera hægt að nefna dæmi þess, að skáldastyrkirnir hafi hjer verið komnir undir pólitískum veðrabrigðum? Það er víst, að þingið eða meiri hluti þess hefir í flokkaæsingu beint reynt til þess að útiloka frá styrk þau skáld, sem ekki hafa sungið meiri hluta þingsins lof í það og það sinn. Annars er það undarlegt, að þessi orð skuli koma frá háttv. þm. N.-Þing. (B. S.), manni, sem eitt sinn hefir borið fram þá tillögu hjer á þingi, að allir skáldastyrkir skyldu afnumnir, þótt einn stæði hann uppi þá. Háttv. þm. (B. S.) mintist á eitt af vorum góðu skáldum, Jóhann Sigurjónsson, og mundi jeg síst hafa búist við þeim orðum frá honum, sem hann ljet þar um mælt. Ekki svo að skilja, að háttv. þm. vildi í nokkuru draga af sóma Jóhanns sem skálds, en hann taldi gjörsamlega óþarft að veita Jóhanni styrk hjeðan, með því að hann mundi hafa ærnar tekjur af leikritum sínum. Þessi orð hljóta að vera sprottin af ókunnugleika. Fyrst farið er að draga nöfn manna inn í umræðurnar, er mjer óhætt að geta þess, að mjer er kunnugt um, að fjárhagur Jóhanns er ekki góður nú sem stendur, svo að honum mundi þökk á því, að Alþingi sýndi honum nokkurn sóma, sem kæmi þá fram í peningalegu formi. Styrjöldin veldur því, að hann fær nú miklu minna fyrir leikrit sín en ella mundi. Leikhúsið Volks freie Bühne í Berlín greiðir honum nálega sömu upphæð sem Leikfjelag Reykjavíkur, og vita allir, að enginn verður feitur af því gjaldi. Mjer skildist svo á Jóhanni, þegar eg hitti hann í vor, að honum væri þægð í því, að Alþingi sýndi honum sóma á þennan hátt, enda er hann nú af kappi að vinna að leikriti úr einni af vorum bestu sögum, og býst jeg við, að honum þætti nokkuð undir því komið, að fá að njóta styrks þann tíma, sem hann hefir það leikrit í smíðum. Það er ekki síður sómi oss að styrkja þennan mann en honum að þiggja. Vjer verðum að gæta þess, að hann er nú að verða einn af vorum kunnustu mönnum erlendis, og rit hans hafa hlotið lof mikið af hinum helstu listdómurum og eru nú lesin um Þýskaland, England, Ameríku og Ítalíu, auk Norðurlanda.

Þetta hefi jeg sjeð í úrklippum ýmsra blaða, þar sem getið er rita Jóhanns, Fjalla-Eyvindar, Bóndans á Hrauni o. fl.

Um Einar Jónsson höggmyndasmið er ekki mikill ágreiningur. Allir virðast vera á einu máli um það, að hann sje góðs verður, og betur en vjer getum látið í tje. Um húsið yfir listaverk hans skal jeg geta þess, að jeg hefi hugsað mjer að það væri haft svo, að það gæti orðið stofn í stærra hús. Jeg er því miður ekki húsasmíðafróður, en tel sjálfsagt, að fenginn yrði uppdráttur og áætlun um húsið með það fyrir augum, að aukið yrði við.

Það er rjett hjá háttv. þm. N.-Þing. (B. S.), að söfnin eru að sprengja af sjer Safnahúsið. Ef nú stjórninni er veitt heimild til þess að kaupa Landsbankarústirnar, væri athugandi, hvort ekki mætti endurbæta þær svo, að flytja mætti þangað eitthvað af söfnunum. Annars hefi jeg heyrt, að Safnahúsið væri svo úr garði gjört, að auka mætti við það.

Jeg er sammála háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) um styrkinn til Stórstúkunnar. En jeg mundi vilja orða liðinn öðru vísi en fjárlaganefndin, þannig; að svo væri látið heita, að styrkurinn væri ætlaður til eflingar bindindi, eða eitthvað á þá leið. En við það kann jeg ekki, að styrkurinn sje ætlaður til þess að halda uppi bannlögunum, því að það heyrir undir löggæsluna, sýslumenn og bæjarfógeta. Þar á móti er styrkurinn vel fallinn til þess, að halda uppi bindindisfræðslu og bindindisáhuga. Það er svo um bannlögin, að þau hafa að vissu leyti hvatt til mótspyrnu gegn sjálfum sjer, og sumum þykir jafnvel fremd í að brjóta þessi lög. En þótt menn sjeu á móti lögunum, liggur við drengskapur þeirra og sjálfsögð borgaraskylda að brjóta þau ekki, á meðan þau haldast. Hitt er annað mál, að þeir, sem eru á móti lögunum, hafa fullan rjett til þess að sannfæra menn um það, að lögin sjeu ekki haldkvæm.

Um Miklavatnsmýri þarf jeg ekki að tala langt, því að sá fjárveitingarliður hefir ekki sætt miklum andmælum.

Jeg er þakklátur háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) fyrir undirtektir hans undir lánsheimildina til Skeiðaáveitunnar. Fjárlaganefnd hefir tekið þá heimild upp, og vona jeg, að háttv. deild taki vel í það mál, því að hjer er ekki um gjöf að ræða, heldur lán á ábyrgð sýslufjelagsins, og á að endurgreiðast með venjulegum hætti. Málið er að öllu undirbúið, og hlutaðeigandi hreppsfjelag og sýslufjelag útvega það fje, sem á vantar.

Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) mintist á styrk til skálda og listamanna, og talaði um að láta nefnd manna úthluta þessum styrk.

Jeg er hræddur um, að erfitt verði að koma þessu vel fyrir. Skáldin, sem manna best hafa vit á málinu, eru sjálf ofmikið við málin riðin, til þess að hægt verði að fela þeim að úthluta styrknum. Jeg játa hins vegar, að þessi nefnd væri vel fallin til að taka skellinn af stjórninni, og mjer er sannarlega ekki áhugamál, að stjórninni sje falið að úthluta þessum styrk. Það er auðvitað vandalítið að úthluta. styrknum, ef þingið er fyrir fram búið að ákveða, hverjir eigi að fá hann. En hitt er vandameira, ef mismunandi skoðanir koma fram í fjárlaganefndum efri og neðri deildar. Þá get jeg ekki sjeð annað en stjórnin hljóti að vera óbundin.

Þá skal jeg nefna styrkveitinguna til þess að afrita skjöl í útlendum söfnum. Mjer þykir það mjög eðlilegt, að fjárlaganefndin hefir ekki gjört sjer glögga grein fyrir þessum styrk. Það hefir áður verið veittur styrkur í sama augnamiði. Það er sami maðurinn, sem unnið hefir alt verkið fyrir bæði söfnin, Skjalasafnið og Landsbókasafnið. Þessi maður hefir unnið fyrir víst kaup um tímann. Það, sem hann hefir unnið fyrir Landsbókasafnið, hefir verið greitt hjá Dr. Finni Jónssyni, en útborgun á hinn hefir Jón Krabbe skrifstofustjóri annast, og ekkert hefir verið útborgað, nema samkvæmt vottorðum. Það hefir verið haft ríkt eftirlit með því, að ekki væri borgað fyrir meira en unnið væri, og hið sama verður gjört framvegis, ef fjárveitingin fæst.

Landsskjalavörður ræður, hvað afritað er fyrir Landsskjalasafnið, en landsbókavörður, hvað afritað er fyrir Landsbókasafnið. Tryggar verður því ekki fyrir komið.