11.09.1915
Efri deild: 58. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

112. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Frumvarp þetta hefir verið áður hjer í deildinni, og fór með töluverðum breytingum hjeðan til háttv. Nd. Þar voru þær allar teknar til greina, nema tvær, sundkensla í Reykjavík 600 kr. og námsstyrkur iðnaðarmanna erlendis 225 kr. Báðar þessar upphæðir höfðu verið veittar fyrir fjárhagstímabilið 1910–1911, en eigi notaðar þá, en svo voru þær greiddar 1912. Nefndinni hjer í deild þótti sjálfsagt að setja upphæðir þessar inn í frv. til endurveitingar. Við þessa skoðun heldur hún enn; þó þykir henni það ekki svo miklu máli skifta, að hún hirði um að hleypa málinu fyrir þessa sök í sameinað þing, þótt formlegra væri og rjettara að hafa það eins og það fór hjeðan úr deild, og það því frekar, sem tvær aðrar upphæðir, er líkt stendur á með, eru teknar upp til endurfjárveitingar á þessu þingi. Á þinginu 1911 voru prestinum að Kvennabrekku veittar 1200 kr. til baðstofubyggingar á prestssetrinu. Af þessum 1200 kr. voru að eins 600 borgaðar út á fjárhagstímabilinu, en 600 kr., sem eftir stóðu, eru settar inn í fjáraukalögin fyrir 1914–1915. Hin fjárveitingin snertir brúargjörð á Ljá í Dalasýslu. Á þinginu 1913 voru veittar 3000 kr. til brúargjörðar þessarar, en af vissum ástæðum var fje þetta ekki notað á fjárhagstímabilinu, og er nú í fjárlögunum farið fram á endurveiting fjár þessa.

Jeg bendi á þetta til þess að sýna að það sje ekki formlega rjett af háttv. Nd. að fella áður nefnda tvo liði burtu, og gagnstætt því, sem gert hefir verið á þingi í sumar um aðrar sams konar fjárveitingar. En með því báðar deildir hafa sýnt það, að þær eru samþykkar fjárveitingum þeim, sem hjer ræðir um, þá ræður nefndin til, að svo búið standi og að frv. sje samþ. óbreytt.